Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Eins og fram kom í upphafi þessarar umræðu er hún bundin við hálftíma. Nú hefur umræðan staðið nærri 15 mínútur fram yfir þennan tilskilda hálftíma, samkvæmt þingsköpum, og ég geri ráð fyrir að málshefjandi og hæstv. ráðherra eigi eftir að taka til máls. Aðrir þingmenn sem eru á mælendaskrá hafa allir talað einu sinni að undanskildum einum sem hefur óskað eftir að taka aftur til máls. Nú stendur forseti frammi fyrir því að takmarka umræðuna vegna þess sem ég nefndi áðan, að hún á ekki að standa nema í hálftíma. Því verð ég að biðja hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hefur beðið um orðið og er næstur á mælendaskrá að gera aðeins örstutta athugasemd, ekki síst með það í huga að hann fór talsvert fram úr tíma í sinni fyrri ræðu.