Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. benti réttilega á að húshitunarrafmagn hefði hækkað meira í verði en annað rafmagn á þessu ári. Þetta er rétt og ástæðan var sú sem hann greindi, að niðurgreiðsla á rafmagni til hitunar á íbúðarhúsnæði hækkaði ekki um leið og gjaldskrárnar hækkuðu. Þetta er náttúrlega einfaldlega af því að meira fé er ekki á fjárlögum ársins til þess að standa straum af kostnaði af niðurgreiðslunum. Reyndar hefur verið bætt á þennan lið á árinu veitum sem áður nutu ekki slíkra greiðslna. Þetta er viðfangsefni sem ég vænti að þingið muni taka á þegar það fjallar um fjárlagafrv. næsta árs.
    Hins vegar vildi ég benda á að þrátt fyrir þetta hefur raforka til hitunar á íbúðarhúsnæði ekki hækkað á þessu ári meira en gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur sem er samanburðargrundvöllurinn þótt ég efist nú reyndar um að hægt sé að kalla þær aðstæður staðalaðstæður eins og hv. 2. þm. Austurl. gerði, það er hvernig sem á málið er litið ákaflega lágur húshitunarkostnaður í Reykjavík og naumast hægt að kalla það staðal fyrir samanburðinn. Hins vegar hefur raforka til hitunar á húsnæði hækkað um 17% að meðaltali á þessu ári, milli áranna 1988 og 1989, samanborið við aðra gjaldskrá rafveitnanna um 12%. Hitaveita Reykjavíkur hefur hækkað um 18% en gasolían sem oft er nú vitnað til, hún hefur hækkað um þriðjung, 33%. Og það er heldur ekki rétt sem kom fram hjá hv. þm. að húshitunarrafmagnið hefði hækkað meira en almennt verðlag því það hefur það ekki gert, framfærsluvísitalan hækkar að meðaltali um 21% á árinu 1989 á meðan húshitunarrafmagnið hækkar um 17 eins og ég nefndi. En það er ekki með þessum orðum verið að gera lítið úr þeim mikla vanda sem okkur er á höndum að jafna þennan kostnað með skynsamlegum hætti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég gengst nú fyrir athugun á öllum þáttum afskipta hins opinbera af orkuverði og vonast til að geta á þeim grundvelli gert um þetta málefni skynsamlegar tillögur og vænti góðs samstarfs við þingið í því viðfangsefni.