Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Reykv. lét í ljós áhyggjur yfir því hér áðan í sínu máli að fiskeldisfyrirtæki nytu ekki eðlilegrar fyrirgreiðslu, hvorki varðandi fjárfestingarlán né heldur varðandi rekstrarlán. Ég minnist þess frá því fyrstu dagana eftir áramótin síðustu að fyrir þingið var lagt frv. um Tryggingasjóð fiskeldislána og það lá svo mikið á á þeim tíma að þingmenn máttu helst ekki skoða það frv. nema brot úr degi áður en það yrði lögfest af því að ríkisstjórnin lofaði því þá að koma öllum hlutum í lag undir eins. Það mátti ekki bíða fram í febrúarmánuð að skoða frumvarpið. Að vísu var ekki reglugerð samin vegna þessara laga fyrr en undir febrúarlok, það er nú annað mál, og mér sýnist að það hafi gengið illa að starfa eftir henni.
    Ég sakna þess nú mjög að hæstv. ríkisstjórn, einhver þeirra, hæstv. forsrh. eða einhver annar af þessum ráðherrum sem eru svo málglaðir í sjónvarpinu og útvarpinu --- eyðilögðu nú fyrir okkur hádegisfréttirnar sl. sunnudag. Menn voru hressir eftir ellefumessu og máttu svo þola það að hlusta á hvern ráðherrann á fætur öðrum og guðsorðið fauk út í veður og vind eftir þessar nýju predikanir. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort einhver ráðherranna vildi kannski taka til máls í þinginu og svara þeim elskulegu og kurteislegu fyrirspurnum sem hér hafa komið fram og geri þingheimi grein fyrir því hver sé staða þessarar viðkvæmu atvinnugreinar sem við vitum að stendur nú mjög höllum fæti.
    Er það rétt hjá hv. 10. þm. Reykv. að fiskeldisfyrirtæki fái ekki eðlilega fyrirgreiðslu varðandi stofnlán þó svo að nægilegar eignir standi á móti? Og er það líka rétt sem hv. 10. þm. Reykv. hefur haldið fram að rekstrarlán til fiskeldis séu svo dýr að það geti engin atvinnugrein undir þeim staðið?
    Ég vil vona, hæstv. forseti, að ráðherrar fái svigrúm til að svara þessum einföldu spurningum. Ég tel satt að segja óeðlilegt, eins málglaðir og þeir eru í fjölmiðlunum, að þeir noti nú ekki tækifærið og tali hér í þingsalnum úr því að þeir eru spurðir. Annars höfum við orðið vör við það að þeim þykir miklu betra að hlaupa hér í afkima eða niður í Kringlu eða hliðarherbergi og tala þar svona prívat við fréttamennina en standa fyrir sínu máli í þingsölum sem þeim ber þó þingleg skylda til að gera.