Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Þegar ég vitna til þess að húshitunarrafmagn hafi hækkað meira en almennt verðlag þá er ég að ræða um hækkanir sem urðu núna 1. okt. á húshitunarrafmagni. Þá var gjaldskrárhækkunin á almennum töxtum rafmagns 10% en á húshitun 14,8%. Þetta er auðvitað ekki þróun í rétta átt, eftir að lækkað hafði verið í ágústmánuði sem var ágætt skref út af fyrir sig.
    Vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði um fjölgun á afhendingarstöðum raforku í heildsölu frá Landsvirkjun, þá vil ég benda á það að slík fjölgun afhendingarstaða breytir engu í raun um þann vanda sem við er að fást á landsmælikvarða í þessum efnum, það þyngir þá aðeins rekstrardæmið hjá þeim sem ekki njóta slíkra bættra kjara vegna fjölgunar á afhendingarstöðum þannig að það er léttvægur liður inn í þá heild sem hér er um að ræða.