Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Stefán Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Það er dálítið merkilegt hvernig þessi umræða hefur þróast, við erum allt í einu komin í umræður um byggðamál, allt í einu og nánast af tilviljun farin að ræða hér um byggðamál. Ég fagna því vissulega að það hafi gerst, en ég hefði hins vegar miklu fremur kosið að við hefðum getað tekið hér nokkra daga í almennilega umræðu um byggðamál en ekki undir þessum dagskrárlið. ( SalÞ: Það gefst tími í það.) Núna? Það ber bara ekki rétt að.
    Ég get sagt margt um byggðamál og hef eðlilega hugsað mikið um byggðamál þar sem ég á heima úti á landsbyggðinni og hef starfað þar mikið og þekki þau þess vegna nokkuð vel. Ég held að við gerum engum greiða með því að halda og segja, telja jafnvel okkar nánustu trú um það að það sé allt saman vonlaust hjá okkur, allt sé að fara norður og niður. Margt hefur áunnist og margt hefur verið vel gert. Og það var tekið fram áðan af hv. síðasta ræðumanni. Hann nefndi t.d. skólamál. Hvers virði halda menn að það sé að nú á örfáum árum og er kannski rétt verið að ljúka því núna er verið að byggja upp fjölbrauta- og menntaskóla í öllum dreifbýliskjördæmum landsins. Við sem búum á þessum stöðum þar sem þetta hefur gerst lifðum þá tíð að á ákveðnum degi á haustin fækkaði skyndilega fólki í plássunum hjá okkur. Það fór stór hópur af ákveðinni kynslóð. Núna bregður hins vegar svo við að hann er ekki aðeins kyrr heldur fyllist bærinn af fjörmiklu, ungu fólki. Þetta skyldi þó ekki vera ástæða þess að nú er Háskólinn að springa, það skyldi þó ekki vera að þetta væri ástæðan fyrir því, að allt í einu opnuðust dyr fyrir þetta fólk til að sækja svo djarft fram til mennta eins og nú er. Ég er sannfærður um það að þetta er ein meginástæðan fyrir því að núna eru líklega, ja, ég væri ekki hissa þó að það væru 5--6 þúsund manns innritaðir í Háskóla Íslands. Þetta er stórt byggðamál og því ber að fagna.
    Ég nefni einnig eins og hv. síðasti ræðumaður heilsugæslustöðvarnar, uppbyggingu heilsugæslustöðvanna. Þar er um gífurlega mikil þjónustustörf að ræða. Ég nefni líka samgöngumálin, það sem áunnist hefur í samgöngumálum. Margt er vissulega eftir þar. Og ég nefni fjölmiðlun.
    Það má enginn taka orð mín svo að það sé ekki margt eftir að gera. Margt, margt er enn óunnið, því miður allt of margt. En við þyrftum, þingmenn, að reyna að ná sáttum um það hvernig við viljum standa að byggðamálum. Ég er ekki búinn að sjá það að Alþingi í dag takist að ná sáttum um þau mál, því miður.
    Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því þegar við tölum um þessi byggðamál af hverju þessi vandi stafar. Áttaði Kvennalistinn sig ekki á því fyrr en hann ferðaðist um landið í góðviðrinu í sumar og sá hvernig ástandið var? Átta menn sig ekki á því að við sem búum úti á landi og byggjum þessi framleiðslubyggðarlög okkar megum búa við framleiðslustjórnun í nánast öllum atvinnugreinum okkar, en hér á þessu svæði er allt frjálst. Það er

munurinn. (Gripið fram í.) Það er ekki um kvóta að ræða, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Við búum hins vegar við framleiðslustjórnun, og ef þú ert að meina það, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að við séum eitthvað að ræða hér kvótamál, þá er það ekki. Það hefur fallið í hlut Framsfl. að takast á við þau mál, Guðmundur H. Garðarsson, að skipuleggja fiskveiðar og skipuleggja landbúnaðarframleiðslu í landinu sem var gert með búvörulögunum 1985. Menn þorðu ekki að gera það fyrr. En það eru þessar skipulagsbreytingar sem orðið hafa á háttum bæði í landbúnaði og sjávarútvegi sem vega hér hvað þyngst. Og það er nauðsynlegt fyrir fólk að átta sig á því. Og stærsta byggðamálið í dag, og það skulu vera mín síðustu orð, og á því þurfa þingmenn að átta sig, stærsta byggðamálið í dag er það að komið verði rekstrargrundvelli undir aðalatvinnuveg landsmanna. Við þurfum ekkert að vera hér og ræða um byggðamál á meðan sjávarútveginum eru ekki búin eðlileg rekstrarskilyrði. Þá getum við hætt að tala um byggðamál. Það er aðalmálið í dag að við komum rekstrargrundvelli undir sjávarútveginn, hann fái eðlileg starfsskilyrði. Þá er ég ekki svo mjög hræddur í byggðamálunum. Það er mál nr. eitt, tvö og þrjú.