Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir ágæta fyrirspurn, en ég undrast þær umræður sem orðið hafa á eftir sem snúast að mínu mati um aukaatriði. Það er vissulega á sínum stað að gæta þess að kynskipting í nefndum sé rétt. En fólkið sem er atvinnulaust spyr ekki að því. Það spyr að því hvort einhver úrræði koma. Hvort það geti fengið atvinnu. Það er það sem er aðalatriði þessa máls.
    Ég sat á tali í gærkvöldi við skipstjóra suður í Keflavík sem var tilkynnt fyrir nokkrum dögum síðan að það væri búið að selja atvinnuna frá honum og hans skipshöfn, harðduglegum sjómönnum. Og ég hef horft upp á það að tugir manna eru atvinnulausir á þessu svæði, ekki tugir, núna á föstudaginn þarf að greiða um 150 manns atvinnuleysisbætur og svo hefur það verið viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Þetta fólk spyr um úrræði, hvort það geti fengið atvinnu, lífsbjörg, hafi fulla reisn, en ekki það hverjir eru í atvinnumálanefndum.