Varaflugvöllur fyrir alþjóðaflug
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir greið og góð svör. Það er vissulega gott þegar ráðherra starfar með þeim hætti sem hæstv. samgrh. hefur gert í sinni stjórnartíð og þótt ég sé ekki stjórnarstuðningsmaður virði ég góð verk. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi brugðist vel við því embætti sem hann tók að sér sl. haust og gert þær ráðstafanir, eins og kom fram í hans ræðu, sem fullnægja því markmiði sem kom fram þáltill. okkar Egils Jónssonar sl. haust.
    Hann viðurkenndi það réttilega að sú umræða og okkar þátttaka í þessu máli hafi stuðlað að því að hann sem ráðherra hafi staðið betur að vígi til að tryggja framgang þessa merka máls, en það kom fram í ræðu hans sem mér finnst vera stórtíðindi að á þessu ári hefur það gerst að Egilsstaðaflugvöllur er að verða alþjóðlegur flugvöllur í þeim skilningi sem ráðherra gat um með lengingu brautarinnar í 2700 metra og þeim útbúnaði sem þar er verið að setja upp, þannig að flugvöllurinn mun fullnægja alþjóðlegum kröfum. Við þessa gjörð eina mun verða bylting, ekki aðeins í samgöngumálum þjóðarinnar út á við, heldur einnig í atvinnuháttum eins og kom fram í ræðu hv. þm. Egils Jónssonar. Ég fagna því og tel að þar hafi verið vel að staðið, bæði af hálfu hæstv. ráðherra sem og okkar sem börðumst fyrir framgangi þessa máls.