Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessa frv. fyrir það að flytja það aftur hér inn á Alþingi því að hér er hreyft við máli sem hefur mikla þýðingu og það að því er fleiri varðar heldur en þann hóp sem hér er sérstaklega um getið. Hér erum við að tala um hið mikilvæga fórnarstarf sem oft á tíðum er innt af hendi á heimilum til þess að annast sjúka og aldraða og hið mikla þjóðhagslega hlutverk sem þeir sem slíku sinna gegna. Ég er því mjög sammála um að svo beri að standa að þóknun til þessa umönnunarfólks sem hér er stungið upp á í fyrri grein þessa frv. að þar stofnist réttur til bóta undir vissum kringumstæðum þegar hinn heimavinnandi afstýrir því með vinnu sinni að til komi þörf á stofnanavist sem annars hefði orðið nauðsynleg, er enda oft á tíðum mjög illfáanleg. Það segir sig sjálft hve mikilvægt það er að á margan hátt, bæði vegna hins aldraða sjálfs eins og sér og svo þjóðfélagsins í heild, að þessi heimavinna verði til þess að aldraður einstaklingur geti sem lengst verið í sínu eigin gamla umhverfi.
    Að þessu atriði er vikið að því er varðar ýmsa hópa í málefnatillögum Sjálfstfl. Ég vil gjarnan minna á að í umfjöllun Sjálfstfl. um landbúnaðarmál nú á dögunum á landsfundi sem nýlega var haldinn, þar gerum við einmitt ráð fyrir því að sérstakur lífeyrir geri fólki sem landbúnaðarstörf stundar kleift að vera sem lengst í sínu eigin umhverfi þó að það geti ekki lengur stundað þau erfiðu störf. Þess vegna var það að mér þótti sú hugsun falla saman við það sem hv. 1. flm. minntist á þegar hún benti á að það væru oftast nær konur sem sinntu umönnun aldraðra og sjúkra úti um landið og oft á tíðum á jörðum sem lítinn landbúnað bæru. Það getur vissulega verið skynsamlegt að veita sérstakan lífeyri til þess að það fólk geti verið áfram í sínum gömlu heimkynnum í stað þess að flytjast burt um langan veg frá heimili sínu til þess að dveljast á stofnunum annars staðar.
    Ég vil taka það fram að ég er sammála hæstv. ráðherra um 3. mgr. fyrri greinar frv. Ég tel það ekki einsýnt að tryggingarnar ættu að greiða endurmenntunarkostnað fullfrískra einstaklinga. Ég tel það vera verkefni sem er sinnt annars staðar í þjóðfélaginu. Hins vegar snertir þetta mál miklu víðara svið. Þetta snertir þá aðstöðu fólks, sem hefur um langan aldur stundað heimilisstörf og umönnunarstörf á heimilum, þá aðstöðu sem það fólk hefur til þess að hasla sér völl úti á hinum almenna vinnumarkaði. Og það er svo að enn þá er sú mikla reynsla, sem slíkt fólk hefur --- þaulreyndar húsmæður og margþjálfaðir umönnunarmenn eða konur, þeir sem hafa mikla þjálfun í að hjúkra sjúkum og annast á heimilum þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir --- þessi mikla reynsla er lítils metin þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Og við höfum oftsinnis samþykkt um það tillögur hér á Alþingi að fela ríkisstjórninni í samráði við aðila vinnumarkaðarins að koma því svo fyrir að þessi störf verði metin til launaflokkahækkunar úti á vinnumarkaðinum, þessi

mikilvæga reynsla sem hér er um að ræða. Ég tel að þetta sé atriði sem þurfi ekki síður að hafa í huga en endurmenntun til annars konar starfa. Þarna er þekking og reynsla fyrir hendi sem er mjög mikils virði. Það sem máli skiptir er að hún verði metin til fulls þegar út á annan starfsvettvang kemur. Á þessu vildi ég nú sérstaklega vekja athygli og ég hygg að við gætum e.t.v. tekið það sérstaklega fyrir í nefndinni hvort komið gætu til skjalanna fleiri aðilar þarna en þeir sem hv. flm. stinga upp á.
    Meginefni frv. er ég hins vegar innilega samþykk og tel það vera hið mesta þjóðþrifamál, og ég vonast til þess að það verði inni í hinu nýja frv. sem hæstv. ráðherra hefur hér minnst á og verði einn af þeim jákvæðu hlutum sem þar verða inni. Það skaðar ekki þó að ég fái að nefna það í leiðinni að ég vonast til þess að hæstv. ráðherra hafi fallið frá þeim furðulegu hugmyndum sínum að fara að hafa svokallaða tekjuviðmiðun í öllum lífeyri almannatrygginga. Það er ekki langt síðan það kom fram í fjölmiðlum af hálfu fleiri en eins ráðherra. M.a. sagði hæstv. fjmrh. það í fjölmiðlum að það væri ekki einungis rangt heldur ósiðlegt að greiða grunnlífeyri úr almannatryggingum til þeirra sem hefðu góðar tekjur og tiltekin tekjumörk voru raunar nefnd.
    Ef hæstv. ríkisstjórn er enn þá þessarar skoðunar vonast ég til að hún skipti um skoðun áður en þetta frv. verður lagt fram því að ella stendur þessi hæstv. ríkisstjórn, sem stundum kallar sig ríkisstjórn félagshyggju, uppi sem sú ríkisstjórn sem afnam eitthvert stærsta framfaraspor í félagslegu öryggi sem stigið hefur verið á okkar landi, en það var einmitt þegar almannatryggingar fóru fyrst að standa undir nafni á þann hátt að það var ekki lengur nein ölmusa að fá greiðslu úr almannatryggingum, heldur réttur sem menn höfðu keypt sér fyrir hluta af andvirði síns eigin vinnuframlags. Og það er þetta sem er ósiðlegt í þessu máli, ef mönnum dettur í hug að afnema þennan rétt. Það er spor aftur til fortíðarinnar og það er ekki verið að taka upp neitt sem setur fagran svip á fortíðina eða söguna. Þar er verið að hverfa
aftur til þeirrar forneskju sem gerði fólk að bónbjargamönnum. Almannatryggingarnar eiga að koma í veg fyrir það og almannatryggingarnar eiga að standa undir greiðslum við viss atvik í lífi manna sem eru þannig að allir sem keypt hafa sér þann rétt til að fá greiðslur þegar viss atvik ber að höndum fái þær án þess að verið sé að setja þann hinn sama á vogarskálar stjórnvalda.
    Ég gat ekki stillt mig um, herra forseti, að minnast á þetta atriði líka því að það hefur ekki lítil áhrif á framkvæmd þeirrar hugmyndar sem nefnd er í þessu frv. Sá sem er sjúkur og örvasa getur alveg eins verið sá sem haft hefur og jafnvel hefur góðar tekjur, eignatekjur eða lífeyristekjur, en hann er allt að einu mikillar hjálpar þurfi. Hér getur því sannarlega átt í hlut sá hópur sem frv. fjallar um.
    Ég vonast þess vegna til að í því frv. sem hæstv. ráðherra hefur hér minnst á verði einungis stigin framfaraspor, en þar verði ekkert spor stigið sem getur

rifið niður það velferðarþjóðfélag sem við höfum verið að byggja upp og sett stolt okkar í.