Varaflugvöllur fyrir alþjóðaflug
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 36 leyfi ég mér að bera fram fsp. til samgrh. um varaflugvöll fyrir alþjóðaflug. Spurningin hljóðar sem hér segir:
    ,,Hvað líður undirbúningi að byggingu varaflugvallar sem fullnægir kröfum alþjóðaflugs og flugöryggis Íslendinga hvað millilandaflug áhrærir?``
    Ástæður þessarar fsp. eru m.a. eftirfarandi:
    1. Breytingar á millilandaflugvélum Íslendinga úr þriggja og fjögurra hreyfla þotum í tveggja hreyfla vélar gera það nauðsynlegt að hið minnsta séu tveir flugvellir á Íslandi sem fullnægja öllum kröfum til öryggis vegna þessara breytinga.
    2. Nauðsynlegt er að slíkur varaflugvöllur sé staðsettur annars staðar en á Suðvesturlandi með tilliti til veðurfars þannig að sé t.d. Keflavíkurflugvöllur lokaður sé unnt að nota umræddan varaflugvöll sem væri þá staðsettur annars staðar á landinu.
    Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að á síðasta þingi lagði ég ásamt hv. þm. Agli Jónssyni fram till. til þál. um byggingu varaflugvallar á Egilsstöðum. Um þessa þáltill. urðu miklar umræður. Voru ýmsir stjórnarstuðningsmenn mjög tortryggnir á það mál og lögðust jafnvel gegn því að þáltill. fengi þinglega afgreiðslu. En hvað sem því líður ýtti tillagan og umræður rækilega undir hæstv. samgrh. sem sagði m.a. í þeim umræðum að hann mundi gera ráðstafanir til að reyna að mæta þeirri kröfu sem fólst í umræddri þáltill. með byggingu nauðsynlegs varaflugvallar.
    Enn hefur ekki neitt komið fram um það hjá hæstv. ráðherra að hann hafi tryggt framgang þessa mikilvæga öryggismáls og þess vegna er umrædd fsp. lögð fram.