Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið en það var beint til mín spurningu og erum við þó farin að ræða dálítið langt út frá efni þessa frv. sem hér er á dagskrá. Þess vegna skal ég ekki taka langan tíma í það núna vegna þess að við eigum ábyggilega eftir að fá tækifæri og tíma til þess að ræða það síðar.
    En það voru einmitt síðustu orð hv. 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar um það að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur í raun verið að auka vægi tekjutryggingar og þar með draga úr vægi grunnlífeyrisins sem ég vildi undirstrika og er það sem við höfum verið að tala um í ríkisstjórninni. Það er kannski forsendan eða grunnurinn fyrir því að við ræðum um að afnema á einhverju tekjubili grunnlífeyrinn. Um þetta hefur enn þá ekki verið tekin endanleg ákvörðun, ég ítreka það. Umræðan verður að sjálfsögðu tekin upp hér aftur síðar. En það að auka vægi tekjutryggingarinnar og draga úr hlutverki grunnlífeyrisins er raunverulega bara það sama og við höfum verið að ræða um núna þó að menn geti alltaf greint á um það hvort það eigi þá að halda eftir einhverjum grunnlífeyri sem þá er kannski nánast að verða nafnið eitt, sem 10 þús. kr. grunnlífeyrir e.t.v. er ef menn eru að tala um framfærslu fjölskyldu eða nauðsyn þess að einstaklingum séu tryggðar tekjur til lífsviðurværis. Menn eru auðvitað að viðurkenna það að þetta er mjög lítill hluti orðinn af því og þá sem hafa ,,verulegar tekjur``, án þess að skilgreina það á þessu stigi nánar, munar a.m.k. marga hverja ekki mikið um þennan grunnlífeyri.
    Það er svo líka mál sem á vafalaust eftir að ræða hér í vetur áfram ef við höldum okkur við þessar hugmyndir, að afnema grunnlífeyrinn alveg á einhverju ákveðnu tekjubili með því að tekjutengja hann hliðstætt tekjutryggingunni, hvaða rétt menn eiga til hans út á iðgjaldagreiðslu fyrri ára. Ég skal ekki um það deila á þessu stigi. Við höfum þó látið skoða það, og a.m.k. þau lögfræðiálit sem ég hef fengið eru samhljóða um að það sé ekkert sem kemur í veg fyrir slíka breytingu. Og auðvitað eru menn að breyta lögum látlaust þó svo að einhverjar aðrar forsendur hafi verið fyrir ákvæðum þeirra við setningu fyrir árum eða jafnvel áratugum síðan.
    Og að því er varðar sjúkratryggingamálin, þ.e. hvort einstaklingar eldri eða yngri eiga að taka meiri þátt í kostnaði við þá þjónustu sem sjúkratryggingar veita þeim, t.d. legu á sjúkrahúsum, sérfræðiþjónustu og lyf, þá hefur þetta allt saman verið í umræðu að undanförnu. Ég vil segja hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og öðrum það. Samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrv. er ætlunin að spara verulega í sjúkratryggingunum og þar þarf að skoða ýmsar leiðir og ýmsar hugmyndir. Ég vildi þó reyna, og vona að það takist, að gera það með því að hagræða og spara innan kerfisins án þess að þurfa að draga úr þeirri þjónustu sem það veitir og án þess að þurfa að stórauka þátttöku einstaklingsins

sem þarf á þessari þjónustu að halda. Að öðru leyti ætla ég að láta þetta duga, en veit að meiri umræða á eftir að verða um það síðar í vetur.