Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get stytt mál mitt með því að taka undir ósk þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar og Inga Björns Albertssonar um það að umræðu verði frestað og afgreiðslu þessarar till. einnig, þ.e. að hún verði ekki afgreidd til nefndar fyrr en utanrrh. hefur mætt hér til þess að taka þátt í framhaldsumræðum um þessa þáltill. Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar að varaflugvallarmálið svonefnda, og það kom einnig fram í ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar, kemur mjög við sögu þessa máls og er afar mikilvægt atriði í sambandi við það eftirlitsstarf sem hlýtur að vera óhjákvæmilegt ef það tekst að koma á fundum um afvopnunarmál í samræmi við þessa þáltill. Það er raunverulega ekki hægt að afgreiða þessa þáltill. fyrr en fyrir liggur hvernig þessi mál standa og til þess þarf auðvitað hæstv. utanrrh. að mæta hér og skýra okkur frá því áður en við afgreiðum þetta til nefndar og tökum afstöðu til málsins í heild.
    Ég minni á það að við sjálfstæðismenn vöktum athygli á því þegar haustið 1988 hvað það væri mikilvægt fyrir bæði millilandaflug Íslendinga sjálfra sem og í sambandi við það eftirlitshlutverk sem hér um ræðir. Við höfum komið með þáltill. um að það verði nú þegar gerðar ráðstafanir til þess að byggja hér varaflugvöll. Sú hugmynd mætti mjög mikilli andstöðu, svo ekki sé meira sagt, hér í þingi og af hálfu t.d. alþýðubandalagsmanna var allt gert til þess að reyna að gera það mál sem tortryggilegast og jafnvel sumir framsóknarmenn töluðu gegn því. Nú hefur það sem betur fer snúist við en það er mjög þýðingarmikið fyrir okkur að vita samt nú þegar hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að byggja umræddan varaflugvöll til þess að þingheimur viti hvernig það stendur.
    Ég vil, virðulegi forseti, undirstrika það einnig sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni, formanni utanrmn., og undirstrika mikilvægi þess að við nýtum sem best þá möguleika sem við höfum í þeim samtökum sem Ísland er nú þegar virkur aðili að í sambandi við allar viðræður og umræður um afvopnunar- og friðarmál. Þess vegna vil ég í sambandi við þáltill. taka það skýrt fram að þó að ég fyrir mitt leyti geti verið efnislega sammála meginefni tillögunnar sem stefnir að því að viðræður um afvopnunarmál eigi sér stað, þá er ég ekki sammála því að það sé gert með þeim hætti að kveðja saman hið fyrsta alþjóðlega ráðstefnu. Ég tel að í þessu felist ákveðið yfirlæti eða óraunsæi um það að við getum náð þeim árangri sem við stefnum að. Ég legg hins vegar áherslu á það að þessar viðræður eigi sér stað milli ríkja Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar til þess að raunhæf niðurstaða fáist í þetta mál. Þannig að ég get ekki samþykkt tillöguna eins og hún liggur fyrir um alþjóðlega ráðstefnu. Ég tel að með því að slíkar viðræður ættu sér stað, sem auðvitað byggðust á því að áður væri búið að ræða þetta mál innan

viðkomandi bandalaga til þess að það sé samræmd afstaða ríkjanna til þessa máls, þá náist meiri, betri og jákvæðari árangur bæði fyrir ríkin sjálf sem og Ísland sérstaklega.
    Þá vil ég einnig undirstrika það að það er óhjákvæmilegt að fram fari alhliða viðræður um afvopnun í Vestur-Evrópu þó að við leggjum auðvitað megináherslu á það sem snýr og lýtur að Norður-Atlantshafi. Þetta er ekki hægt að fjalla um nema í samhengi. Það er óhjákvæmilegt ef árangur á að nást og samstaða milli þeirra ríkja sem hér um ræðir.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég undirstrika fyrri skoðun mína á því að á Íslandi sé varnar- og eftirlitsstöð en ekki hernaðarstöð í þeirri merkingu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði í það orð hér áðan. Ég vil einnig að lokum segja það að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, þrátt fyrir allt friðartal, þrátt fyrir þessa tillögu um afvopnun, þá fellur hann alltaf í sömu gröfina. Hann getur aldrei stillt sig um það að ráðast að öðru stórveldanna, Bandaríkjunum, sérstaklega og tala um vígbúnaðarkapphlaup eins og það sé einhliða ákveðið af Bandaríkjamönnum. Það er eins og hv. þm. annaðhvort viljandi eða óviljandi gleymi því jafnan að Sovétríkin ástunda mikinn vígbúnað og þau hafa ekki enn sem komið er lýst sig reiðubúin til þess einhliða að draga úr vígbúnaði. Það kom skýrt fram í ræðu Vladimirs Lobovs hershöfðingja Varsjárbandalagsins á á þingmannasambandsfundi NATO í Róm um daginn að Rússar eru ekki reiðubúnir til þess að gefa einhliða yfirlýsingu um það að þeir muni draga úr sínum vígbúnaði eða sinni hergagnaframleiðslu. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Ég vil því biðja hv. þm. að hverfa nú frá kaldastríðsumræðunni og flytja sig yfir í þá umræðu sem við erum nú komin á, allflest, sem er það að við trúum því að viðræður geti átt sér stað um afvopnun milli þeirra ríkja sem hafa vigt og vald til að framkvæma það. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á raunverulegan frið í heiminum, en ekki almennt tal um frið eða samanburð á vígbúnaði stórveldanna.