Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Hvernig má það vera að í ríku samfélagi eins og okkar sem telur um 250 þúsund sálir sé lífskjörum jafnmisskipt og við blasir? Er það náttúrulögmál að konur séu hornrekur í þjóðfélaginu, að störf sem þær vinna séu sett neðst í launastigana? Er það réttlætanlegt að börnin okkar séu hundruðum eða þúsundum saman á eins konar vergangi drjúgan hluta úr deginum vegna skorts á góðum barnaheimilum og skólum sem taka mið af þörfum barna? Er það við hæfi að umhverfi okkar drabbist niður vegna mengunar, ofnýtingar á landgæðum og fjársveltis til náttúruverndarmála?
    Kvennalistinn er orðinn til m.a. vegna þess að stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa ekki tekið á þessum málum, þrátt fyrir fagurgala við hátíðleg tækifæri.
    Fannst ykkur, hlustendur góðir, að forsrh. veitti svör við þessum brennandi spurningum? Ég tók ekki eftir því. Samt er hann og aðrir ráðherrar að finna að því að stjórnarandstaðan skuli ekki hrósa þeim fyrir frammistöðuna. En þeir hafa fundið ráð við því. Þeir hæla sér sjálfir og eru ósparir á gullhamra um eigin verk og ágæti.
    Forsrh. er ekki af baki dottinn, enda með fimm til reiðar. Hann var hér áðan að hugga launafólk sem horfir á hrapandi kaupmátt dag frá degi og upplýsti að ríkisstjórnin hefði til sérstakrar athugunar hvort ekki megi koma við lækkun virðisaukaskatts á gróf brauð. Ja, þvílík rausn!
    Annars var ég að reyna að finna þráð í ræðu ráðherrans hér áðan innan um grófa brauðið og mylsnuna. Ekki var sá þráður í byggðamálunum. Ráðherrann minntist ekki einu orði á þau í ræðu sinni. Ef grannt var hlustað má segja að rauði þráðurinn í máli hans hafi verið hár fjármagnskostnaður blandaður háum vöxtum. Eftir árlanga setu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar eru ráðherrarnir að uppgötva að mikill fjármagnskostnaður hefur síðustu árin verið
eitt erfiðasta vandamál íslenskra atvinnuvega. En hver ber ábyrgðina? Forsrh. vísaði í ýmsar áttir, einkum til Seðlabanka Íslands sem eigi að tryggja hagkvæman rekstur bankakerfisins og lækkun raunvaxta.
    Hann treystir því augsýnilega að landsmenn séu ekki langminnugir því að staðreyndin er að árið 1985 stóð ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. að því í bróðerni að innleiða vaxtafrelsið á Íslandi. Þannig hefur Framsfl. hjálpað dyggilega við að spinna þann þráð okurvaxta sem nú er talinn ein helsta ástæðan fyrir bágu ástandi efnahagsmála.
    En það er fleira en vextirnir sem ráðherrarnir hafa áhyggjur af. Það er ekki síst kaupgjaldið í landinu, hlutur launafólks, kvenna í fiskvinnslu og iðnfyrirtækjum og annarra sem skapa þjóðarauðinn. Ekki af því að kaupið sé of lágt, heldur þvert á móti. Þið heyrðuð hvað forsrh. sagði hér áðan: ,,Ekki verður hjá því komist að kaupmáttur launa falli enn.`` Því miður eru líkur á að ríkisstjórnin nái árangri á þessu

sviði. Hún hefur góðum og þjálfuðum liðsmönnum á að skipa í baráttu sinni við launafólkið og atvinnurekendur munu taka liðveislu ríkisstjórnarinnar fegins hendi. Einn stærsti atvinnurekandinn er raunar ríkið og fjmrh. er sérstakur snillingur í að berja á viðsemjendum sínum.
    Eftir síðustu kosningar höfnuðu allir gömlu flokkarnir kröfu Kvennalistans um lögfestingu lágmarkslauna. Þá mátti ekki beita lögum. Stjórn Þorsteins Pálssonar, sem mynduð var sumarið 1987, hikaði hins vegar ekki við að taka samningsréttinn af launafólki. Þegar sú stjórn gafst upp eftir rúmlega eins árs hraklega siglingu og Alþb. hljóp í skarðið fyrir Sjálfstfl. mátti alls ekki afhenda samningsréttinn til baka. Hinn nýendurreisti forsrh. orðaði það af sinni alkunnu hógværð í stefnuræðu í fyrra að óhjákvæmilegt hefði reynst að víkja til hliðar mikilvægum mannréttindum. Síðan hefur kaupmáttur launa fallið stöðugt og nú er svo komið að þorri launafólks hefur varla í sig og á þrátt fyrir sífellt lengri vinnudag.
    Forsrh. boðar aukið atvinnuleysi á næsta ári, en segir jafnframt að ríkisstjórnin sé að leita leiða til að auka hagvöxt. Úrræðin eru einkar frumleg. Bygging álvers í Straumsvík sem fullbúið mun ekki veita nema um 250 manns atvinnu. Ekki dregur það svo teljandi sé úr atvinnuleysi, síst af öllu hjá konum. Konur eru meiri hluti þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskrá og varla leita þær í ríkum mæli eftir atvinnu við að reisa stóriðjuver og virkjanir.
    Það er í meira lagi sérkennilegt að heyra verkalýðsfélög krefjast framkvæmda af þessu tagi sem kosta munu um 50 þús. millj. ísl. kr. en veita aðeins nokkur hundruð manns atvinnu. Fjárfesting á bak við hvert starf verður um 200 millj. kr. Hér eins og víðar eru það skammtímasjónarmið sem ráða ferðinni.
    En hvað um orku fallvatnanna, segja menn? Á ekki að selja hana? Forsrh. upplýsti í stefnuræðu sinni að orkuverð muni fara ört hækkandi erlendis með hverju ári sem líður. Á sama tíma er verið að semja um raforkuverð við útlendinga sem er langt undir framleiðslukostnaði. Hér á enn einu sinni að velta kostnaðinum yfir á íslensk fyrirtæki sem borga nú þegar margfalt verð
fyrir orkuna, að ekki sé talað um almenning í landinu. Fyrir stóriðjuna á að fórna hagkvæmum virkjunum sem myndu henta vel fyrir vöxt almenns raforkumarkaðar á komandi árum. Það eru skrýtin fræði að reikna aukinn hagvöxt sem uppskeru af slíkri útsölustefnu þegar í henni felst að Íslendingar framtíðarinnar þurfa að greiða hærra raforkuverð.
    Þessi ríkisstjórn þóttist ætla að gera átak í atvinnumálum kvenna í dreifbýli og Alþingi tók undir það með sérstakri ályktun sl. vor. En hvert var svo næsta skref ríkisstjórnar jafnréttis og félagshyggju? Jú, hún skipaði tvær nefndir til að fjalla um atvinnumál. Í þeim sitja samtals 17 einstaklingar. Ætli það sé bara tilviljun að þeir eru allir karlkyns?
    Ríkisstjórnin gumar af því að vera að byggja upp þekkingu í landinu sem eigi að leggja grunn að

auknum þjóðartekjum. En hvað eru ráðherrarnir að gera þessi missirin? Niðurskurður á rekstrarkostnaði grunnskóla er um 4% á þessu ári. Mikill niðurskurður verður á skólabyggingum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. Æðsta menntastofnun þjóðarinnar, Háskólinn, fær nú þær kveðjur að hann eigi að láta drjúgan hluta af sjálfsaflafé sínu í Þjóðarbókhlöðu. Vanrækslan gagnvart þeirri byggingu er orðin þjóðarhneyksli. Bókhlaðan átti að vera gjöf landsmanna í minningu 11 alda búsetu í landinu. Ríkisstjórnin setti í málefnasamning sinn að bókhlöðunni skyldi lokið innan fjögurra ára. Nú á að reyna að efna það loforð á þann sérkennilega hátt að ráðast að undirstöðum Háskólans. Það er reyndar fjmrh. Alþb. sem stendur að þeirri aðför. Menntmrh. sama flokks telur sig vera að vinna að margs konar nýmælum og þeysist um landið til að kynna frumvörp og reglugerðir. Innistæðan á bak við skrúðmælgi ráðherra menntamála er hins vegar minni en engin þar sem árangurinn birtist með öfugum formerkjum í fjárlagafrv. nú annað árið í röð.
    Það verður þó að telja ríkisstjórninni það til tekna að nú skuli loks eiga að setja á stofn umhverfisráðuneyti. Ef rétt verður á því máli haldið getur það orðið lyftistöng fyrir umhverfisvernd sem hefur verið vanrækt hér um langt skeið. Það féllu mörg orð um bætt umhverfi í stefnuræðu forsrh. Vonandi gerir ríkisstjórn hans sér ljóst að ekki er nóg að stofna ráðuneyti heldur þurfa að koma til vitræn vinnubrögð og fjármagn til aðgerða. Það er ekki sérlega traustvekjandi ef fela á Borgfl. forustu í þessum málaflokki.
    Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að úti í Evrópu hafa 12 ríki ákveðið að afnema landamæri sín á milli fyrir lok ársins 1992. Þar með afsala þau sér endanlega stjórn sinna mála til yfirstjórnar sem situr í Brussel. Sagt er að öll stjórnmálasamtök sem eiga fulltrúa á Alþingi hafi lýst því yfir að aðild Íslands að Evrópubandalaginu sé ekki á dagskrá þessa stundina. Það er þó ljóst að ekki býr mikil sannfæring að baki slíkra orða á sumum bæjum. Á landsfundi Sjálfstfl. nýverið var greinilegt að fulltrúum þar þótti vel koma til greina að Ísland sameinaðist þessu stórríki í Evrópu og fer þá að verða tími til kominn fyrir Sjálfstfl. að leita sér að nýju nafni.
    Hingað til höfum við haft góð samskipti við Evrópubandalagið. Við höfum getað selt okkar fisk að miklum hluta tollfrjálst á þeirra markaði. Við höfum samvinnu við bandalagið á sviði vísinda, tækni, menntamála og umhverfismála, svo eitthvað sé nefnt. Engin ástæða er til að ætla annað en að svo geti orðið áfram og að við getum náð fram endurbótum í tvíhliða samningum. En ríkisstjórnin með utanrrh. í broddi fylkingar virðist á öðru máli því að nú er stefnt að samruna Íslands við Evrópubandalagið bakdyramegin. Það er kallað evrópskt efnahagssvæði í fyrstu lotu.
    Því er haldið fram að ekki komi til greina að útlendingar fái aðild að fiskimiðum okkar. En hvað er

að gerast? Stærri og stærri hluti af fiski af Íslandsmiðum fer til vinnslu erlendis. Það mun enn aukast ef haldið verður áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnin nú fetar gagnvart Evrópubandalaginu.
    Svokallað frelsi í fjármagnsflutningum er annað atriði sem unnið er að á vegum ríkisstjórnarinnar gagnvart Evrópubandalaginu. Og hvað þýðir það fyrir þjóð í útjaðri væntanlegs efnahagssvæðis? Reynsla Danmerkur og Írlands segir okkur nokkuð um það hvers vænta megi. Frá þessum löndum sem bæði eru hluti af Evrópubandalaginu hefur fjármagnið streymt burt, þveröfugt við spádóma frjálshyggjupostula.
    Opnun fyrir fjármagnsflutninga og erlenda banka á Íslandi mun hafa í för með sér að útlendingar ná smám saman tökum á íslenskum auðlindum. Er það það sem við viljum stefna að?
    Framtíðarsýn þeirra sem sitja við stjórnvölinn þessi árin er ekki glæsileg. Ef þeirra stefna verður að veruleika munu Íslendingar aðallega stunda frumvinnslu í landinu í fyrirtækjum sem útlendingar ráða yfir. Erlendum stóriðjufyrirtækjum á að fjölga og fiskurinn verður fluttur út óunninn. Framlög til menntunar og menningarstarfsemi eru skorin niður fyrst af öllu og bækur á að skattleggja með 26% gjaldi í ríkissjóð.
    Forseti. Góðir hlustendur. Það er hægt að breyta þeim veruleika sem við okkur blasir vegna rangrar stjórnarstefnu og úrræðaleysis valdhafanna. Við Íslendingar höfum allar forsendur til að lifa við góð lífskjör og búa börnum okkar örugga framtíð. Náttúruauðlindir okkar, fiskimið, gróðurmold og
orkulindir, eru traustur grunnur á að byggja ef við umgöngumst þær af framsýni og fyrirhyggju. Glötum þeim því ekki í hendur útlendinga.
    Stjórnmál eiga að snúast um forgangsröð. Þar hafa konur margt til mála að leggja. Kvennalistinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að gildismat kvenna fái sinn sess alls staðar þar sem ráðum er ráðið. Þannig byggjum við upp farsælla og réttlátara þjóðfélag. --- Góðar stundir.