Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég held ég megi nú til með, þó ég hafi ekki ætlað mér að koma hingað aftur, að svara hv. 3. þm. Vestf. örlítið. Hann veit það fullvel að augu kvennalistakvenna opnuðust ekki í sumar eftir yfirreið um landið. Ef hann hefði bara hrist svolítið upp í minni sínu, þá hefði hann kannski rámað í það að við höfum talað fyrir þessu máli hér í nærri sex ár á þinginu að auka þyrfti fjölbreytni atvinnuhátta á landsbyggðinni, og þá í strjálbýli eða dreifbýli eða hvað menn kjósa að kalla það. Einmitt vegna þess að við trúum því að það sé nauðsynlegt að byggð haldist sem víðast í landinu. En hún gerir það ekki ef þeir sem fara með fjárveitingavaldið sýna landsbyggðinni ekki skilning --- og nú bið ég hv. 3. þm. Vestf. að leggja vel við hlustirnar ( KP: Ég geri það yfirleitt.) því að ef ég man rétt, þá hefur hann komið þar að í alllangan tíma í sínum störfum hér á þingi og ég held að það sé ekki vanþörf á því að minna jafnt dreifbýlisþingmenn og þéttbýlisþingmenn á það að standa betur að þessum málum. Þau væru ekki í þeim lamasessi sem þau eru í núna ef þeir hefðu unnið betur að þeim. Þess vegna er þörf að minna á og ítreka og ef hv. þm. hefði hlustað vel á mig áðan, þá hefði hann heyrt mig segja: ítreka, ég notaði orðið ítreka. Það ítrekaðist og rifjaðist upp og minnti verulega illa á sig sú staðreynd sem blasir við þeim sem búa úti á landi. (Gripið fram í.) Já. Það er ekki vanþörf að minna stjórnmálamenn á það hvernig málum er komið þar og ég mun koma aftur upp og gera það og ef það kostar mig að þurfa að svara hv. 3. þm. Vestf., þá mun ég líka gera það.