Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Í mín eyru hljómaði flest í stefnuræðu forsrh. kunnuglega. Svo gat virst í fljótu bragði að verið væri að fjalla um stórmál þjóðarinnar. En þótt drepið hafi verið lauslega á margt stórt erum við í raun litlu nær. Nauðsynlegra hefði verið fyrir þing og þjóð að fá að heyra hver er í raun og veru stefna stjórnar sem fyrir ári síðan tók að sér að bjarga landinu frá efnahagslegu hruni.
    Víðtækasta skuldbreyting Íslandssögunnar hefur átt sér stað. Stærstu upphæðirnar renna að vonum til stórra fyrirtækja í miklum vanda. Að hluta til hlýtur þar að vera um að ræða vanda vegna rangra ákvarðana í fortíðinni. Atvinnulíf er enn í lægð og spáð er vaxandi atvinnuleysi. Ráðstöfunartekjur munu minnka og vandi atvinnufyrirtækja er svo sem ekki leystur þrátt fyrir skuldbreytingar. Við einhæfu atvinnulífi og vanda sjávarútvegsins þykjast menn sjá einhver svör en allt of fá.
    Eins og svo oft áður er litið vonaraugum til stóriðju. Hvenær ætla menn að fara að leggja rækt við hið smáa þar sem sérhvert atriði er mönnum nærtækt og snertir hvern og einn beint? Því miður gætti þessa lítið í stefnuræðu forsrh. Hvers vegna er ekki litið til annarra lausna en þeirra sem skapa tugum eða hundruðum atvinnu? Hefur samlagningin gleymst, að margt smátt gerir eitt stórt? Má hvert atvinnutækifæri kosta hvað sem er ef það er aðeins eitt af nógu mörgum í kippu.
    Erlend lán eru dýr. Jafnvel bjartsýnustu menn ætla sér ekki þá dul að virkja til stóriðju án þess að taka erlend lán fyrir um 80% kostnaðar. Hvenær ætlum við að læra af reynslunni? Og hér er þó ekki litið á umhverfismengun, óyndislegar vinnuaðstæður og þá einföldu staðreynd að álver minnkar ekki atvinnuleysi kvenna.
    Á undanförnum árum hefur oft verið lánað stórt og stundum gengið vel en allt of oft miður. Gjaldþrot stórfyrirtækja valda miklum sveiflum á vinnumarkaðnum. Ríkið þarf að borga talsverðar summur ef fyrirtæki fer á hausinn og skuldar laun. Á sl. ári námu greiðslur vegna ríkisábyrgða launa um 80 millj. kr., meira en þrefaldri þeirri upphæð sem búist var við. Það er því ábyrgðarhluti hjá ríkinu sem öðrum að lána stórar fúlgur, einkum þegar fjármagnskostnaður er svo hár sem raun ber vitni. Fjármagni er samt sem áður ausið til áhættusamra fjárfestinga upp á milljónir.
    En ung bóndakona í Borgarfirði fær þau svör hjá einni lánastofnun atvinnuveganna að það þýði ekkert að biðja um lán til að kaupa 30 eða 40 þús. kr. steinasög. Fjárfestingin sé ekki nógu stór. Hvers konar verðmætamat er þetta eiginlega? Hún var með frumkvæði, hugmynd, en mátti aðeins steypa sér í stórar skuldir, ekki smáar. Því miður er svipuð dæmi að heyra úr öðrum atvinnugreinum. Það er þeim mun ánægjulegra að heyra af öðrum þankagangi.
    Í Bændaskólanum á Hvanneyri er t.d. farið að hyggja á góðum hugmyndum og bjóða upp á sífellt

fjölbreyttara valnám, m.a. í ullarvinnslu. Ekki endilega með það fyrir augum að gera menn færari til að framleiða 100 þúsund trefla, heldur er þar kennt að vinna ull í fat með hefðbundnum hætti. Ekki þarf að fjárfesta í dýrum og sérhæfðum tækjakosti til að búa til minjagripi með þessum hætti, heldur skiptir hugvit, hönnun og alúðleg vinnubrögð hér meginmáli. Konur í sveitum vantar vinnu. Þetta ásamt öðru gæti skapað hana. Ef við ætlum að standa undir nafni í ferðaþjónustu verðum við að geta boðið upp á þjóðlega og vel gerða minjagripi.
    Í ferðaþjónustu sannast enn að hin mörgu smáu úrræði geta verið góð. Meðan nýleg stórhótel riða blómstrar ferðaþjónusta bænda. Og innlend framleiðsla er atvinnuskapandi, hún sparar gjaldeyri og í því tilviki sem ég nefndi hér áðan er hún einnig vel fallin til að afla gjaldeyris.
    Konur leita oft nýrra leiða í atvinnu til að skapa sér eigið sjálfstæði. Ætli það sé tilviljun að í Bandaríkjunum, þar sem allt á nú að vera stærst og mest, eru menn farnir að fjárfesta skipulega í hugviti kvenna. Þar er nýsköpunin og jafnvel innan stærstu fyrirtækjanna hefur mönnum lærst að brjóta starfsemi upp í smærri einingar og ná þannig hagkvæmni hugvits og heildarsýnar í stað vélvits og vinnuþrælkunar.
    Við skulum ekki gleyma þeirri tæknibyltingu sem orðið hefur með tölvu- og upplýsingaöld. Nú þarf ekki lengur að smala öllum á sama stað til að vinna að ákveðnum verkefnum. Þetta sáu kvennalistakonur mætavel er þær fluttu þáltill. um að færa verkefni ríkisstofnana út á land og skapa þar nýja atvinnumöguleika. Hvert eitt starf skiptir máli.
    Kona í Vopnafirði hefur nú tekið að sér bókhald og framtöl bænda þar í sveit. Það er bara starf fyrir einn á þeim tíma árs sem minnst er að gera í búskapnum en hvert eitt starf skiptir máli. Á Suðurnesjum er mikilvæg hefð fyrir fiskvinnslu og fáir vita betur en konurnar hvaða möguleika hráefnið gefur okkur. Samvinna fagfólks og frumherja þarf ekki endilega að kalla á risafjárfestingar. Gefum gaum að frumkvæði kvenna, þar gæti leynst fjársjóður. Að þessu frumkvæði þarf að hlúa og skapa svigrúm til að byggja upp, ekki bara
á einu sviði heldur fjölmörgum.
    Vera kann að einhverjum þyki ekki í verkahring Alþingis að hugsa um mál sem virðast smá. Lítil gosdrykkjardós er kannski ekki mikil mengun í umhverfi okkar. En væri öllum landsins gosdrykkjardósum fleygt á víðavang gegndi öðru máli. Það kom til kasta Alþingis að móta þá heillavænlegu stefnu að sporna við slíkri umhverfismengun er það samþykkti í fyrravor þáltill. sem flutt var að frumkvæði Kvennalistans um einnota umbúðir. Þarna var hugað að einu hinna mörgu smáatriða sem varða okkur öll en tengjast svo mörgu, virðingu okkar fyrir umhverfinu, vilja okkar til að endurnýta auðlindir jarðar, ábyrgð okkar á því að halda sameiginlegum útgjöldum í lágmarki, því það kostar sitt að sóa auðlindum og urða fyrirferðarmikil verðmæti.

    Á sama hátt og fjallað var um einnota umbúðirnar vildi ég sjá Alþingi takast á við önnur hin smæstu atriði sem varða þó svo marga, t.d. yfirlætislausar lagfæringar á lögum um málefni fatlaðra eða í almannatryggingakerfinu, hyggja að því hvaða kjör stjórnvöld búa þeim er annast fötluð eða veik börn sín eða foreldra í heimahúsum. Það þýðir ekki alltaf að bíða eftir að stóru línurnar verði lagðar og vísa einatt á heildarendurskoðun einhvern tímann í framtíðinni. Endurbætur sem ekki þola bið verða ekkert verri þótt þær séu samþykktar áður en næstu stóru línur eru lagðar, línur sem áreiðanlega þarf að endurskoða.
    Og svo eru það börnin ung og smá. Er ekki komið að okkur að vakna upp við vondan draum og gera okkur grein fyrir þeim aðstæðum sem við búum þeim? Það er varla tilviljun að fólk finnur sig knúið til að stofna samtök til að gæta hagsmuna íslenskra barna einmitt núna þessa dagana. Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar um dagvistun barna á forskólaaldri og lífskjör foreldra kemur fram að meiri hluti foreldra forskólabarna er óánægður með þjónustu stjórnvalda. Þessi niðurstaða sýnir að foreldrar firra stjórnvöld engri ábyrgð og eiga ekki að gera það. Í sömu könnun kemur einnig fram að þungar fjárhagsáhyggjur hvíla á allt of stórum hópi foreldra forskólabarna. Oftast er það vegna kaupa á húsnæði. Vandi fjölskyldnanna í landinu er ekki síður mikill en vandi fyrirtækjanna þegar fjármagnskostnaður er hár. Kannski meiri. Alþingi getur ekki firrt sig ábyrgð á lífi neins sinna minnstu barna.
    Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.