Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer nú fram um landbúnaðarmál. Ég vil byrja á því að vekja á því athygli við hv. 4. þm. Austurl. að það hefur ekkert komið fram enn þá sem bendir til annars en að allir aðilar málsins muni vinna að því að standa við ákvæði laganna um greiðslur fyrir sauðfjárafurðir á þessu hausti.
    Ég treysti því að forusta Stéttarsambands bænda sem á undanförnum árum hefur sýnt mikla ábyrgð og valið þann kostinn, miklu frekar en að fara fram með hávaða, að taka upp samstarf við stjórnvöld um lausn mjög erfiðra mála, ég treysti því að forusta Stéttarsambandsins í samvinnu við afurðastöðvarnar og stjórnvöld finni flöt á að leysa þetta mál farsællega nú í haust og ég veit að að því er verið að vinna.
    Ég ætla að minna á einn hlut í þessu. Það kom fram áðan að hér væri um að ræða tvíhliða samninga milli bænda og ríkisins. Þetta er rétt. Hins vegar hefur þriðji aðili málsins varðandi lagasetningu og oft í framkvæmdinni gleymst, það eru afurðastöðvarnar sem verða að hafa grundvöll til rekstrar til þess að hægt sé að standa við þennan samning. Um afurðastöðvar er oft talað sem eitthvað af hinu illa, eitthvað sem komi bændum ekkert við en ég vil vekja athygli á því að afurðastöðvar þessa lands eru nánast alfarið í eigu bænda og þeir bera ábyrgð á þeim. Ég veit það að afurðastöðvarnar hafa í tilfellum eins og þessu komið til móts við bændur og reynt að lina þá greiðsluerfiðleika sem af drætti greiðslna hlýst.
    Ég ætla síðan að lokum að taka undir orð hv. 5. þm. Suðurl. sem hann beindi til frummælanda, hv. 4. þm. Austurl., um að honum væri nær að taka til í sínum eigin garði því að ég get sagt honum það að ekki hefur farið fram hjá fólkinu í dreifbýlinu á undanförnum mánuðum sú stefnubreyting sem hefur orðið hjá Sjálfstfl., sú stefnubreyting sem varð hjá málgagni Sjálfstfl. þó að hv. 1. þm. Suðurl. kannist ekkert við að Morgunblaðið komi Sjálfstfl. við, sú stefnubreyting sem hefur orðið hjá Morgunblaðinu á síðustu mánuðum. Þetta hefur ekkert farið fram hjá fólkinu í dreifbýlinu, það hefur ekkert farið fram hjá því fólki að sterk öfl í Sjálfstfl. í dag ganga erinda verslunarauðvaldsins í Reykjavík sem vantar það fjármagn sárlega núna sem rennur út til byggðanna til þess að standa undir offjárfestingu í verslunarhöllum hér á Reykjavíkursvæðinu. Og ég treysti því að hv. málshefjandi, taki þar til höndunum.