Stimpilgjald
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson óskar að vita afstöðu Framsfl. til þess máls sem hér liggur fyrir. Framsfl. hefur það á stefnuskrá sinni að auka aðild almennings að hlutafélögum, að gera almenningi auðveldara að gerast þátttakendur í hlutafélögum og vill leita til þess allra leiða. Þessi mál eru nú til athugunar hjá ríkisstjórninni og geri ég ráð fyrir að þaðan komi mjög fljótlega niðurstaða í því. Það er einkum rætt um að nota skattalegar leiðir í þessu skyni. Þetta er eitt slíkt mál sem hér liggur fyrir. Þetta mál var lagt fyrir þingflokk framsóknarmanna á síðasta þingi og var þá samþykkt að það yrði lagt fram og það samþykki liggur enn fyrir, svo málið liggur hér fyrir með fullu samþykki þingflokks framsóknarmanna og er liður í þeirri viðleitni, bæði Framsfl. og ríkisstjórnarinnar að gera almenningi auðveldara að gerast þátttakendur í hlutafélögum og auka þannig eigið fé í íslenskum atvinnurekstri.