Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það sem hv. 4. þm. Austurl. hafði eftir mér úr útvarpsviðtali var ekki nema hluti af því sem ég sagði í svari við spurningu fréttamannsins, en það er kannski full ástæða til þess að minna á að það er ekki síst vegna ákvarðana stjórnmálamanna hvernig komið er málum víða á landsbyggðinni. Það er ekki síst vegna þeirrar kjördæmaskipunar sem nú ríkir að sum byggðarlög hanga á horriminni og það er varla lifandi í þeim fyrir fólk vegna þess að fjárveitingavaldið sem slíkt hefur ekki staðið sómasamlega að uppbyggingu. Víða er svo málum komið að aðstaða fyrir börn og unglinga í skólamálum og öðrum málum sem eru nauðsynleg til þess að þessir einstaklingar geti orðið samkeppnisfærir í þjóðfélaginu er svo bágborin að það er ekki við það unandi. Á sama tíma er peningum veitt til annarra framkvæmda vegna þess að stjórnmálamenn ákveða svo. Það verður til þess að sum byggðarlög, einkum jaðarbyggðir, deyja smám saman út. En línurnar eru ekki hreinar vegna þess að ákvarðanatakan er ekki hrein. Hún er einnig of tilviljanakennd. Og það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta. Það sem ég var að segja í þessu viðtali er ekkert annað en sannleikurinn. Það hefur vantað pólitískt hugrekki til þess að taka á þessum málum hér á landi og það er kominn tími til að það verði gert vegna þess að þessi þróun verður nú þegar af sjálfu sér. Hún er þegar sýnileg fyrir augum ykkar allra, ekki síst dreifbýlismannanna. En það þarf pólitískt hugrekki til að taka skynsamlega á byggðaþróun, af framsýni, og það þarf samráð við þá sem búa í byggðarlögunum til þess að taka þessar ákvarðanir. (Gripið fram í.) Nei, einmitt ekki til þess að láta þau deyja út af sjálfu sér með þeim harmkvælum sem það kostar og með þeim mannlegu fórnum sem það kostar, því að það kostar mannlegar fórnir. Og fólkinu er ekki bjóðandi upp á slíkt ráðaleysi. Ég á ekki við það að miðstýring eða einhver stjórnvaldsaðili ætti að leggja af byggðarlög. Þau eru þó mörg að leggjast af vegna skorts á stuðningi og það er skylda og ábyrgð lýðræðislega kjörinna fulltrúa að taka á málunum en ekki í skammsýnum jafnvel eiginhagsmunatilgangi. Þetta er stórt og þetta er mikið mál.