Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu ætti nú að vera orðið ljóst öllum þingheimi. Ég mun kjósa að tala um það á nokkuð öðrum nótum en þeir sem talað hafa á undan mér hafa gert.
    Þær greiðslur sem inntar hafa verið af hendi samkvæmt ákvörðunum fjmrh. eða ríkisstjórnarinnar allrar án heimilda í fjárlögum eða öðrum lögum eru tilefni þessarar umræðu. Þetta er alvarlegra mál en svo að hjá því verði komist að ræða það. Nú er að vísu fjarri því að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt skeður en það réttlætir þó ekki gerðir núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að réttlæta neitt með því að segja: Ég er kannski slæmur en þú varst verri.
    Árum saman hefur viðgengist að ráðherrar og ríkisstjórnir hafi ráðstafað sameiginlegum fjármunum okkar allra umfram heimildir í lögum og oft, að mati hins almenna borgara, jafnvel eftir geðþóttaákvörðunum og Alþingi síðan gert að samþykkja orðinn hlut. Í seinni tíð hefur sú umræða orðið sífellt almennari og háværari að svo búið megi ekki lengur standa, setja verði skorður við þessum gegndarlausu og sívaxandi umframgreiðslum sem ráðherrar og ríkisstjórnir ástundi. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar stendur skýrum stöfum, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Vald fjmrh. til fjárveitinga umfram heimildir hefur verið talið helgast af þessum ákvæðum um fjáraukalög. Í framkvæmd hefur þetta vald ráðherra síðan verið túlkað svo rúmt að við liggur að ráðherrar hafi leyft sér að veita fé að vild úr ríkissjóði án þess að Alþingi komi þar við sögu. Og nær það nokkurri átt að þarna sé einum manni, þótt ráðherra sé, falið slíkt vald? Vald sem gengur þvert á það grundvallaratriði í stjórnskipan ríkisins að Alþingi fari með fjárveitingavaldið. Menn spyrja að vonum hverjar séu orsakir að því að útgjöldin fara sífelldlega svo langt fram úr því sem fjárlög á hverjum tíma gera ráð fyrir og heimila. Auðvitað er það eins á ríkisheimilinu og á hverju öðru heimili að aðstæður skapast sem kalla á brýn og fyrirvaralaus útgjöld sem bregðast verður við. En þarf þá ekki að áætla fyrir því og eiga varasjóði að grípa til? Þar hefur sú fyrirhyggja víst sjaldnast svifið yfir vötnunum og ekki hefur verið ráðstöfunarfé innan ráðuneyta nema í smáum stíl til að mæta ófyrirséðum útgjöldum.
    Aukafjárveitingar eiga sér mjög mismunandi orsakir og hversu fegin sem við vildum er afar erfitt að komast algjörlega hjá þeim nema með því að áætla nokkuð ríflega fyrir því ófyrirséða á útgjaldahliðinni í fjárlögum. Ástæðan liggur fyrst og fremst í undirbúningi fjárlaganna og fjárlagagerðinni sjálfri. Það vantar ekki að um allt ríkiskerfið eru gerðar áætlanir um rekstur og framkvæmdir, sums staðar svo nákvæmar að varla skakkar krónu. Margir áætlanasmiðir leggja metnað sinn í að áætla allt sem best og hugsa jafnt um hag sinnar stofnunar og ríkisins. En smám saman lærist þeim að öll þessi

vinna og alúð fer fyrir lítið þegar fjárlagasmiðir koma höndum yfir þessar áætlanir, því þeir sníða af þeim --- oft harla tilviljanakennt --- til þess að koma þeim fyrir innan þess ramma sem þeim hefur verið settur. Iðulega fer þá lítið fyrir samræmi milli þeirra verkefna sem stofnuninni eru falin og þess fjármagns sem henni er ætlað til þeirra. Útkoman verður því oftlega sú að ekki tekst að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga og þá er sótt á um aukafjárveitingu. Gegn slíku er oft erfitt að standa þegar þörfin er augljós og bersýnilega hefur verið vanáætlað frá byrjun. Þannig eru margar aukafjárveitingar til komnar en það sem verra er: Þessi vinnubrögð grafa undan kerfinu.
    Menn fara í fyrsta lagi að áætla umfram þörf til að reyna að færa niðurstöðuna eilítið nær raunveruleikanum og í öðru lagi fara menn svo að treysta á aukafjárveitingar þegar eytt hefur verið umfram heimildir. Og í raun og veru eru það þeir frekustu og eyðslusömustu sem uppskera mest að lokum og þannig grafa þessi vinnubrögð við fjárlagagerðina undan siðferði í ríkisrekstri og það er býsna alvarlegt mál.
    Við kvennalistakonur höfum margsinnis bent á nauðsyn þess að bæta vinnubrögð við fjárlagagerð og gera miklu meira en verið hefur að því að endurskoða og endurmeta verkefni og stofnanir á vegum ríkisins og reyna með því móti að nálgast raunveruleikann í fjárveitingum til hinna ýmsu liða í dæminu stóra. Margir þessara liða eru býsna fjarlægir þeim sem taka ákvarðanir um fjárþörfina. Aðrir sem nær eru njóta meiri skilnings, eins og t.d. skrifstofur ráðuneytanna. Vissulega eru verkefni þar mörg og stór og sennilega telja starfsmenn þar ekki í of mikið lagt miðað við verkefnin en staðreyndin er sú að skrifstofur ráðuneytanna fá alltaf bestu fyrirgreiðsluna hjá þeim sem ráða. Þar er hlutfallsleg hækkun á fjárlögum ævinlega mest því hver er sjálfum sér næstur og skilningur mestur á eigin þörf vegna þess hvernig vinnubrögðin eru. Það versta við þessi vinnubrögð er að í skjóli þeirra taka ráðherrar sér síðan vald til fjárveitinga til eins og annars sem er óforsvaranlegt með öllu.
    Þegar hækkun gjalda ríkissjóðs frá því sem fjárlög segja til um er komin á áttunda milljarð á haustdögum þá er von að fólk velti fyrir sér hvernig
fjárlagagerðinni yfirleitt sé háttað. Á heimilunum í landinu reyna menn yfirleitt að gera skynsamlegar áætlanir um tekjur og gjöld næsta árs og miða síðan lífsmáta sinn við það. En það virðist svo sem stjórnvöldum hérlendis sé þetta yfirleitt ofraun. Áætlanir þeirra sem birtast í fjárlagafrv. og fjárlögum sýnast oft markast fremur af óskhyggju en raunveruleika.
    Við afgreiðslu núgildandi fjárlaga bentum við kvennalistakonur ítrekað á að ýmsar þær forsendur sem þau byggðust á myndu tæplega standast. Við bentum á að ekki væri áætlað fyrir nema broti af þeim launahækkunum sem óumflýjanlega hlytu að verða. Við bentum á það að niðurgreiðslur hlytu óhjákvæmilega að verða hærri en áætlað var, sem er

komið á daginn. Við bentum á að hæpin rök væru fyrir því að áætla verðbólgustigið aðeins 12% á árinu og nú bendir allt til þess að það verði um eða yfir 20% á ársgrundvelli. Við bentum á að fé vantaði stórlega til vegamála og við bentum á að ríkisstjórnin væri óþarflega bjartsýn þegar hún hugðist spara 1100 millj. kr. í launum, risnu og sérfræðikostnaði. Ýmsar fyrri ríkisstjórnir hafa áður haft þetta á dagskrá án þess að það kæmist til framkvæmda, enda skortir a.m.k. 400 millj. á að þetta markmið hafi náðst. Ríkisstjórnin kaus að hafa þessar ábendingar að engu og þegar sýnilegt var að allt færi úr böndum var gripið til ýmissa ráðstafana sem eru umdeilanlegar svo vægt sé til orða tekið. Staðið var að vísu við loforð um skattalækkanir um 500 millj. en á móti kom að aðrir skattar voru hækkaðir um 800 millj. og ríkisstjórnin þarf ekki að ímynda sér neitt um það að fólk taki ekki eftir svona ráðstöfunum eða gleymi þeim.
    Í gærkvöldi var brugðið upp á sjónvarpsskjáinn nokkrum upplýsingum um eyðslu sendiráðanna umfram það sem þeim var skammtað á fjárlögum. Þær upphæðir voru á bilinu frá þremur að rúmum níu millj. kr. Og þá er óhjákvæmilega spurt: Eru áætlanagerðir um fjárþörf þessara stofnana svona gersamlega út í hött eða er þetta eingöngu bruðl og óráðsía?
    Undanfarin ár hefur ríkisstjórnum verið svo mikið í mun að leggja fram fjárlagafrv. sem væru hallalaus á pappírnum að segja má að niðurstöðurnar hafi verið ómarktæk plögg eins og þau umframútgjöld sýna sem árlega hefur reynst nauðsyn að samþykkja. Tekjur hafa verið ofáætlaðar, gjöld vanáætluð, forsendur teygðar og togaðar eftir vild. Er þá skemmst að minnast lokaafgreiðslu núgildandi fjárlaga þegar áætlaðar tekjur B-hluta stofnana voru hækkaðar eftir hentugleikum og þar sem það dugði ekki til var bilið brúað með því að gera ráð fyrir breyttri sjóðsstöðu. Allt var þetta gert til að fá út jöfnuð á pappírnum sem síðan stenst ekki í veruleikanum. Og þetta er vísvitandi gert og vísvitandi hafa verið ár eftir ár samþykkt fjárlög sem ekki standast með atbeina stuðningsflokka ríkisstjórna. En þetta kallar auðvitað á þann eftirleik sem menn eiga erfitt með að sætta sig við og er bein óvirðing við Alþingi.
    Fjvn. hefur nú um skeið unnið að því, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. nefndi, að móta reglur sem setji skorður við sívaxandi eyðslu utan fjárlaganna og án heimilda og má búast við að þær verði kynntar þingheimi innan tíðar. Og eins og komið hefur fram í máli mínu og hans er setning slíkra reglna fyllilega tímabær fyrst samviska og sómatilfinning þeirra sem hlut eiga að máli dugar ekki til að vísa þeim leiðina.
    Ég hef ekki gert hér að umræðuefni einstakar greiðslur eða ráðstöfun fjár, aðeins reynt að vekja athygli á því hve ómarktæk fjárlög hafa reynst á undanförnum árum þrátt fyrir atbeina allra þeirra ,,fræðinga`` sem gerð þeirra hafa með höndum. Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á að það verður að vinna að því í fyllstu alvöru að fjárlagagerðin sé vönduð og

forsendur trúverðugar. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að það frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 sem við nú höfum í höndum er sama marki brennt og frv. í fyrra og þarnæst áður þó aldrei nema það sé lagt fram með halla. Það eru engar líkur til þess að forsendur þess um laun, verðlag og gengi standist fremur en fyrirrennara þess. Og því hlýtur að verða kallað eftir aukagreiðslum þegar er líður á næsta ár og sami leikurinn hefst þá enn á ný. Sú hugsun verður því töluvert áleitin hvort þeim mönnum sem fjárlagagerðinni ráða sé gersamlega fyrirmunað að læra af reynslunni.