Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að biðja um þessa umræðu sem núna fer fram því að mínu mati eru staða og hagir bændastéttarinnar allt of sjaldan til umræðu hér á þessum vettvangi. Það er staðfest í opinberum gögnum að 40% búa í hefðbundnum landbúnaði bera aðeins eitt ársverk. Þeim sem þurfa að framfleyta fjölskyldu af þessu eina ársverki er því þröngur stakkur skorinn. Bændur hafa miðað sínar greiðsluáætlanir við þær greiðsludagsetningar sem eru 15. okt. og 15. des. og nú dynur það yfir bændur að þeir fá ekki greiðslur samkvæmt því sem lögboðið er samkvæmt þeirri dagsetningu. Það stendur hér í blaði í gær að fyrir bændur gæti þetta þýtt ákveðna greiðsluerfiðleika sem öllum er náttúrlega ljóst að hljóta að verða þegar verið er að bíða eftir greiðslum. Það er jafnframt haft þar eftir Gísla Karlssyni að þetta eigi ekki að hafa í för með sér neitt fjárhagslegt tap fyrir þá þar sem reiknaðir verði vextir á greiðslurnar. Ja, það er nú ágætt að fullyrða svona því að þetta getur náttúrlega þýtt að bændur verði að leita eftir lánum til að standa í skilum, lánum sem þá verða væntanlega á hærri vöxtum en greiddir verða af því sem frestað er að greiða þeim. Það væri dálítið fróðlegt að vita hver útkoman yrði úr því dæmi.
    Hæstv. landbrh. upplýsti áðan að undanfarin haust hefði ekki verið staðið við hlutfallið í greiðslum til bænda og staðan væri í raun óbreytt frá síðasta hausti. Það var nú skrýtin réttlæting á því sem verið er að gera núna. Honum láðist hins vegar að minnast á þá erfiðleika sem bændur lentu í í sambandi við þessa greiðsludrætti á sl. hausti sem voru verulegir.
    Ég vil líka minnast aðeins á það sem liggur fyrir í fjárlagafrv. núna. Á síðasta þingi voru samþykkt ný jarðræktarlög og búfjárræktarlög og þar er réttur bænda til greiðslna ákveðinn. Samkvæmt fjárlagafrv. á alls ekki að standa við þennan rétt bænda. Það á að draga greiðslur til þeirra og það er kominn langur skuldahali þarna sem þeir fá alls ekki bættan. Það er talað um að dreifa þessu á einhver ár og það sér enginn fyrir með hverjum hætti þær greiðslur verða. Ég vil að endingu taka undir með hv. málshefjanda: Hvenær á að linna þeirri niðurlægingu sem bændur verða að sæta í allri umræðu og nú af hálfu stjórnvalda?