Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég átti nú ekki von á þessari taugaveiklun hér í þinginu í dag og var því miður búinn að binda mig á milli fimm og sjö og þess vegna mun ég aðeins tala nokkur orð.
    Við hv. þm. Pálmi Jónsson höfum verið jafnlengi á þingi. Ég er minnugur og ég er undrandi á hans ræðu og þeim stóru orðum sem hann lét falla. Ég hefði trúað því á marga aðra frekar að hafa slík orð í frammi. Hann var sem sagt hneykslaður yfir því og alveg undrandi að það skyldi orðið við þeirri ósk að ég fengi aðstoðarmann þar sem annaðhvort hefði ég orðið í þessum sporum að taka ráðuneyti, eins og á stóð, eða fá mann og það var vegna þess að ég þurfti að hafa einhverja til þess að sinna því að undirbúa mál. Ég fæ að hafa mann í hverri nefnd, eða svo til, sem ég get til þess að undirbúa frv. sem er verið að leggja fyrir Alþingi og ég þarf að fylgjast með gangi þessara mála. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en það kann að vera að við annað tækifæri, hv. 2. þm. Norðurl. v., rifji ég upp þann tíma sem hann var ráðherra og hann var formaður fjvn., en þá voru að vísu aðrir í stjórn. Það er nefnilega ekki sama hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu sem tala öðruvísi. Það á auðvitað við fleiri heldur en hv. þm. Pálma Jónsson en það er ekki betra fyrir það.
    En sem sagt, ég lofaði því að hafa þetta stutt en þau orð sem hann viðhafði hér áðan verða geymd en ekki gleymd.