Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri ræðu sem hv. þm. Jónas Hallgrímsson flutti hér rétt áðan. Hún gefur mér tilefni til þess að fjalla um þetta í þrengri umræðu en ég hafði gert ráð fyrir miðað við það sem hér hefur áður farið fram. Það hefur raunverulega þróast upp í umræður um byggðastefnu.
    Hv. þm. Jónas Hallgrímsson kom inn á það atriði sem við, ég og hv. þm. Egill Jónsson, lögðum áherslu á á síðasta þingi þegar við lögðum fram till. til þál. um það að Egilsstaðaflugvöllur yrði gerður að millilandaflugvelli eða alþjóðaflugvelli. Við lögðum þessa tillögu fram, ef ég man rétt, nákvæmlega 18. eða 19. okt. 1988 og tillagan fól það einmitt í sér að Egilsstaðaflugvöllur yrði þannig útbúinn að hann gæti tekið við millilandaflugvélum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst að muni hafa alveg gífurlega mikla þýðingu fyrir alla byggð og atvinnustarfsemi á Austurlandi. (Gripið fram í.) Þetta er flugvöllurinn á Egilsstöðum, já. Ég vil þess vegna segja það sem mína skoðun að ég fagna því að hv. þm. Jónas Hallgrímsson skuli hafa undirstrikað einmitt þetta atriði og þá stefnu sem fram kom í okkar þáltill. og varð tilefni til mikillar umræðu hér á hv. þingi á sl. vetri. Sú umræða gerði það m.a. að verkum að hæstv. samgrh. sá sér ekki annað kleift en að lýsa því yfir á því þingi að í hans ráðuneyti yrði unnið og staðið þannig að málum að þessi flugvöllur yrði millilandaflugvöllur.
    Varðandi eitt atriði í ræðu hv. þm. Jónasar Hallgrímssonar vil ég segja það að ég er ekki alveg sammála honum um það þegar hann sagði að ferðaþjónusta annars vegar og fiskvinnsla eða sjávarútvegur hins vegar væru ólíkir þættir eins og hv. þm. orðaði það. Það er staðreynd að það er margt sameiginlegt með þessum atvinnugreinum ef ég mætti orða það þannig. Staðreyndin er sú, eins og kom fram í ræðu hv. þm., að með bættum samgöngum, betri flugvöllum, sem m.a. geta þjónað alþjóðaflugi, mun erlendur ferðamannastraumur aukast til Íslands og einmitt sú tegund ferðamanna sem við Íslendingar hljótum að sækjast eftir sem er það fólk sem greiðir fyrir sína dvöl hér á Íslandi. Það hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir alla ferðaþjónustu, fyrir hótelin úti á landi og vegna þess fólks sem stendur að þessari atvinnugrein.
    Ég vil í sambandi við þessa umræðu einnig mótmæla því og harma það að það skuli hafa komið fram í ræðu eins hv. þm., Unnars Þórs Böðvarssonar, hann sagði eitthvað á þá leið að ferðaþjónusta væri eiginlega hálfgert betlistarf. Ég vil mótmæla því að sú hugsun komi fram hér á hv. Alþingi að hv. þm. leyfi sér að líkja ferðaþjónustunni við betlistarf. Ég skil ekki alveg hvað í þessu felst og hefði óskað eftir því að hv. þm. væri hér viðstaddur þannig að hann gæti skilgreint nánar og skýrt betur fyrir okkur hv. þm. hvað hann átti við með því að ferðaþjónusta væri betlistarf. Ég mótmæli því að þetta skuli hafa verið sagt á hinu háa Alþingi fyrir hönd þeirra sem við

þessi störf fást og vegna þess fólks sem stendur í þessari uppbyggingu. Hér er að vísu einn af forustumönnunum á þessu sviði, hv. þm. Jónas Hallgrímsson, þannig að hann hefði nú kannski getað spurt hv. þm. að þessu einnig eins og ég og tekið þátt í mínum mótmælum sem ég efast ekki um að hann geri. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. tók ekki eftir þessu.
    En varðandi önnur atriði í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram vil ég, virðulegi forseti, leyfa mér að koma inn á það sem lýtur að byggðastefnu og starfsgrundvelli helstu atvinnuvega þjóðarinnar. Hér hafa aðrir hv. þm. talað um stöðu atvinnuveganna og það var mjög athyglisverð yfirlýsing sem kom frá einum aðalstuðningsmanni núv. ríkisstjórnar, hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. ( Gripið fram í: Er hann í hópnum?) Það er mjög athyglisvert fyrir okkur þingmenn að heyra þennan aðalstuðningsmann hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar lýsa því yfir að hann óttist það að ekki takist að tryggja stöðu framleiðslugreinanna sem skyldi. Þetta er náttúrlega mjög mikil yfirlýsing af hálfu þessa hv. þm. þar sem hann er nú einn aðalstuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar. Hann lýsir því yfir sem sagt við upphaf þings að núv. hæstv. ríkisstjórn muni ekki geta sinnt því grundvallar- og meginhlutverki og sinni meginskyldu að koma rekstrargrundvelli sjávarútvegs og fiskvinnslu og útflutningsatvinnuveganna í það gott horf að íslenska þjóðin geti vænst þess að þessi ríkisstjórn geti stjórnað landinu. Þetta er mjög mikil yfirlýsing vegna þess að hún eykur á óvissu fólks um afkomu þess og atvinnumöguleika í nánustu framtíð. Nóg er nú komið þó það bætist ekki við að í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar skuli það koma fram hjá stuðningsmönnum hennar að hún muni ekki geta valdið sínu verkefni. Þetta eykur gífurlega á óvissuna í stjórnmálunum og einnig um það að ríkisstjórninni takist að stjórna sem skyldi auk þess sem þetta mun hafa bein áhrif á afkomu fólksins í landinu, ekki aðeins þeirra sem búa í strjálbýlinu, heldur einnig þeirra sem búa hér í þéttbýlinu. Ég vil þess vegna óska eftir því að hv. þm. geri betur grein fyrir máli sínu þannig að þjóðin verði betur upplýst um það hvers vegna hv. þm. óttast það að þetta takist ekki.
    Mér er það ljóst, og okkur stjórnarandstæðingum er það ljóst, að þessi
ríkisstjórn getur ekki stjórnað landinu sem skyldi þannig að vel takist til. Ríkisstjórn sem stofnuð er með þeim hætti sem við þekkjum til á sl. hausti getur ekki stjórnað landinu svo vel sé og ætla ég ekki að rekja það nánar.
    Það var eitt í ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar sem ég vil víkja nokkuð að. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið þegar hann var hér að flytja sína ræðu að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafi tekið upp hanskann fyrir Kvennalistann. Ég var ekki farinn að segja eitt einasta orð í þessari umræðu þannig að ég skil ekki alveg hvað hv. þm. átti við. Alla vega skildi ég ekki (Gripið fram í.) Ég sagði ekki eitt einasta orð um það. Ég spurði bara hv. þm. þegar hann talaði,

þegar hann var að ásaka kvennalistakonur fyrir að þær hefðu ekki haft kjark, hvort hann ætti við það að þær hefðu ekki viljað vera í núv. ríkisstjórn og því svaraði hv. þm. ekki. Ég var ekkert að taka upp hanskann þá fyrir kvennalistakonur, enda er þess ekki þörf, þær gera það sjálfar og þarf ekki að fara langt til þess að undirstrika það að þær hafa staðið fyrir sínu, alla vega betur en flokkur hv. þm. Karvels Pálmasonar, Alþfl. Þær hafa þó haldið sæmilega fylgi sínu í skoðanakönnunum á sama tíma sem Alþfl. virðist vera að hverfa út af borðinu. Ég var sem sagt ekki búinn að segja eitt einasta orð um það hvað snýr að kvennalistakonum út af fyrir sig og alls ekki í þessari umræðu og alls ekki varðandi það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hafði hér fjallað um.
    Ég vil þó leyfa mér að segja, vegna þess sem hv. þm. sagði, að kvennalistakonur hafa þó haft og ekki skort kjark til þess að taka afstöðu til þess sem lýtur að efnahags- og atvinnumálum. Þær gerðu það raunverulega þegar þær tóku afstöðu til núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þær höfðu ekki trú á því að sú stefna í atvinnu- og efnahagsmálum sem þessi hæstv. ríkisstjórn bauð upp á á sl. sumri, þegar var verið að stokka upp í ríkisstjórninni, mundi færa íslensku þjóðinni þá lífshamingju að þær sæju ástæðu til að styðja þá atvinnustefnu. Og ég verð nú að segja það að þá er hv. þm. illa lesinn í pólitískum fræðum ef hann hefur ekki fylgst með því að þær hafa sína stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum alveg eins og við hinir hv. þm. Ég held því að við verðum að láta hlutina vera eins og þeir blasa við manni í raunveruleikanum en ekki vera hér með fullyrðingar sem standast ekki. Ég vil samt segja það kvennalistakonum til hróss að þær höfðu kjark til þess sem mestu máli skiptir í þessum málum og það er það að þær létu samviskuna ráða. Þær vildu ekki taka þátt í að styðja núv. ríkisstjórn og það er töluvert mikið atriði, líka í stjórnmálum. Þær vildu ekki, eins og Sjálfstfl., svíkjast aftan að fólkinu bara vegna valdanna. Þær vildu ekki vera með loforð sem ekki var hægt að standa við. Og þær vildu heldur ekki taka þátt í því, sem hefur komið skýrt fram á haustmánuðum, að hækka skatta á einstæðu fólki, m.a. ekkjum. ( KP: Vildu þær ekki eins og Sjálfstfl.?) Nei, ég sagði: Sjálfstfl. er á móti því, ég sagði það. Þær voru á móti því með sama hætti og sjálfstæðismenn, þannig að ég vil leiðrétta það sem hv. þm. sagði. ( KP: Það stendur allt.) En kannski er hv. þm. að búa okkur undir það þegar hann fer að greiða atkvæði með þessum ósköpum. Kannski er hann að undirbúa okkur undir það að hann eigi dálítið erfitt með að standa með hæstv. ríkisstjórn í þeim, ég vil segja verkum sem hún greinilega boðar en eru ekki fullnægjandi gagnvart því sem mestu máli skiptir sem er að styrkja stöðu atvinnuveganna og tryggja afkomu fólksins. Það hefur komið fram í ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur ekki minnst á afkomu fólksins. Hann hefur ekki minnst á afkomu sjávarútvegsins. Hann hefur ekki minnst á það hver væri hans stefna og afstaða til þess

að styrkja stöðu sjávarútvegs og fiskiðnaðar í landinu. Hann hefur ekki minnst einu orði á það hver afstaða hans er til fiskveiðistjórnunar og þeirra tillagna sem hv. Alþingi mun fá til umfjöllunar hér á þessum vetri.
    Ég vil, virðulegi forseti, vegna þess að þessi umræða hefur farið út í aðra sálma en það að tala um ferðaþjónustu, koma þessum atriðum að sem ég hef hér látið koma fram í minni ræðu. Ég vil einnig undirstrika það sem er meginstefna Sjálfstfl. og hefur komið fram í ræðum þingmanna hans hér áðan, hjá hv. þm. Agli Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur, að Sjálfstfl. styður öll góð mál sem efla íslenskt atvinnulíf, hvort sem það er sjávarútvegur, fiskiðnaður, verslun eða ferðaþjónusta. Þess vegna hefur flokkurinn, eða réttara sagt þingmenn flokksins, tekið þátt í að styðja það frv. sem hér er til umræðu.