Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég má til með að gera athugasemd við þessa upptalningu sem hér kom fram hjá hæstv. forsrh. Það hefur reyndar komið fram áður í blöðum og annars staðar og gildir um báðar þessar nefndir að það er ekki ein einasta kona sem situr í þeim. Þarna var talinn upp fríður flokkur karla og ég efast ekki um að þeir séu hæfir á sínu sviði, en mér finnst alveg með ólíkindum að það skuli vera hægt að skipa eftir því sem mér skilst tvær nefndir með samtals 17 einstaklingum og allt skuli vera karlar.
    Það væri fróðlegt að vita hvort þessir ágætu menn, þessir ágætu ráðherrar hér, hæstv. hagstrh. og hæstv. forsrh. hvort þeir telji að konur séu óhæfar eða hafi ekki vit eða hafi ekki hugmyndir á þessum sviðum. Það kom hér fram að konur eru í meiri hluta þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá og ég fullyrði og veit að konur bæði hafa vit, hugmyndir og eru tilbúnar til að leggja sitt fram á þessu sviði. Það er spurning hvenær kemur að því að konur verði virtar að verðleikum.