Jöfnun raforkuverðs
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svör hans. Það kemur að sjálfsögðu fram að hér er um viðamikið mál að ræða. Ég er ekkert að efast um það. Ég ætla ekki heldur að tefja umræður í sambandi við yfirtökuna á Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Það verður að segjast eins og er að margir urðu fyrir vonbrigðum með það hvað raforkuverðið hjá Rafmagnsveitum ríkisins lækkaði lítið í sambandi við þessa miklu yfirtöku skulda Rarik sem ríkið yfirtók samkvæmt fyrri samningi.
    Það sem ég hins vegar legg áherslu á er það að þessi fyrri liður, í sambandi við að raforkuverð verði það sama til allra dreifiveitna í landinu, er náttúrlega fyrsta skrefið sem er raunverulegt, og ég trúi því vart að það sé ekki hægt að flýta þeim ráðstöfunum þannig að það þurfi ekki að taka mörg ár því að þetta væri að mínu mati hægt að gera á miklu skemmri tíma en kom fram hjá hæstv. ráðherra. Hér er um mikinn verðmun að ræða á orkusvæði Rarik til dreifiveitna. Heildsöluverð hefur til skamms tíma verið um 26% sem sýnir hvað þetta mál er mikilvægt að því er varðar að allar dreifiveitur í landinu búi við sama verð. Ég legg áherslu á það, hæstv. ráðherra, að fundin verði leið til þess að hraða þessu sérstaka máli meira en kom fram í svörum hæstv. ráðherra. Ég vil aðeins benda á að út frá lið B er það auðvitað til hliðstæðra nota. Þó að spurningin sé svona sett fram ætlast ég ekki til að sama verð sé til upphitunar og ljósa og annarrar notkunar, heldur til hliðstæðra nota. Ég þakka ráðherra svörin.