Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir að hefja þessa umræðu hér sem full þörf var á. Þær kveðjur sem bændastéttin hefur verið að fá frá stjórnvöldum nú síðustu vikurnar eru m.a. þessar:
    1. Frestun á hluta hækkunar þess haustgrundvallarverðs, m.a. launaliðar til bónda, sem mun þó ætlunin að greiða í janúar eða apríl á næsta ári ef það verður þá ekki svikið.
    2. Skerðing fullvirðisréttar með svokölluðum samningum um breytingar á reglugerð sem landbrn. ber fulla ábyrgð á.
    3. Lækkun á frumgreiðslu fyrir haustinnlegg úr 75% í 45% eins og hér hefur verið gert að umtalsefni.
    4. Samkomulag um greiðslu skulda ríkisins vegna jarðræktar- og búfjárræktarlaga sem gert var við afgreiðslu á nýjum lögum á síðasta þingi hefur verið brotið og samkvæmt fjárlagafrv. lítur út fyrir að það samkomulag eigi líka að svíkja á næsta ári.
    Þessi fjögur atriði blasa við nú á örfáum dögum í garð bændastéttarinnar og það er ekki að undra þó að hér komi fram áskoranir á hæstv. landbrh. að bæta úr. Hæstv. landbrh. ber ábyrgð á þessu öllu saman og það væri nú kominn tími til fyrir þennan hæstv. landbrh. að sinna þeim störfum sem hann hefur tekið að sér í stað þess að leggjast í ferðalög og vera einhvers staðar þar sem hvergi næst til hans eins og almannarómur segir í þessu landi. Þess vegna skora ég á hann að láta nú linna þeirri aðför að bændastéttinni sem hér hefur verið lýst og bæta ráð sitt og sinna þeim störfum sem hann hefur tekið að sér.