Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar að lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu. Hún kemur heim og saman við þær hugmyndir sem hæstv. utanrrh. hefur reifað innan NATO-ráðsins um afvopnun á norðurhöfum, en þar er auðvitað sá vettvangur sem við höfum hvað bestan til þess að hreyfa tillögu af þessu tagi. Ég er sannfærður um að það hvarflar ekki að nokkrum manni á hinu háa Alþingi að deila um nauðsyn kjarnorkuafvopnunar. Menn greinir nokkuð á um hvaða leiðir skuli fara til þess að knýja á stórveldin um að hraða viðræðum um kjarnorkuafvopnun á höfunum. Það er nú einu sinni svo að þrátt fyrir þá alþjóðlegu samninga sem gerðir hafa verið um varnir gegn mengun hafanna, og minni ég þá á Oslóarsamkomulag og Parísarsamkomulag og gæti minnt á fleiri samninga, þá ná þeir ekki til herja stórveldanna. Það er auðvitað megingallinn á þessum samningum öllum að þau stórveldi sem eiga kjarnorkuknúin skip geta raunverulega farið öllu sínu fram á heimshöfunum þrátt fyrir samninga um varnir gegn mengun sjávar. Í því felst mesta hættan og m.a. sú að þeim ber engin skylda til þess að veita upplýsingar um mengunarslys af hvaða toga sem þau eru spunnin. Við höfum orðið vitni að því á undanförnum missirum og árum að stórveldin hafa verið knúin til þess að greina frá slysum af þessu tagi eingöngu vegna þess að fjölmiðlar hafa getað skýrt frá þeim. Minni ég þá sérstaklega á tvö slys sem orðið hafa undan Noregsströndum um borð í sovéskum kafbátum.
    Ég er búinn að ræða þessi mál í nokkur ár hér á þingi og hvetja til þess að Íslendingar haldi vöku sinni gagnvart þeim dýrmætu höfum sem þeir ráða yfir þar sem eru m.a. hrygningarstöðvar okkar helstu nytjafiska. Ég hef reynt að draga upp þá mynd hvað gerðist í þessu landi okkar ef alvarlegt slys yrði um borð í kjarnorkuknúnu skipi, hvort sem það er ofansjávarskip eða kafbátur, þannig að m.a. geislavirkt kælivatn læki út. Það er alveg augljóst að þessi þjóð þyrfti ekki að binda um efnahagssárin sín ef slíkt slys yrði af alvarlegum toga. Þetta hef ég oft nefnt hér og hvatt hv. þm. eindregið til þess að taka undir allar tillögur sem beinast að því að þrýsta á stórveldin um að hraða viðræðum sínum um kjarnorkuafvopnun á höfunum.
    Ég vil minna á nokkrar tölur í sambandi við kjarnorkuknúin skip. Það er augljóst að um 70% af öllum kjarnaofnum sem framleiddir hafa verið í heiminum eru um borð í skipum sem sigla um heimshöfin. Þetta er ótrúlegur fjöldi og ég leyfi mér að fullyrða að aðgæsla varðandi þá kjarnaofna sem t.d. eru um borð í sovéskum kafbátum og bandarískum ugglaust líka kann að vera takmörkuð og þessi slys algengari en okkur er kunnugt um. Það eru til skýrslur um slys, sem ekki hefur verið greint frá, þar sem kjarnorkukafbátar hafa sokkið með langdrægar eldflaugar um borð, með kjarnorkuhleðslum og plútoníum sem liggja núna undir miklum þrýstingi á

miklu dýpi og tíminn einn mun skera úr um hvenær bresta og gefa sig þar sem þeir liggja á hafsbotni. Hvaða afleiðingar það kann að hafa veit raunar enginn á þessari stundu.
    Ég held að okkur beri öllum að styðja tillögur af þessu tagi, styðja það að stórveldunum verði gerð grein fyrir því að við höfum áhyggjur af þessum málum og að við sem þjóð erum tilbúin að gera allt það sem í okkar valdi stendur til þess að þeim viðræðum sem eiga sér vissulega stað um kjarnorkuafvopnun verði hraðað eftir mætti. Það er í raun og veru óþolandi og ögrun við sjálfstæða þjóð, sem byggir afkomu sína að a.m.k. 70% á sjávarfangi, að sigla þessum skipum um höfin, um fiskimiðin, á slóðum sem við vitum raunar aldrei með nokkurri vissu hvar eru, hversu nálægt landi þessi skip eru og hvar þau fara. Þetta er ögrun við lífsafkomu þjóðarinnar og er raunverulega óþolandi dónaskapur ef út í það er farið.
    Ég vil þess vegna styðja eindregið þessa tillögu. Ég styð viðleitni hvers þess manns sem reynir að knýja á um að þessum viðræðum verði hraðað. Ég styð sérstaklega tilraunir hæstv. utanrrh. innan NATO-ráðsins að knýja á um að hans tillaga verði tekin til alvarlegrar umræðu í NATO-ráðinu, sem því miður hefur ekki verið gert enn þá. Og ég hvet alla til þess að knýja á um að menn ræði þessi mál í tíma og ótíma.