Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hygg að sú umræða sem hér fer fram geti dregið nokkurn dilk á eftir sér. Ég hygg að það blasi við að hæstv. landbrh. hafi um þann einn kost að velja að taka nú á, vilji hann sanna að hann sé hæfur til að gegna því starfi sem hann sinnir, og gjarnan má hann segja sínum samþingsmönnum í Alþb. að honum sýnist misskiptur stuðningur flokksins við ráðherra sína miðað við þá nýútkomnu bók sem heitir frv. til fjárlaga en þar virðist sem menntmrh. hafi fengið stórum betri meðferð en hæstv. landbrh.
    Ég hygg að það sé ærið umhugsunarefni að menn geri sér grein fyrir því að þegar farið er jafnlangt niður með útborgaðar greiðslur vegna sauðfjárafurða þá dugar útborgunin ekki fyrir rekstrarþættinum, þ.e. það kemur ekki króna upp í launagreiðslur fyrir liðið ár. Þetta er alvara þess máls sem við blasir. Ef þannig væri ástatt með sauðfjárbændur að þeir þyrftu ekki að taka lán til að halda velli í þeirri stöðu sem nú er gæti það staðist hjá Gísla Karlssyni að þeir sköðuðust ekki á því þar sem þetta væri vaxtareiknað. En það kemur mér mjög á óvart ef sú breyting hefur orðið að inn- og útlánsvextir eru orðnir þeir sömu í landinu og hefur þá mikið gerst á stuttum tíma.
    Ég vil aftur á móti taka undir það að þó að Sjálfstfl. sé búinn að afneita Morgunblaðinu þá verður ekki hægt að leggja þá kvöð á ráðherra að það sé skyldulesning hans að lesa Morgunblaðið og hætt við að önnur störf biðu þá skaða af. Og ég efa að það yrði til mikilla bóta gagnvart andlegu ástandi hæstv. ráðherra þó að slík lesning yrði gerð að skyldu. En ég vil taka undir það að víða er að bændum vegið vegna erfiðleikanna og það eru ekki bara erfiðleikar í Eyjafirði, þeir eru einnig á Hvammstanga vegna gjaldþrota sem átt hafa sér stað. Menn ættu því ekki að tala um slíkt í flimtingum. Hins vegar vil ég undirstrika alvöru þessa máls og vænti þess að hæstv. landbrh. geri sér grein fyrir því að landsbyggðin þolir ekki þá meðferð sem felst í þessari afgreiðslu.