Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm., hv. 4. þm. Austurl., fyrir þá umræðu sem hann hóf hér um þessi mál. Ég vil minna á það að 10. des. 1987 var ég með fyrirspurnir um þetta efni og kom þá fram hjá þáv. hæstv. landbrh. Jóni Helgasyni að ekki hafði verið staðið við þann búvörusamning eða þann samning sem var gerður með lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Það er því ekki nýtt að ekki sé staðið við þetta, en það hefur nú keyrt um þverbak og það hlýtur að vera áhyggjuefni að stjórnvöld eru að gera samninga um þetta og fleira og standa svo ekki við það. Þeir semja lög um að þessu eða öðru skuli skipa með tilteknum hætti og núna stöndum við frammi fyrir því að það á ekkert að standa. Það er því mjög mikið áhyggjuefni að svo skuli vera og þegar maður lítur á það að frumgreiðsla sauðfjárinnleggs skuli lækka úr 75% í 45% til bænda, þá er það mjög mikið áhyggjuefni. Ég held að þessi ríkisstjórn verði að taka sig á í þessum málum. Það er alveg ljóst að hún getur ekki staðið með þessum hætti að þeim lögum sem hún er búin að samþykkja og að þeim hlutum sem í þeim samningi eru sem eru mjög greinilegir og skýrir, með hvaða hætti á að fara með innlegg bænda og hvernig á að greiða þau.
    Ég minni enn fremur á að það er stutt til 15. des. þegar staðgreiðslulán eiga að falla og það er því ástæða til að spyrja hæstv. landbrh. hvort staðið verði við þann hluta, um staðgreiðslulánin sem verða 15. des., en það er auðvitað ekki útlit fyrir að betur verði staðið að því en með þessum greiðslum sem áttu að fara fram núna. Ég tel mikilvægt að ríkisstjórnin svari því hvort staðið verði við staðgreiðslulán 15. des. og það verði ekki látið líða langt frá því að bændur eiga að fá það sem þeir eiga inni.