Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að bera fram þessa fsp. Ég tel hana vera mjög þarfa. Kvennalistakonur vöktu raunar athygli á þessu þegar fjallað var um stefnuræðu forsrh. hér fyrr í vikunni. Þar kom fram hneykslun þeirra og réttlát reiði og það var náttúrlega ekki bara þeirra persónulega reiði heldur höfum við kvennalistakonur ferðast mikið um landið í sumar og við finnum hvað atvinnumálin brenna á konum hvar sem við komum. Það undrar okkur að ríkisstjórn sem vill kenna sig við jafnrétti skuli treysta sér yfirleitt til þess að útiloka rúman helming þjóðarinnar frá þessum mikilvægu nefndum. Það kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, Kristínar Einarsdóttur, að konur hafa margt til mála að leggja á þessum sviðum. Við kvennalistakonur höfum haldið ráðstefnur um atvinnumál þar sem komið hefur fram að konur hafa ýmsar hugmyndir. Þær eru tilbúnar til þess að taka frumkvæði en eins og allar konur þá eru þær fremur auralausar og eiga kannski ekki mjög greiðan aðgang að lánastofnunum atvinnuveganna eins og reyndar líka kom fram í ræðu hv. 10. þm. Reykn. stefnuræðukvöldið. Ég vil sérstaklega benda á varðandi atvinnumál kvenna í dreifbýli að þar er vandamálið þegar orðið mjög mikið, þar er dulið atvinnuleysi, konur þar eru svo sannarlega tilbúnar til að taka til hendinni. Ég vil að lokum benda á að varðandi dreifbýlið er þetta auðvitað fyrst og fremst byggðamál. Það er undirstaða þess að treysta byggð úti í hinum dreifðu byggðum að konurnar finni þar líka eitthvað við sitt hæfi. Þess vegna vil ég að lokum, virðulegur forseti, lýsa enn og aftur réttlátri reiði okkar og hneykslun á þessari skipan mála.