Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tveir þm. Framsfl. voru að brýna mig á einhverjum svokölluðum tiltektum á heimili okkar sjálfstæðismanna. Málið skýrðist nú betur hér í síðari ræðu annars þeirra, hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, þar sem hann sagði að ásakanir í minn og okkar garð út af umræðu um innflutning á landbúnaðarvörum hefði ekki byggst á afstöðu landsfundar Sjálfstfl. Hann sagði meira að segja að þeir hefðu ekki minnst á hana einu orði. Hvað kemur til?
    Auðvitað er skýringin sú að þar eru tekin af öll tvímæli í þessum efnum eins og hér hefur verið tekið fram af öðrum hv. þm. Reykv. En það er auðvitað eins með málflutning þessa hv. þm. og félaga hans, hv. þm. Guðna Ágústssonar, að það passar í veikri stöðu að viðhafa vinnubrögð Gróu á Leiti.
    Hv. þm. hafði enn fremur orð á því að afurðastöðvarnar væru illa settar og þær yrðu að gæta sín á viðskiptunum við bændur. Viðskiptin við bændur geta ekki undir nokkrum kringumstæðum hafa leitt til gjaldþrota hjá afurðastöðvunum vegna þess að þær fá jafnmikið greitt að raungildi á þessu hausti og þær fengu meðan sauðfjárframleiðslan var 20% eða jafnvel 25% meiri en hún er í dag. Raunkostnaður við slátrun og heildsölu hefur hækkað um svipað eða jafnvel meira en nemur samdrættinum í sauðfjárframleiðslunni. Ef meinið er eitthvert, þá liggur það á öðrum fleti.
    Ég fagna þessari umræðu og þakka góðan stuðning margra hv. alþm. við það mál sem ég hef hér hafið umræðu um og ég átti fyllilega von á þeirri afstöðu hér á hv. Alþingi. Ég vek svo að lokum sérstaka athygli á því, virðulegi forseti, að það hefur nú verið upplýst af hæstv. landbrh. að ákvörðun Framleiðsluráðs um lækkun á útborgunarverði var ekki tekin fyrr en eftir þau tímamörk sem lögin ákveða, tveimur til þremur dögum eftir að lögin ákveða að bændur eigi að fá fyrstu greiðslurnar.
    Ég vek líka sérstaka athygli á þeim orðum hæstv. landbrh. að hann hafi ekki fengið vitneskju um þetta fyrr en núna í morgunsárið að ég var að aðvara hann um þessa umræðu hér í dag og að honum hefði ekki borist bréf frá Framleiðsluráði fyrr en um tíuleytið. Ja, er það nú furða, virðulegi forseti, þótt niðurstaðan verði með þeim hætti sem hér liggur fyrir þegar sambandið á milli landbrh. og Framleiðsluráðs er með þeim hætti sem hann hefur hér sjálfur lýst að hann er fyrst núna að fá vitneskju og tilkynningu um það hvernig verið er að breyta í þessum efnum til óhagræðis fyrir íslenska bændur. Og ég undirstrika það sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði hér áðan að þessar upplýsingar eru með þeim hætti að það er útilokað að hægt sé að una þeim eða líða á nokkurn hátt.