Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. veittar upplýsingar um þessar nefndir. Það var vissulega ánægjulegt að heyra að það hefur orðið breyting á varðandi samsetningu er snertir kynskiptingu í nefnd eða starfshópi hæstv. hagstofuráðherra frá því að nefndin upphaflega var skipuð. En auðvitað vakti það athygli að settur skyldi niður svo stór hópur til þess að athuga um atvinnumál, án þess að konur kæmu þar við sögu og er það vissulega einn þáttur þessa máls.
    Eins og ég gat um þá eru konur í verulegum meiri hluta þeirra sem eru atvinnulausir og hætt er við því að halli á þær eða fari í það far enn frekar á komandi mánuðum. Sérstaklega er þetta áberandi víða út um landið þar sem atvinnuframboð til kvenna hefur í senn verið fábreyttara og konur orðið meira fyrir barðinu á atvinnuleysi.
    En hér er slíkt stórmál á ferðinni að það verður að vænta þess að þeir hópar sem hafa verið kvaddir þarna til starfa komi með tillögur varðandi skammtímaþróun þessara mála. Hitt skiptir svo ekki síður máli að leitast verði við að tryggja atvinnuástand til lengri tíma. Þar hef ég vissulega nokkrar efasemdir um hugmyndir sem fyrir liggja um úrlausnir í þeim efnum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þar sem aðallega virðist horft til stóriðju og stóriðjuframkvæmda, sem eru ekki mjög atvinnuskapandi eins og menn þekkja, síst af öllu til lengri tíma litið.
    Hæstv. félmrh. hefur fengið þál. frá síðasta vori um athugun á eflingu atvinnutækifæra fyrir konur í dreifbýli. Hæstv. ráðherra er ekki hér viðlátinn en við verðum að vænta þess að einnig á hans verksviði sé að þessum málum unnið.