Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég vil í fyrsta lagi upplýsa það að það hafa þegar verið greiddar á þessu ári verulegar upphæðir umfram það sem fjárlög heimila, sem fjárlagatalan leyfir þannig að það er þegar hafið uppgjör í þeim skilningi að það er búið að greiða út úr ríkissjóði talsverðar upphæðir umfram það sem fjárlagatalan stendur fyrir. Þetta hefur farið í að ljúka uppgjöri framkvæmda vegna ársins 1987, greiða framræslukostnað á árinu 1988 og greiða loðdýrabændum, sérstaklega, þeirra styrki vegna hins erfiða og sérstaklega afbrigðilega ástands sem þar er við að glíma. Þetta vil ég að komi hér fram þannig að hv. þm. sé ljóst að það er þegar búið að gera talsvert í þessu efni umfram það sem fjárveitingin á fjárlögum leyfir.
    Í öðru lagi er rétt að vekja á því athygli hér, úr því að það kom ekki fram í máli neins þeirra sem hér töluðu, að hér er verið að reyna að bæta fyrir vanrækslusyndir tveggja fyrri ríkisstjórna, skerðingu á þessum framlögum sem tvær fyrri ríkisstjórnir stóðu að. Það er rétt fyrir hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. að hafa þessa staðreynd í huga þegar þeir brýna núv. landbrh. til dáða.
    Það verður gert upp við bændur, það verður staðið við það fyrirheit. Þessi ríkisstjórn mun skila aftur til bænda þeim skerðingum sem tvær fyrri ríkisstjórnir létu yfir þá ganga, en það er ekki hægt að gera hvort tveggja í einu, gera allar þær syndir upp og koma á staðgreiðslu þessara framlaga. Það er ekki hægt að gera það á einu og sama árinu. Þess vegna er það ljóst og það var allan tímann skýrt í mínu máli að það yrði ekki hægt að ljúka þessu uppgjöri innan þessa árs. Og það er rangt hjá hv. 4. þm. Austurl. að ég hafi gefið það í skyn að allar þessar syndir tveggja fyrri ríkisstjórna og þar með talið ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar yrðu gerðar upp á þessu ári. Það sagði ég aldrei. Ég lofaði því hins vegar að það yrði hafið uppgjör þessara skulda á þessu ári og síðan reynt að ljúka því eins fljótt og hægt væri, samtímis því að tekin yrði upp staðgreiðsla eða greiðsla innan framkvæmdaársins vegna framkvæmda á árinu 1990, fyrsta ári sem framkvæmt yrði í raun skv. núgildandi lögum.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi alveg skýrt fram og vonandi er þá enginn misskilningur ríkjandi um það hvernig þetta mál stendur. Ég mun gera það sem ég get til þess að þessar greiðslur berist bændum eins hratt og kostur er og viðráðanlegt verður, en það gefur auga leið að umtalsverða skerðingu í tvennum fjárlögum er erfitt að borga upp á einu og sama árinu, samtímis því að taka staðgreiðslu þessara framkvæmda á hinu næsta.
    Ég vil líka leggja á það áherslu að það gæti skipt bændur máli í hvaða formi uppgjörið við þá verður og hugsanlega og vonandi verður hægt að hafa það þannig að það verði nýtanlegt fé sem bændur fá í hendur þó að greiðslur fari ekki fram fyrr en til að

mynda á tveim til þrem næstu árum.