PCB-mengun
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svör hans varðandi fsp. og ég tel að þau hafi leitt í ljós nokkra athyglisverða þætti og mér heyrðist að hæstv. ráðherra dragi skynsamlegar ályktanir varðandi stöðu mála m.a. varðandi þörfina á að endurskoða þá reglugerð sem sett var fyrir ári síðan í ljósi þess sem síðan hefur fram komið um mengun hér við Sundahöfn í Reykjavík.
    Ég skal ekki leggja neitt mat á það hér hvert eigi að vera hámark í sambandi við þessi efni varðandi vatn og jarðveg en það vekur athygli sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hámarkið í gildandi reglugerð liggur yfir því sem er í öðrum löndum sem hann nefndi dæmi um. Því er aðeins hægt að taka undir það að yfir þessi mál verði farið og reglugerð breytt eftir því sem réttast er talið.
    Það sem ég kannski saknaði úr máli hæstv. ráðherra var að fá upplýsingar um það hvort hann teldi að nægilega væri séð fyrir aðstöðu og fjármagni til eftirlits og rannsókna á mengun af völdum PCB-efna sérstaklega, þær rannsóknir sem þarna þurfa að fara fram og þær hafa farið fram erlendis, að mér er best kunnugt, mælingarnar, vegna þess að hér hefur ekki verið búnaður til þess að sinna þeim nema að takmörkuðu leyti. Þetta eru kostnaðarsamar rannsóknir. Það er ekki nóg að staðfesta aðeins að mengun sé fyrir hendi heldur er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fylgjast með því hver er þróun mála á hverjum tíma til þess að geta brugðist við með réttum hætti. Hér geta verið verulegir hagsmunir í húfi í sambandi við t.d. fiskeldi í fjörðum, í sambandi við fleiri aðgerðir, auk þeirrar beinu hættu sem stafar af þessum efnum, en PCB-efnin eru alveg sérstakleg skaðvænleg að því leyti að þau safnast upp í lífkeðjunni á löngum tíma og brotna ekki niður.
    Við lentum í því, Íslendingar, á þessu sviði eins og fleirum, að vera hér eftirbátar annarra þjóða, fylgjast ekki með þessari mengun eða þessari mengunarhættu og vorum hér í 10 ár með heimildir til innflutnings á þéttum og ýmsum búnaði í raforkukerfum og víðar, á meðan búið var að taka fyrir slíka notkun í grannlöndunum og af því súpum við nú með nokkrum hætti seyðið.