Grunnskóli
Þriðjudaginn 24. október 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem í meginatriðum felur í sér lengingu skóladags barna á grunnskólaaldri er nú lagt fram hér í Nd. aftur. Jafnframt var í fyrra lagt fram í Ed. frv. sem hneig mjög í sömu átt og var flutt af kvennalistakonum. Verður það einnig lagt fram í Ed. innan tíðar.
    Það er í rauninni dapurlegt til þess að vita að það skuli þurfa að flytja þessi frv. ár eftir ár og þau skuli ekki vera komin til framkvæmda, slíkt nauðsynjamál sem þetta er orðið að skóli og skólastarf bregðist við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Það sem einu sinni dugði til gerir það ekki lengur og það er allt sem vitnar um það, félagsleg aðstaða barna og foreldra, mjög breyttar þjóðfélagsaðstæður, auknar menntunarkröfur og svo mætti lengi telja. Við þekkjum öll þessar aðstæður og þurfum svo sem ekkert að tíunda þær mikið, en það má eiginlega furðu sæta að þetta skuli ekki vera slíkt forgangsmál stjórnvalda að það séu orðnar stórfelldar úrbætur. En það er nú eins og vant er að þegar kemur að börnum eða unglingum --- eða konum, þá fara þau mál mjög aftarlega á listann og þá er kostnaður slíkur þyrnir í augum stjórnvalda að honum er sífellt borið við. Það liggur við að það sé ósæmilegt að ræða kostnað þegar við erum að ræða um svo brýn mál eins og skólahald. Í rauninni má segja að það sé aldrei nógu til kostað og megi ekkert til spara til þess að þar sé sem best að verki staðið. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að taka upp einhverja óráðsíu og bruðl og það að gæta þess ekki í hvað peningarnir eru notaðir. Ég á ekki við það heldur hitt að sá kostnaður sem er nauðsynlegur til þess að þessi mál séu ekki bara í sæmilegu lagi heldur góðu lagi ætti ekki að vera það sem stæði málinu fyrir þrifum.
    Þetta frv. og frv. sem kvennalistakonur fluttu í Ed. í fyrra eru mjög áþekk eins og ég sagði áðan. Það eru þó nokkur atriði sem skilja að og er þá fyrst til að taka atriði sem er í frv. sem flutt er hér í Nd. af hv. þm. Ragnhildi
Helgadóttur þar sem lagt er til að heimilt sé sveitarfélögum að setja á stofn grunnskóla og undir sömu stjórn forskóla fyrir fimm ára börn. Nú er þetta út af fyrir sig athyglisvert, og er sjálfsagt, finnst mér, að hafa slíkt inni í þessum lögum, en ég vil í því sambandi minna á að nú er starfandi á vegum menntmrn. nefnd sem er að smíða tillögur um fyrirkomulag forskólastigsins, þ.e. fyrir börn alllt frá fæðingu og upp að skólaaldri, og árangur af því starfi verður væntanlega tillögur um allt ytra og innra starf forskóla. Það á ekki að koma í veg fyrir að aðrir möguleikar séu til í skólakerfinu og gæslu, en þá þarf að gæta að því að það rekist ekki hvað á annars horn. Ég held að það sé í mörgum tilfellum afskaplega æskileg tilbreyting fyrir börn sem hafa dvalið á leikskólum eða öðrum dagvistarstofnunum í nokkur ár að stíga svo sem eins og öðrum fæti inn í skólakerfið á þessum aldri. Ég þekki það af eigin raun, þegar ég var með lítil börn á dagheimili og átti þess kost að

setja þau einmitt í fimm ára bekk í Ísaksskóla, hálfan daginn, hvað þeim var það kærkomin tilbreyting og varð þeim greinilega til þroska og ánægju. Ég held því að þetta væri þarft skref að stíga svo framarlega sem það samræmist öðrum aðgerðum.
    Annað vil ég nefna sem mér finnst vanta í frv. og það eru ákvæði um fjölda nemenda í bekkjardeildum. Í frv. kvennalistakvenna er gert ráð fyrir að fjöldi nemenda í 1. og 2. bekk, þ.e. sex og sjö ára barna í grunnskóla, fari ekki yfir 14 og að meðaltal nemenda í 3.--10. bekk fari ekki yfir 18. Ég held að það sé mjög brýnt að koma á fastri skipan hvað varðar nemendafjölda vegna þess að það segir sig sjálft að eins og nú háttar til þegar ekki er lengur skipað í bekki eftir svokallaðri námsgetu, þá er starf kennarans örðugra. Það útheimtir persónulegri kennslu, þ.e. persónulegri athygli við hvern nemanda, auk þess sem kennarinn á þá miklu auðveldara með að standa undir þeim tilfinnanlegu kröfum sem gerðar eru til kennara í dag. Þeir þurfa að svo mörgu leyti að koma í staðinn fyrir heimilin mikinn tíma dagsins og því mjög mikilvægt að kennarar nái að mynda persónuleg tilfinningaleg tengsl við nemendur sína því að á því þarf hvert barn að halda ef því á að líða vel og ef það á að ná árangri og það gefur augaleið að því fleiri sem nemendurnir eru, því erfiðara á kennarinn með að standa undir þessum kröfum.
    Í fyrra fengum við að sjá hér á Alþingi námsskrá fyrir grunnskóla. Það var hið glæsilegasta plagg og ekkert nema gott um það að segja og var talsvert ítarlega rætt hér í fyrra. Í umræðum um þessa námsskrá gerði ég einmitt að umræðuefni þær gífurlegu kröfur sem væru þar gerðar til kennara. Það var varla til sá eiginleiki, persónulegur eða faglegur, sem hann átti ekki að hafa til að bera, auk alls þess námsefnis og fræðslu sem hann átti að koma til skila. Hann gerir það auðvitað ekki innan þess kerfis sem við búum við í dag. Það er borin von. Það stendur ekki í mannlegu valdi að gera það. En við megum ekki gleyma því að það er og verður í rauninni merkasti og sterkasti þáttur í starfi hvers kennara að geta einbeitt sér að hverjum nemanda þannig að hæfileikar hans og eiginleikar fái sem best að njóta sín.
    Í báðum frumvörpunum er gert ráð fyrir athvarfi í skólanum utan lögboðins
skólatíma. Þó er sá blæbrigðamunur, eða það er að vísu miklu meira en blæbrigðamunur, það er náttúrlega skoðanamunur, að í frv. sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir að heimilt sé að taka greiðslu fyrir dvöl í skólaathvörfum. Ég held að það sé einmitt grundvallaratriði, til að skólaathvörf nýtist sem best fyrir þá nemendur sem þurfa mest á þeim að halda, að það sé ekki gegn gjaldi, og þetta sé jafnsjálfsagður liður í kostnaði skóla og skólahaldið sjálft.
    Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vitnaði hér í merka skýrslu, Mannvernd í velferðarþjóðfélagi. Þessa skýrslu hefur áður borið hér á góma í máli mínu og margra annarra. Hún er í rauninni svo merkt plagg að þar ættu stjórnvöld að finna sér forgangsröð um

framkvæmdir til félagslegra úrbóta. Í þeirri skýrslu er svo margt sem bendir til vanrækslu og margt sagt þar sem styður hve hörmulegar afleiðingar slík vanræksla getur haft. Aðallega er það auðvitað þetta að börn ganga sjálfala, eða eru ein án gæslu stóran hluta dagsins. Því ráða eflaust margir þættir. Eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir benti á getur verið um val foreldra að ræða, að þeir telji einfaldlega ekki þörf á gæslu, en þó hygg ég að slíkt sé í fæstum tilfellum. Oftast er það, eins og ég reyndar gerði hér að umtalsefni í gær, að foreldrar eiga ekki kost á gæslu eða, sem ekki er ólíklegra, að þeir hreinlega hafa ekki efni á henni. Og það gefur augaleið að það eru þeir sem verst eru staddir, þeir sem lægst hafa launin, sem þurfa að vinna lengstan vinnudaginn, sem þurfa mest á þessu athvarfi að halda fyrir börnin sín. Eða réttara sagt, börnin þeirra þurfa mest á þessu athvarfi að halda, en hætt er við að þau börn gætu ekki notið þessarar gæslu ef gjald kæmi fyrir. Þá er kannski betur heima setið en af stað farið ef sú yrði raunin að það væru einmitt þeir sem mest væru þurfandi sem yrðu að vera án aðstöðunnar.
    Það er auðvitað ótalmargt fleira sem hangir þarna á spýtunni, heilbrigðismál ýmiss konar og slysahætta og alls konar andleg og líkamleg velferð barna. Þetta var tíundað vel hér í umræðum í fyrra og á eflaust eftir að bera á góma aftur en er auðvitað sterk röksemd fyrir lengingu skóladags og tilvist athvarfa.
    Annað það sem við kvennalistakonur lögðum áherslu á í okkar frv. í fyrra var að það væri aðstaða í öllum skólum til þess að hafa þar skólamáltíðir á boðstólum. Þetta er slíkt grundvallaratriði í rekstri skóla í dag að undan þessu verður ekki vikist. Það háttar nú svo til og ættu hv. þm. að þekkja það því að þeir búa m.a. við þá aðstöðu að eiga aðgang að góðum mat hér í hverju hádegi sem þeir greiða ekki einu sinni fullu verði og svo háttar til um fjölmarga aðra fullorðna í þjóðfélaginu að þeir eiga að eiga aðgang að þessari þjónustu í hádegi. Börn og unglingar eru hins vegar einu þegnar þjóðfélagsins sem ekki eiga kost á þessu. Afleiðingarnar eru sjálfsagt margvíslegar, þær eru heilsufarslegar. Þær lýsa sér í meiri tannskemmdum og ætli það komi ekki líka fram í stórauknum viðskiptum í sjoppum og söluturnum því að það er margt sem bendir til þess að þaðan komi því miður oft fæði barna sem eru eftirlitslaus. Þau kaupa sér það sem hendi er næst og aðgengilegast er hverju sinni og þá verður svokallað sjoppufæði oft fyrir valinu.
    Ég gerði hér að umræðuefni í fyrra tannskemmdir barna og unglinga sem eru meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum t.d. og er eflaust eitthvert samband á milli neysluvenja og tannskemmdanna. Þó að sums staðar hátti þannig til að börn komist vel heim í hádegi er sjaldnast nokkur þar til staðar til að útbúa handa þeim mat eða sjá til þess að þau borði vel og borði næringarríka fæðu sem er þó aldrei nauðsynlegra en einmitt á þessum árum.
    Það er annað sem mig langar að minnast á í þessu frv. sjálfstæðismanna og það eru tillögur þeirra um

lengingu skólaárs. Nú finnst mér það e.t.v. orka nokkuð tvímælis hvort eigi að svo stöddu að fara út í að lengja skólaárið. Ég held að við ættum fyrst að snúa okkur að lengingu skóladagsins og fá einhverja reynslu af því áður en við færum út í lengingu skólaársins. Hitt er svo annað mál að vel mætti haga því svo til að að lögbundnu skólaári loknu væri nemendum sköpuð aðstaða til áframhaldandi starfs í skólanum. Það er margs konar tómstundastarf og íþróttastarf sem væri hægt að hafa í gangi fram eftir sumri og e.t.v. mætti byrja aftur fyrr á haustin og reyna þannig að koma til móts við börn, þarfir barnanna og foreldranna. Það hafa verið gerðar undanfarin ár nokkuð merkilegar tilraunir með skólabúðir og það mætti vel hugsa sér að það tengdist t.d. þessu starfi að skólaárinu loknu og fjöldamargt annað mætti telja. Vil ég í því sambandi minna á tillögu sem var reyndar samþykkt hér á Alþingi í fyrra og var um athugun á því að samhæfa og samræma kennslu í tónmennt í grunnskólum og tónlistarskóla og átti þetta að vera liður í því að tengja skólana meira ýmiss konar menntun og tómstundastarfi sem nemendur sækja sér nú utan skóla. Það mætti svo sannarlega íhuga þetta einmitt í sambandi við viðveru barna í skólahúsnæðinu lengur en sem nemur skólaárinu.
    Ég get ekki stillt mig um að minnast á ákveðið atriði af því að mönnum verður svo tíðrætt um það núna varðandi aðild Íslendinga að EFTA og hugsanlegt samstarf við EB hvað það sé nauðsynlegt að dragast ekki aftur úr, einangrast ekki, verða ekki á eftir. Ég er ekki viss um að viðskiptasamningar séu
úrslitaatriði í því. Það hlýtur að vera menntun og menningarstig hverrar þjóðar sem ræður þar úrslitum, hvort hún dregst aftur úr eða hvort hún stendur í broddi fylkingar. Það er líka sterkasta vopn hverrar þjóðar og ég tala nú ekki um fámennrar þjóðar, bæði til verndunar og styrktar eigin sjálfstæði og til að gera sig gildandi í samfélagi þjóðanna. Lenging skóladags og bætt aðstaða fyrir börn og unglinga í skólum er því svo sannarlega eitt það áhrifaríkasta og mest áríðandi ef við viljum halda okkar stöðu og dragast ekki aftur úr.
    Ég vona svo sannarlega að þetta frv. fái góða og hraða umfjöllun í nefnd og að við sjáum það aftur hér innan tíðar ásamt fleiri frv. sem fram eiga eftir að koma um sama mál. Það besta valið úr báðum, fellt saman í eina heild svo að allir megi vel við una.