Byggingarlög
Miðvikudaginn 18. október 1989

     Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég flyt hér frv. til l. um breyt. á byggingarlögum nr. 54/1978. Þetta frv. er ekki stórt í sniðum en ég tel þó að efni þess sé allmikilvægt.
    Þegar Alþingi samþykkti ný sveitarstjórnarlög árið 1986, lög nr. 8/1986, þá var í 1. gr. þeirra laga gerð veruleg breyting á eldri lögum í þá átt að tryggja sjálfstæði sveitarfélaga og losa sveitarfélögin undan yfirstjórn ríkisstjórnar og ráðuneyta. Í 1. gr. eldri sveitarstjórnarlaganna frá 1961 segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkið skiptist í sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum undir yfirstjórn ríkisstjórnarinnar (félagsmálaráðuneytisins) samkvæmt því sem lög ákveða.``
    Þessu var breytt mjög rækilega í 1. gr. núgildandi laga þar sem segir:
    ,,Byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.``
    Þarna var mörkuð mjög skýr stefna um sjálfstæði sveitarfélaganna og ábyrgð þeirra á sínum eigin gerðum og stjórnenda þeirra og mörkuð sú stefna að sveitarfélög væru ekki lengur undir yfirstjórn ríkisstjórnar eða einstakra ráðuneyta. Engu að síður hefur oft verið tilhneiging til þess í löggjöf eftir að þessi lög voru sett að setja ríkisvaldið yfir sveitarfélögin í ýmsum málaflokkum og ríkisstjórnir látnar ráðskast með málefni þeirra. Í sumum tilfellum er líka um eldri lög að ræða, þar sem vera kann að hreinlega hafi gleymst að breyta þeim til samræmis við þessa nýju stefnu sem mörkuð var hér á Alþingi 1986. Einn af þeim málaflokkum eru byggingarmálefni og sérstök byggingarlög fjalla um þau, en þau eru frá árinu 1978. Það er fáa málaflokka hægt að hugsa sér þar sem staðarþekking og nálægð við verkefnin nýtur sín betur en einmitt í þeim málum sem flokkast undir byggingarmál og byggingarnefndir og sveitarstjórnir fara með. En þrátt fyrir það er sveitarfélögunum ekki treyst fyrir meðferð þessara mála að öllu leyti í núgildandi byggingarlögum. Í þeim lögum eru félmrn. falin yfirráð yfir sveitarstjórnum sem kemur m.a. fram í því að félmrn. á að úrskurða ef ágreiningur rís milli sveitarstjórnar og byggingarnefndar og að félmrn. á að úrskurða ef einhver telur rétti sínum hallað og getur þá fellt úr gildi ákvarðanir sveitarstjórnar og byggingarnefndar.
    Ég tel að ákvæði af þessu tagi stangist alveg á við nútímahugmyndir um vald, ábyrgð og sjálfstæði sveitarfélaganna og þau stangast á við þá mikilvægu breytingu sem ég gat um áðan og var gerð á sveitarstjórnarlögunum hér á Alþingi 1986. Þetta frv. er því flutt til að afnema þessi ákvæði og til að treysta sjálfstæði sveitarfélaganna í byggingarmálum.
    Í 1. gr. þessa frv. er gerð tillaga um breytingu á 1. gr. laganna. Þar er fellt niður ákvæði þess efnis að byggingarnefnd starfi undir yfirstjórn sveitarfélags og ráðuneytis en sveitarstjórnin ein sett í staðinn.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að tvær málsgreinar falli úr 8. gr. byggingarlaga, þ.e. 7. og 8. mgr. þeirra

laga, en í 7. mgr. segir að rísi ágreiningur milli sveitarstjórnar og byggingarnefndar um afgreiðslu máls skeri félmrh. úr, en leita skuli áður umsagnar skipulagsstjórnar. Óeðlilegt er að ráðherra skeri úr slíkum ágreiningi í þessum málaflokki sérstaklega. Sveitarstjórn á að hafa ákvörðunarvald um einstakar afgreiðslur byggingarnefndar eins og um afgreiðslu allra einstakra nefnda sem starfa á vegum sveitarstjórna. Byggingarmál eru engan veginn það sérstök eða skera sig svo úr að ágreiningur milli nefndar og sveitarstjórnar í þessum eina málaflokki eigi sérstaklega að koma til úrskurðar félmrn. Það er eðlilegt að sveitarstjórnin sjálf beri þarna fulla ábyrgð á.
    Í 8. mgr. segir að telji einhver rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðar félmrh. og er síðan í þeirri mgr. fjallað nánar um málsmeðferð. Það er vissulega hægt að færa rök fyrir því að í ákvörðun byggingarnefnda og sveitarstjórna felist að einhver einstaklingur eða aðrir telji rétti sínum hallað og þess vegna sé eðlilegt að hægt sé að skjóta slíkum ákvörðunum til æðra stjórnvalds. Ég tel hins vegar mun eðlilegra að með slík mál sé leitað til dómstóla frekar en til pólitísks ráðherra og því er lagt til að málskotsréttur til félmrh. þegar þannig stendur á sé felldur niður.
    Það má enn fremur benda á að eftir að bæði sveitarstjórnarlögin og byggingarlögin voru sett, þá hefur aðhald að opinberri stjórnsýslu verið aukið verulega með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og til hans er hægt að skjóta málum. Hann hefur að vísu ekki úrskurðarrétt, en auðvitað hefur niðurstaða hans afar mikið að segja þegar um slík mál er að ræða.
    Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að skýra nánar hvað í þessu frv. felst, en ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til félmn. og 2. umr.