Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. þær upplýsingar sem fram komu í hans svari. Eins og hann greindi frá, þá er enn stórfelldur munur á húshitunarkostnaði landsmanna eftir svæðum og það er svo langt frá því að þar sé einhverju því marki náð sem viðunandi geti talist, enda vildi ég ekki lesa það út af fyrir sig út úr máli hæstv. ráðherra. 2,5-faldur munur á húshitunarkostnaði miðað við staðalaðstæður er auðvitað slíkur baggi á það fólk sem býr á hinum svokölluðu köldu svæðum í landinu að ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju getur ekki látið staðar numið við þær aðstæður. Þess vegna m.a. er þessi fsp. fram borin og einnig hitt að mér finnst að aðgerðir eftir að yfirteknar voru skuldir hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og það mjög þýðingarmikla skref stigið út af fyrir sig --- sem auðvitað varð að stíga þó að fyrrv. ríkisstjórnir með aðild Sjálfstfl. gerðu þar ekkert í málum, en þær báru ábyrgð á þeim samningum sem gerðir voru 1986 um niðurfellingu verðjöfnunargjalds --- í júlí í sumar hækkar gjaldskrá vegna húshitunarkostnaðar um nærri 15% eða mjög verulega umfram almenna hækkun verðlags og umfram það sem gerðist í öðrum gjaldskrám.
    Ástæðan fyrir því að þessi hækkun varð svona mikil 1. okt. sl. er sú að niðurgreiðslur voru ekki auknar, hlutfall niðurgreiðslna. Og þegar við flettum fjárlagafrv. fyrir árið 1990, þá stendur nærri sama tala í krónutölu varðandi niðurgreiðslur á rafhitun eins og er í fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta mun auðvitað leiða til stórfelldrar hækkunar ef gjaldskrárnar hreyfast frá því sem nú er og ekki er bætt við fjármagni til niðurgreiðslna. Þess vegna vildi ég fá upplýsingar um það hjá hæstv. iðnrh. til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa að þessu leyti og auk þess að tryggja jöfnun umfram þann mikla mun sem nú ríkir.
    Varðandi samanburð til fyrri ára, þá held ég að hæstv. ráðherra hafi ekki reitt hér fram rétta viðmiðun, en ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér sérstaklega.