Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þessa tillögu sem ég tel góðra gjalda verða og um stórmál að ræða. Mig, eins og aðra, hryllir við þeim afleiðingum sem slys á Norður-Atlantshafinu geta haft fyrir okkur Íslendinga þegar kjarnorkuknúin skip eiga í hlut eða einhvers konar farkostir með kjarnorku innan borðs. Hv. flm. kom hér inn á það að við ættum að tala þessu máli hvar og hvenær sem væri, hvar sem væri í heiminum, og ég vil þá benda honum á það að sem meðlimur í Þingmannasamtökum NATO þar sem ég á sæti sem varamaður flutti ég ræðu í því sem má kannski kalla sameinað þing þeirrar samkomu, á lokadegi þess, þar sem ég kom einmitt inn á þetta mál. Var það reyndar rauði þráðurinn í minni ræðu. Þar reyndi ég að lýsa áhyggjum okkar Íslendinga af afleiðingum kjarnorkuslyss á Norður-Atlantshafi og þeim slysum sem hafa reyndar orðið þar og fór fram á það að stórveldin tækju upp viðræður um þessi mál, um afvopnun í höfunum, en lagði þó alveg sérstaka áherslu á Norður-Atlantshafið.
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég tek eindregið undir þá hugsun sem flm. er hér að leggja fram. Ég ætla hins vegar ekki að ræða þetta mál út frá þeim grunni sem það hefur nú færst inn á, en tel það algjört skilyrði að við umræðu sem slíka sé hæstv. utanrrh. hér. Ég tel einnig skilyrði að fá að heyra sjónarmið formanns utanrmn. og rökstyð það reyndar með því að inn í þetta mál spinnst náttúrlega málefni varaflugvallarins og stefna ríkisstjórnarinnar í því efni. Vil ég því fara fram á það við hæstv. forseta að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. utanrrh. hefur tök á því að taka þátt í henni.