Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að heyra það að hv. 4. þm. Reykn. er annt um líðan fólks sem er atvinnulaust eða býr við erfið atvinnuskilyrði. Þeim mun undarlegra er að heyra hann tala um að það sé aukaatriði hvort konur eða karlar eru í nefndum sem fjalla um þessi mál. Ég ætla bara að koma því að hvort maðurinn hefur gert sér grein fyrir því að það eru fjölmörg börn á framfæri einstæðra foreldra. Neyðin sem hann var að lýsa gæti ekki síður átt við atvinnulausa fiskvinnslukonu.