Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Forusta Sjálfstfl. mun hafa ákveðið að biðja um þessa utandagskrárumræðu á fyrsta degi þingsins. Mér hefur fundist í þeim tveimur ræðum sem hv. þm. Pálmi Jónsson flutti hér að þar hafi góður drengur verið að ganga erinda sem aðrir hafa ákveðið. Sem handritið að leiksýningunni sé skrifað af öðrum mönnum og er á engan hátt í samræmi við starfsferil, sjónarmið og aðgerðir hv. þm. Pálma Jónssonar, hvorki þegar hann sat í ríkisstjórn né þegar hann hefur verið formaður fjvn. eða setið hér sem þm. Ég tek sem dæmi það (Gripið fram í.) já, það er alveg rétt. ( PJ: Hæstv. fjmrh., ég hef nú hingað til skrifað mínar ræður sjálfur.) Já, það er alveg rétt, ég dreg ekkert í efa að þm. hafi skrifað ræðuna sjálfur. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að þessi utandagskrárumræða var fyrsta ósk forustu Sjálfstfl. um hvað yrði hér tekið fyrir og mér fundust mótsagnirnar milli þeirra orða sem féllu nú hjá hv. þm. Pálma Jónssyni og hans verka áður vera slíkar að það gat ekki verið að hann sæi ekki sjálfur ósamkvæmnina þar á milli.
    Hér hefur t.d. verið mikið gert úr því að það komu til starfa pólitískir aðstoðarmenn í ráðuneytum án þess að slíkt hafi verið ákveðið fyrir fram með lögum. Ef ég man rétt, hv. þm. Pálmi Jónsson, þá varð staða efnahagsráðunautar ríkisstjórnar til í þeirri ríkisstjórn þar sem hv. þm. Pálmi Jónsson var ráðherra, ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, og var ákveðin af forsrh. og sett upp án þess að nokkuð hefði verið um það mál eða þá breytingu fjallað á Alþingi. Og ég heyrði ekki að við það væru gerðar neinar sérstakar athugasemdir, hvorki af hv. ráðherra Pálma Jónssyni sem þá sat í þeirri ríkisstjórn né hv. þingheimi eða öðrum. Það var talið sjálfsagt mál að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens gæti sett upp þennan starfsvettvang inni í forsrn. án þess að uppfylla þau skilyrði sem nú eru allt í einu talin slík að ef það er ekki gert þá sé það siðleysi og lögbrot.
    Ég vil líka vekja athygli hv. þm. á því að fjárveitingar til þeirra starfsmanna t.d. í mínu ráðuneyti, sem hann hefur hér gert að umtalsefni, hafa verið samþykktar á hv. Alþingi í fjárlögum sem gilda fyrir þetta ár. Ég hef ekki tekið neinn mann inn í fjmrn. án þess að fjárveitingar hafi áður legið fyrir í fjárlögum fyrir gildandi ár. Ég tek sem dæmi að upplýsingafulltrúinn starfaði nánast frá 1987 og fram á fyrstu mánuði þessa árs. Það var þess vegna í fjárlagafrv. fyrir þetta ár ætlað fyrir þeim starfskrafti eins og áður. Og auðvitað er það þannig eins og þeir þekkja að í fjárlögum fyrir hvert ár eru ákveðnar fjárveitingar til fjölmargra starfssviða innan ráðuneyta og í ríkisstofnunum. Þess vegna hefur Alþingi með samþykkt fjárlaga staðfest þessa ráðstöfun fjármuna og ávísað á áframhaldandi ráðstöfun fjármuna með þessum hætti.
    Ég vil líka vekja athygli á því, af því að hér hefur mikið verið rætt um svokölluð lögbrot, að í 1. gr. laga um eftirlit með ráðningu starfsmanna ríkisins

stendur: ,,Óheimilt er að fjölga föstum starfsmönnum í þjónustu ríkisins``. Enginn af þeim mönnum sem hér hefur verið fjallað um sérstaklega af hálfu þm. Sjálfstfl. eru fastir starfsmenn ríkisins, ekki nokkur þeirra. Þeir eru allir ráðnir með tímabundnum hætti og einkum og sér í lagi sá sem hér hefur nú oftast verið nefndur og er sérstakur aðstoðarmaður þingflokksins Samtaka jafnréttis og félagshyggju. ( HBl: Það er ekki þingflokkur.) Nei, ég hef þegar gert það að umtalsefni að hann er ekki lögformlega þingflokkur, það er alveg rétt, hv. þm. Halldór Blöndal. En eins og hér hefur komið fram og kemur fram í ráðningarsamningi viðkomandi manns er þar um tímabundna ráðningu að ræða og sá er munurinn á þeim upplýsingafulltrúa sem ég hef ráðið og þeim sem störfuðu þarna áður að það var ekki um tímabundna ráðningu að ræða. Það hefur þess vegna ekki verið framið neitt brot á þessum lögum þar sem kveðið er á um að um fastráðna starfsmenn sé að ræða og það breytir engu, ( Gripið fram í: Hvað stendur í 2. gr.) já, já, það er alveg ljóst hvað stendur í 2. gr. vegna þess að 2. gr. á auðvitað við það sem verið er að tala um í 1. gr. eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson veit ósköp vel og það breytir þess vegna engu hve oft þm. Sjálfstfl. kjósa að endurtaka það hér í ræðustólnum að um eitthvert sérstakt lögbrot sé að ræða, um það er ekki að ræða. Ef aftur á móti hefði þarna verið ráðið fólk til fastra starfa inni í ráðuneytunum þá væri hægt að leggja umræðuna fyrir á þessum grundvelli sem hér hefur verið gert.
    Ég tel þess vegna að það séu fjölmörg fordæmi innan Stjórnarráðs Íslands fyrir því sem hér er verið að hneykslast sérstaklega á, alveg á sama hátt og fordæmin fyrir aukafjárveitingunum eru áratuga hefð í Stjórnarráði Íslands. Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Pálmi Jónsson er mér sammála um að þeirri hefð þurfi að breyta.
    Ég vil þess vegna sérstaklega ítreka það að hér er ekki um fastbundnar stöður að ræða, hér er um tímabundnar ráðningar að ræða og þess vegna hafa engin lög verið brotin í þessu efni.
    Og eins og hér hefur komið fram, og kýs ég nú að hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hv. þm. Geir Haarde geti hlýtt á mál mitt, þá hefur það komið fyrir að menn
kjósa að fjármagna flokkspólitíska ráðgjöf af opinberu fé. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson upplýsti það hér að hann hefði ráðið Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstfl., og Björn Bjarnason, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, til þess að vera ráðgjafar sínir á leiðtogafundi NATO vegna þess að þeir væru fulltrúar Sjálfstfl. í Öryggismálanefnd. Öryggismálanefnd barst ekkert bréf um þetta verkefni. Það var ekki leitað til Öryggismálanefndar sem stofnunar um að veita ráðgjöf við þennan NATO-fund. Það var ekki óskað eftir því að framkvæmdastjóri Öryggismálanefndar sem er þó greinilega sérfróðasti maðurinn um þessi efni veitti þáverandi forsrh. ráðgjöf. Það var ekki óskað eftir því að formaður nefndarinnar veitti forsrh. þessa ráðgjöf. Í staðinn eru

valdir flokkspólitískir fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni og ákveðið að þeir skuli ferðast á ríkisins kostnað til þess að veita forsrh. flokkspólitíska ráðgjöf. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég hlýddi á ræðu Þorsteins Pálssonar hér áðan að þessir tveir einstaklingar hefðu verið valdir út frá þessum flokkspólitísku hagsmunum. Ég hélt satt að segja að þeir hefðu kannski verið valdir vegna þess að þeir í sjálfu sér væru kunnáttumenn og nánir samstarfsmenn ráðherrans að öðru leyti en ekki vegna þess að þeir væru formlega flokkspólitískir fulltrúar í tiltekinni nefnd. Og það má auðvitað hafa mörg orð um það hvort það sé réttlætanlegt fyrir einstaka ráðherra að taka flokkspólitíska fulltrúa hingað og þangað úr stjórnkerfinu og greiða síðan af ríkisfé ferðakostnað þeirra og önnur gjöld þó að þeim séu ekki greidd laun fyrir.
    Á sama hátt má segja að hægt sé að gera við það margvíslegar athugasemdir að forsrh. kýs að fara út fyrir embættismannakerfið til þess að fá fulltrúa á löggjafarþinginu til þess að undirbúa embættislega ferð sína til Bandaríkjanna. Og af því að hv. þm. Þorsteinn Pálsson fór svona heilögum orðum um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þá er það væntanlega ekki í samræmi við slíkan aðskilnað að kjörnir fulltrúar á Alþingi séu valdir til þess að sinna embættislegum verkum í ráðuneytunum þó að ekki komi beinar launagreiðslur fyrir. Ég tók það hins vegar skýrt fram í minni ræðu að ég væri ekki að gagnrýna þetta. En ég tók hins vegar sem dæmi um það að í Stjórnarráði Íslands, m.a. í forsætisráðherratíð Sjálfstfl. og hef ég þó ekki framkvæmt neina sérstaka rannsókn á þessu embætti, það voru bara tvö dæmi sem ég mundi eftir sjálfur, það getur vel verið að þau hafi verið fleiri, ég hef ekki hugmynd um það, þá hafi það tíðkast að velja menn eftir flokkspólitískum hagsmunum og greiða síðan kostnaðinn vegna starfa þeirra úr sjóði ríkisins.
    Ég ætla nú ekki að gera hér að umræðuefni á nýjan leik það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði um þennan aukafjárveitingalista sem ég lagði fram í fjvn. Ég er jafnundrandi eins og áður á því hvernig hann kýs að fara með það mál. Það er svona álíka eins og blaðagrein sem hv. þm. skrifaði hér í Morgunblaðið sl. vetur og hann veit að var ekki sannleikanum samkvæm um ákveðnar upplýsingar og annað í samskiptum fjmrh. og fjvn. Ég hef lýst yfir þeim vilja mínum að hafa mjög góð samskipti við fjvn. og leggja á hennar borð ýmis gögn nánast jafnóðum og þau hafa verið tilbúin. Og ég veit að hv. þm. viðurkennir það, vegna þess að það hefur oft komið fram af hans hálfu á þessum fundum, að það stendur ekki á mér eða fjmrn. undir minni stjórn að veita fjvn. upplýsingar. Það er svo allt annar handleggur hvort menn vilja láta á nákvæmlega sama degi það skjal sem lagt er fram á fundi fjvn. ganga beint til fjölmiðla eða hvort menn kjósa að hafa þar ítarlegri upplýsingar heldur en að öllu jöfnu eru taldar nægja þm. Og það er alrangt að það hafi verið mín afstaða að þessar ákvarðanir um aukafjárveitingar væru

eitthvert sérstakt trúnaðarmál samkvæmt venjulegum skilningi þess orðs. Það sem ég sagði einfaldlega var að ef það væri vilji til þess að birta þær nú strax, þá teldi ég réttara að búa og ganga um þær með öðrum hætti.
    Það er svo alveg ljóst í þessari umræðu að formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, og hv. þm. Pálmi Jónsson kveinka sér auðvitað mjög undan umræðunni um aukafjárveitingaferil Sjálfstfl. vegna þess að sá ferill varpar náttúrlega mjög skýru ljósi á það hvernig þessir herramenn hafa umgengist ríkisfjármálin á undanförnum árum. Ég mun hér leggja fram á Alþingi innan tíðar skýrslu um þróun ríkisfjármála, sérstaklega ríkisútgjalda, frá árinu 1983. Það verður skýrsla sem lýsir mjög vel hvernig ríkisútgjöldin fóru úr böndunum í ráðsmennskutíð Sjálfstfl. En við skulum geyma okkur þá umræðu þangað til að því kemur.
    Hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson beindi hér til mín 2--3 spurningum. Það er mjög skiljanlegt að það hvarfli að nýjum þm. hér í salnum þegar þeir heyra þessar heilagleikaræður hv. þm. Pálma Jónssonar og Þorsteins Pálssonar að spyrja: Fyrir hvaða heimildir var Víðishúsið keypt? Fyrir hvaða heimildir var Mjólkursamsalan keypt? Hvað gerði þáv. formaður fjvn. þegar þessi kaup áttu sér stað? Fór hann upp utan dagskrár á Alþingi á fyrsta almennum umræðudegi þings til þess að spyrja um heimildir? Hvað gerði þáv. fjmrh. þegar það var gert? Það er ósköp eðlilegt að nýir þm. spyrji að því. Og hvað gerðu menn þegar framkvæmdirnar við flugstöðina voru í fullum gangi? Var þá leitað
heimilda? Var þá farið til fjvn.? Var þá farið til Alþingis þegar þurfti að ljúka öllu vegna kosningahagsmuna Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi og landinu öllu? Og hvar voru fjárveitingaheimildirnar fyrir kosningaveislu Sjálfstfl. í flugstöðinni fyrir þingkosningarnar 1987? Hvar voru heimildirnar til að fara ekki bara tugi milljóna heldur hundruð milljóna fram úr heimildum sem Alþingi hafði veitt? Svo koma þessir menn hér og þykjast vera einhverjir sérstakir talsmenn nýrra siða í meðferð ríkisfjármála. Það væri fróðlegt að hv. þm. Pálmi Jónsson svaraði hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, hver var afstaða formanns fjvn. til kaupanna á Víðishúsinu? ( PJ: Ég var á móti því.) En voru þau lögleg? ( PJ: Það var samþykkt í fjvn.) Það var samþykkt í fjvn. ( PJ: Ég var á móti því.) Á eftir eða áður? ( PJ: Áður.) En formaður fjvn. á móti því? ( PJ: Ég var ekki formaður fjvn.) En hafði fjvn. lagagildi í málinu? Var einhver heimildargrein í fjárlögum um að það ætti að samþykkja þetta jafnvel þó að fjvn. samþykkti? Nei, auðvitað ekki. ( PJ: Það var almenn heimild.) Það var almenn heimild, já, akkúrat, svona almenn heimild takk. Það er mjög þægilegt að hafa svona almennar heimildir til að kaupa svona hin og þessi stórhýsi.
    En auðvitað er það þannig að ferill Sjálfstfl. í þessum málum er með eindæmum og það er fyrst í tíð þessarar ríkisstjórnar sem er reynt með markvissum hætti að koma þeim siðum í framkvæmd að það dragi

úr og verði að lokum útrýmt þeim siðvenjum sem hér hafa tíðkast í þessum efnum í gegnum árin. ( EKJ: Var Jón Baldvin alveg ómögulegur?) Nei, hann var það ekki og eins og þær tölur sýna sem ég rakti hér áðan, þá hófust þær aðgerðir sem drógu verulega úr aukafjárveitingum í fjármálaráðherratíð hæstv. núv. utanrrh. ( EKJ: Það misskildi núv. ríkisstjórn.) Já, það er efnislega rétt að það var fyrst í tíð núv. ríkisstjórnar sem var ákveðið að leggja fram fjáraukalög m.a. vegna þess að ég reikna með því að gamla kerfið sem Sjálfstfl. hefur stýrt hér í áratugi hafi haft svo sterka hagsmunagæslumenn innan þeirrar ríkisstjórnar að Sjálfstfl. hafði í raun og veru engan áhuga á nýjum siðum í þessum efnum. Hann vildi fá að hafa gamla lagið á þessu, enda er það ekki fyrr en Sjálfstfl. kemur í stjórnarandstöðu sem allt í einu vakna upp þessir siðapostular Sjálfstfl. Meðan þeir höfðu völdin til að gera það, þá heyrðist ekki í þeim og munurinn á þeim og okkur er sá að við breytum þessu þegar við höfum völdin, en Sjálfstfl. talar bara um það þegar ekkert reynir á það hvort hann ætlar að framkvæma það.
    Ég mun hins vegar leitast við að veita síðar nákvæm svör við þeim spurningum sem hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson bar hér fram um eðli kaupa Víðishússins á sínum tíma, um eðli kaupa Mjólkursamsölunnar á sínum tíma og um hvernig flugstöðvarbyggingin var rekin og reist umfram heimildir. Ég hef þær tölur ekki hér við hendina, en tel sjálfsagt að veita hv. þm. síðar þær upplýsingar.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson fór hér í ákveðinn reikning og vildi fá út úr því að þær aukafjárveitingar sem ákveðnar hafa verið á þessu ári hefðu verið meiri að magni heldur en aðrar á fyrri árum að meðaltali. Ég vil í þessu sambandi upplýsa það, og ég hafði ekki ástæðu til þess áðan, að af þeim rúmlega 800 millj. sem þarna um ræðir sem af er liðið þessu ári, þá eru tæplega 400 millj. vegna þriggja liða. Það er í fyrsta lagi endurgreiðsla söluskatts til útflutningsatvinnuveganna, það eru í öðru lagi niðurgreiðslur á orkuverði og það eru í þriðja lagi auknar greiðslur vegna ríkisábyrgða á launum sem fallið hafa vegna tíðra gjaldþrota. Þessir þrír liðir eru tæplega helmingur af öllum þeim fjármunum sem aukafjárveitingar þær sem af er þessa árs taka til.
    Varðandi það sem stendur í 6. gr. fjárlagafrv. fyrir næsta ár og hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér að varðandi sölu hluta húsnæðisins í Fannborg sem keypt var, þá stafar það af því, eins og ég vænti að ég hafi greint hér frá áðan en skal endurtaka, að ákveðið var í samskiptum ríkis og Kópavogsbæjar að ríkið keypti alla eignina en seldi síðan þann hlut sem Kópavogur ætlaði að kaupa handa Kópavogsbæ á árinu 1990. Þess vegna er leitað eftir formlegri heimild til þess að selja þennan hluta til Kópavogs sem ákveðið var í upphafi þegar frá samningunum var gengið að Kópavogur ætti að fá í sinn hlut.
    Þessi umræða, virðulegi forseti, hefur á margan hátt verið fróðleg. Ég fagna því að Sjálfstfl. virðist í þessum ræðum hér ætla að ganga í lið með okkur

siðabótamönnum í þessum efnum og vænti þess þá að ef og þegar að því kemur einhvern tíma eftir langa framtíð að Sjálfstfl. fari með forræði mála í Stjórnarráði Íslands, þá fylgi hann eftir þeirri siðabót sem við verðum búnir að koma á í sameiningu og brjóti hana ekki niður.