Erfiðleikar í loðdýrarækt
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Loðdýrabændur hafa átt við mikla erfiðleika að stríða, eins og öllum er kunnugt, vegna þess hversu markaður fyrir loðdýraskinn erlendis hefur hrunið. Hæstv. landbrh. hefur haldið ýmsa fundi um þau mál, m.a. nú á miðju sumri, en eins og óbeint kom fram í svari hans við fsp. fyrr á fundinum hefur hann ekki staðið við þau fyrirheit sem loðdýrabændum hafa verið gefin á þessu ári og var gott að fá staðfestingu hans á því.
    Nú er það svo að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið fyrir loðdýrabændur miðast við það haust sem nú er að líða, en engin stefnumörkun liggur fyrir hjá ríkisstjórninni um það hvernig haldið verði á málefnum loðdýrabænda á næsta ári. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, þessum gráa málefnasamningi sem hér hefur verið útbýtt og liggur frammi í þinginu, er ekki eitt einasta orð um loðdýraræktina. Hefði maður þó getað haldið að ástæða væri til að skýra línur í þeim efnum.
    Mín skoðun er sú að sú leið sem farin hefur verið sé röng og skynsamlegra sé að stofna sérstakan verðjöfnunarsjóð fyrir loðdýrarækt þannig að endurgreiðslur komi þegar markaðsverð er gott og að reikningar verði fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig, þannig að loðdýrabændur sem hafa lagt inn fái að njóta þess í hinum vondu árum. Það er miklu eðlilegri og heilbrigðari regla en þetta undarlega styrkjafargan sem nú er uppi, einkum með hliðsjón af því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við fyrirheitin. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við það fyrirheit að kaupa jarðir af loðdýrabændum sem illa eru farnir og ríkisstjórnin hefur heldur ekki staðið við það fyrirheit að keypt séu mannvirki af ríkisjörðum til þess að létta á skuldaklafa loðdýrabænda, enda er staðreyndin sú að á mörgum þessum heimilum er nú meiri almenn neyð en hjá öðrum stéttum þjóðfélagsins og ég held að ég taki ekki of djúpt í árinni þegar ég segi að sú nagandi óvissa sem þetta fólk hefur búið við hefur gengið mjög nærri því. Ég held að ég taki ekki of djúpt í árinni þó að ég fullyrði það.
    Það er fyllilega ástæða til þess, hæstv. forseti, að leggja fram þessa fsp.:
    ,,Hversu hyggst ríkisstjórnin bregðast við rekstrarvanda loðdýrabænda?``