Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu allmerkileg tillaga sem því miður fékkst ekki rædd á síðasta þingi. En ég vil, áður en ég vík að efni tillögunnar, segja nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, 2. þm. Austurl.
    Hann vék nokkuð að því sem ég hafði sagt og gert á fundi Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins í Róm fyrir skömmu, þar sem þessi mál voru m.a. til umræðu. Að mínu frumkvæði var í nefnd sem fjallaði um öryggis- og varnarmál fjallað nokkuð um flotavæðingu í Norður-Atlantshafi, sérstaklega með tilliti til þess hvernig hún hefur þróast hjá Sovétríkjunum. En á þessum fundi í Þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsins voru m.a. mættir að ósk Þingmannasambandsins einn af yfirhershöfðingjum Varsjárbandalagsins og annar frá Atlantshafsbandalaginu þar sem fjallað var sérstaklega um þessi mál. Ég mun víkja nokkuð að því með hvaða hætti fjallað var um þau á þingmannasambandsfundinum, en áður en ég geri það vil ég leiðrétta hér einn ákveðinn mjög alvarlegan misskilning sem kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar varðandi stöðu og hlutverk Íslands innan Atlantshafsbandalagsins.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að hernaðarumsvif hefðu aukist á Íslandi. Ég kannast ekki við það að hernaðarumsvif hafi aukist á Íslandi vegna þess að frá því að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 hafa ekki verið byggð upp hernaðarmannvirki þeirrar tegundar sem hv. þm. á við. Hér á Íslandi hafa ekki verið herstöðvar í eiginlegri merkingu þess orðs, þ.e. hér hafa ekki verið til staðar árásarvopn, kjarnorkuvopn né nein þau vopn eða útbúnaður sem gerir það að verkum að hægt sé að segja það að á Íslandi sé herstöð. Staða Íslands og hlutverk Íslands í varnarbandalaginu NATO byggist fyrst og fremst á því að á Íslandi er varnar- og eftirlitsstöð, þ.e. að Ísland er fyrst og fremst í varnarbandalagi og hlutverk okkar er fyrst og fremst að gegna því hlutverki að vera hér eftirlitsstöð. En það er alveg reginmunur á því þegar fjallað er um þessi mál og sérstaklega í því samhengi sem hv. þm. talaði um þau, með tilliti til þess að hann óskar eftir því að hér eigi sér stað afvopnun í Norður-Atlantshafi sem og annars staðar, að fjalla um málið með þessum hætti vegna þess að Ísland kemur til með að vera mjög þýðingarmikið land í Norður-Atlantshafi í því eftirlitshlutverki sem fylgir því ef afvopnun á að takast. Þá eru öll þau tæki og allur sá aðbúnaður fyrir hendi í landinu sem þörf er fyrir við slíkar aðstæður. Þetta vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál þannig að mér finnst að hv. þm. ætti að breyta um taktík þegar hann fjallar um þessi mál af því að við stefnum allir að sama marki, þ.e. að reyna að efla friðinn í heiminum, og hætta að tala um það að Ísland sé herstöð í þeirri merkingu sem hann gerði hér áðan.
    Varðandi þáltill. þá tók ég fram hér áðan að hún væri að mörgu leyti ágæt og ég get verið sammála

um að það sé æskilegt markmið að efna til viðræðna um afvopnun á höfunum. Ég er einnig sammála um að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að draga úr umferð kjarnorkuknúinna kafbáta við Íslandsstrendur. Þegar litið er til baka svona 10--15 ár, þá er augljóst að umferð sovéskra kafbáta í Norður-Atlantshafi hefur stóraukist. Þótt það komi fram í skýrslum nú að ferðum þeirra hafi eitthvað fækkað sl. tvö ár, þá er það ekki marktækt og segir ekki alla söguna því staðreyndin er sú að á sl. 10 árum hefur umferð og umsvif sovéskra kafbáta í Norður-Atlantshafi stóraukist og það viðurkenna Sovétmenn sjálfir.
    Á fundi Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins í Róm fyrir skömmu kom m.a. fram að kjarnorkuknúnir kafbátar, sem eru í notkun stórveldanna, þ.e. Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, væru um 200 hjá hvorum aðila um sig, rúmlega 200 talsins. Bandaríkjamenn hafa hætt smíðum á slíkum kafbátum, þ.e. kjarnorkuknúnum kafbátum, en Sovétríkin munu nú framleiða einn kjarnorkuknúinn kafbát á mánuði, sem kostar nokkra milljarða kr. Þetta munu vera hinir fullkomnustu kafbátar sem til eru í heiminum þannig að bandarískir kafbátar sem eru smíðaðir fyrr og eru eldri standast ekki samanburð. Þetta er réttilega óhugguleg þróun eins og fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.
    En hugsanlega blasa nú við betri tímar í þessum efnum með auknum samskiptum þessara þjóða sem leiða til enn frekari slökunar, spennan minnkar milli austurs og vesturs þannig að friðarhorfur ættu að batna og það eykur að sjálfsögðu líkur á afvopnun á höfunum eins og hér er til umræðu.
    Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að af hálfu Þingmannasambands NATO hefur á sl. tveim árum að frumkvæði þess verið efnt til viðræðna við forráðamenn í Varsjárbandalaginu, m.a. þingmenn og hershöfðingja. Stjórnarmenn Þingmannasambandsins og einstakar starfsnefndir hafa farið til Varsjár, Prag, Moskvu og Búdapest og rætt við forustumenn þessara ríkja. Í þeim viðræðum hefur m.a. verið fjallað um aukin samskipti þessara þjóða, afvopnunarmál, umhverfis- og mengunarmál og hina nýju stefnu Sovétríkjanna, perestrojkuna. Þá hefur einnig verið fjallað um hugsanlega efnahagsaðstoð og hvernig hægt væri að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Vil ég
í því sambandi sérstaklega minna á að það eru allar horfur á því að Vestur-Þjóðverjar muni veita efnahagsaðstoð til Austur-Evrópuríkjanna er nemi rúmlega einum milljarði vestur-þýskra marka sem er verulegt fé. Til þess að undirstrika enn frekar þessa áherslu af okkar hálfu, þ.e. Þingmannasambandsins, þá var einum æðsta hershöfðingja Varsjárbandalagsins og þingmanni á hinu nýja þingi Sovetríkjanna, Vladimir Lobov, boðið að sitja fund í öryggis- og varnarmálanefnd þingsins þar sem yfirhershöfðingi NATO-herjanna sem hefur aðsetur í Brussel, John Galvin, var einnig mættur. Þar ræddu þessir menn m.a. afvopnunarmál.
    Niðurstaðan af þessum umræðum á þessu þingi

Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins var í stórum dráttum sú að það væri árangursríkara að fyrstu viðræður, þegar þær fara fram, gætu átt sér stað á milli NATO-ríkjanna annars vegar og Varsjárbandalagsríkjanna hins vegar. En ég vil taka það skýrt fram að málið komst ekki á það stig að rætt væri um það að slíkar viðræður færu fram. Hins vegar kom það skýrt fram í máli yfirhershöfðingja NATO að hann teldi að allar afvopnunarviðræður ættu að fara fram í heild, þ.e. það ætti að taka svokallað suðursvæði, miðsvæði og Norður-Atlantshafið saman í einum og sömu viðræðunum. Hins vegar kom það fram í máli Lobovs, hershöfðingja Sovétríkjanna, að þeir væru reiðubúnir að ræða þetta hvort sem væri í heild eða taka upp sérstakar viðræður um Norður-Atlantshafið. Hins vegar vil ég nú taka það fram af fyrri reynslu þegar menn sem eiga að tala fyrir hönd Sovétríkjanna og Austur-Evrópu taka til máls --- ég þekki nokkuð til þess úr verkalýðshreyfingunni --- þá geta þeir verið nokkuð frjálsir í tali sínu um það sem þeir halda að falli í góðan jarðveg, en ég vil nú samt ekki draga úr því að þarna hafi verið um jákvæðan og einlægan vilja að ræða af hálfu þessa sovéska hershöfðingja. En hvað sem því líður, þá lýsti hann því yfir af þeirra hálfu að þeir væru reiðubúnir til þess að skoða það að fara í slíkar sérviðræður en bandaríski hershöfðinginn lagði áherslu á það, með sérstöku tilliti til mikilvægis Atlantshafsbandalagsins fyrir Vestur-Evrópu, Bandaríkin og Kanada, að þá væri ekki svona einfalt mál að fara í viðræðurnar einhliða bara um Atlantshafsbandalagið.
    Ég vil taka það fram að að sjálfsögðu viljum við sjálfstæðismenn ræða allt sem horfir til friðar í heiminum. Við leggjum áherslu á það að í þeim viðræðum gæti menn þess að halda stöðu sinni og styrkleika. Það gerum við m.a. með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu sem er nú orðið viðurkennt af þingmönnum úr flestöllum flokkum innan Atlantshafsbandalagsins og m.a. kommúnistaflokkunum á Ítalíu og í Frakklandi.