Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Það er í raun og veru búið að koma hér fram það sem ég ætlaði að segja um þetta frv. en ég vildi fyrst og fremst koma hér til þess að taka undir ágæti þessa máls og lýsa stuðningi við það. Ég hef ætíð verið talsmaður þess að færa sem flest verkefni heim í héruð og hér er eitt slíkt mál á döfinni og þess vegna vil ég eindregið lýsa stuðningi við slíkar hugmyndir að gera sveitarfélögin sem mest sjálfstæð í ferðamálum heima í héraði.
    Hér var minnst á ferðaþjónustu bænda og það var nú einmitt eitt af því sem ég ætlaði að koma inn á og lýsa ánægju með. Ég hef heyrt frá mörgum sem hafa notað þessa þjónustu að þeir eru mjög ánægðir með hana. Í raun og veru má segja að þetta sé ný atvinnugrein hjá okkur, ferðaþjónusta yfirleitt. Hún hefur verið að þróast á undanförnum árum og breytast í ýmsa þætti sem virðast koma þegar kallað er eftir þeim eins og ferðaþjónusta bænda. Ég held einmitt, eins og hér hefur reyndar komið fram hjá öðrum, að þetta sé mjög vinsælt, ekki síst hjá útlendingum, eitthvað nýtt sem e.t.v. er ekki svo algengt annars staðar.
    Hv. 2. þm. Suðurl., 1. flm. frv., minntist á að hann hefði komið í lítinn bæ í Austurríki sem ekki virtist hafa upp á jafnmarga möguleika að bjóða í ferðaþjónustu eins og jafnvel við hefðum hér. Ég held einmitt að þetta sé rétt, við höfum ekki alltaf komið auga á hvað það er sem útlendingar vilja sækja hingað til okkar. Og eins og kom hér fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v., þá er það kannski ekki síst að í stað þess að við Íslendingar kaupum sólarlandaferðir getum við selt jafnvel rokið og rigninguna. Það er ekki víst að þeir séu að sækjast eftir sólinni sem eru í henni allan ársins hring, heldur vilja gjarnan fá tilbreytingu varðandi veðurfarið. Við höfum verið að selja hér svokallaðar safariferðir sem eru mjög vinsælar, þ.e. ferðir inn í óbyggðir. Mér er líka kunnugt um að margir leita hingað í fuglaskoðunarleiðangra því að hér er mikil fjölbreytni á því sviði á ýmsum stöðum eins og við þekkjum. Og svo má minnast á Bláa lónið eða heilsulindirnar. Ég hef þá trú að í framtíðinni eigi eftir að rísa þar upp mjög vinsæl ferðamannaþjónusta sem er heilsulindin í Bláa lóninu og raunar víðar á landinu. En ég vildi sem sagt lýsa stuðningi mínum við þær hugmyndir sem þetta frv. fjallar um.