Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjárlaga sem lagt hefur verið fram á þskj. 1. Í kjölfar fjárlagafrv. verða lögð fram önnur frv. sem ætlað er að hafa áhrif á bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs og veita heimildir fyrir lántöku.
    Fjárlagafrv. fyrir árið 1990 tekur mið af því að nýr grundvöllur sé að skapast í íslensku efnahagslífi. Sá grundvöllur byggir á því að millifærslum, skuldbreytingum og raungengisaðlögunum sé senn að ljúka en að við taki tímabil þar sem atvinnuvegirnir og aðilar vinnumarkaðarins bera ábyrgð innan þess almenna efnahagslega ramma sem markaður er, m.a. með fjárlögum á hverjum tíma. Hinn nýi grundvöllur byggir á stöðugleika í gengismálum, jafnvægi í peningamálum, minnkandi verðbólgu og minnkandi viðskiptahalla.
    Höfuðeinkenni þess fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir felast í fyrsta lagi í aðhaldi, í öðru lagi í jöfnunaraðgerðum og í þriðja lagi í kerfisbreytingum.
    Með þessu fjárlagafrv. er leitast við að snúa af braut síaukinna ríkisútgjalda, stöðugs hallarekstrar og erlendrar skuldasöfnunar sem þjóðarbúið hefur verið á síðustu fimm ár. Í því sambandi eru eftirfarandi aðhaldsaðgerðir mikilvægastar:
    1. Ríkisútgjöld lækka að raungildi frá árinu 1989 um 4% eða um nálægt fjóra milljarða kr. Gangi það eftir verður það í fyrsta skipti á þessum áratug sem ríkisútgjöld lækka að raungildi.
    2. Tekjur ríkisins lækka að raungildi frá árinu 1989 um 1,3 milljarða kr. Skattar haldast því óbreyttir sem hlutfall af landsframleiðslu en verða minni að raungildi í krónum talið.
    3. Gert er ráð fyrir tæplega 3 milljarða kr. halla og að hann megi fjármagna með lánum innan lands þannig að erlend skuldabyrði Íslendinga eykst ekki og án þess að hann valdi hækkun vaxta.
    4. Lækkun ríkisútgjalda á sér fyrst og fremst stað í minni fjármunum til fjárfestinga og framlaga. Lögð er áhersla á að aðhald í rekstri verði framkvæmt án þess að skert sé mikilvæg og nauðsynleg þjónustustarfsemi.
    Í frv. er lögð áhersla á að nýta þau færi sem gefast til að auka jafnrétti og eyða óeðlilegum aðstöðumun í samfélaginu. Jöfnunaraðgerðum er beitt á mörgum sviðum og sér þeirra stað bæði í tekjuhlið frv. og gjaldahlið. Ætla ég að nefna hér nokkur meginatriði þeirra jöfnunaraðgerða sem setja svip sinn á þetta fjárlagafrv.
    Í fyrsta lagi. Við upptöku virðisaukaskatts um áramót verða skattar lækkaðir verulega á mikilvægustu innlendum matvælum og er sú lækkun sérstaklega til hagsbóta fyrir lágtekjufólk og barnmörg heimili.
    Í öðru lagi. Í húsnæðismálum er lögð áhersla á að félagslegar íbúðarbyggingar hafi forgang. Þessari stefnu er ætlað að leysa úr brýnum vanda ýmissa þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Um leið er hér um virka byggðastefnu að ræða.
    Í þriðja lagi. Framlag til Byggðastofnunar er aukið

um 60% að krónutölu í því skyni að styrkja undirstöður stofnunarinnar og gera henni betur kleift að sinna því hlutverki sínu að jafna aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og hleypa nýju lífi í atvinnu- og efnahagslíf í héruðunum.
    Í fjórða lagi er það einkenni að þrátt fyrir að framlög ríkisins til flestra fjárfestingarsjóða hafi verið skorin verulega niður, halda Framkvæmdasjóður fatlaðra og Framkvæmdasjóður aldraðra sínum hlut í krónutölu.
    Í fimmta lagi er með samræmdum tekjuskatti á allar fjármagnstekjur stefnt að því að eyða því óréttlæti sem viðgengist hefur í skattamálum milli atvinnutekna og tekna af fjármagnseign. Um leið er afnumið misræmi milli sköttunar á ýmis form fjármagnseignar, t.d. milli arðs af hlutabréfum í atvinnufyrirtækjum og vaxtatekna af skuldabréfum.
    Í sjötta lagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að hefja á næstu mánuðum endurskoðun laganna um tekjuskatt til þess að efla jöfnunarhlutverk tekjuskattsins. Markmið endurskoðunarinnar verður að létta skattbyrði á lágtekjufólki og fólki með miðlungstekjur og verða m.a. í því skyni skoðaðir valkostir sem fela í sér tekjutengingu barnabóta, tekjutengdar húsaleigubætur og sérstakt skattþrep á mjög háar tekjur.
    Markmið þessarar endurskoðunar er ekki að auka tekjur ríkissjóðs heldur fyrst og fremst að gera tekjuskattinn innbyrðis að meira jöfnunartæki.
    Þá ber og að nefna þá mikilvægu jöfnunaraðgerð að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tekur á næsta ári við nýju hlutverki og starfar þá fyrst og fremst í þágu smárra og meðalstórra sveitarfélaga í öllum landshlutum.
    Þriðja höfuðatriðið, eins og ég nefndi hér í upphafi, sem setur svip sinn á þetta fjárlagafrv. eru víðtækar kerfisbreytingar. Þessar umbætur snúa að skattheimtunni, útgjöldunum og fjárlagavinnunni sjálfri.
    Virðisaukaskattur leysir gamla söluskattinn af hólmi um áramót. Skatturinn bætir samkeppnisaðstöðu íslenskra útflutningsgreina og jafnar aðstöðu fyrirtækjanna innan lands, hann treystir innheimtu og bætir skil. Hin nýja
skipan hefur það m.a. í för með sér að niður fellur endurgreiðslukerfi í kringum uppsafnaðan söluskatt.
    Þá ber þess að geta að nýjar reglur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga setja nú mark sitt á fjárlög í fyrsta skipti. Ýmis verkefni færast að öllu leyti til ríkisins, t.d. rekstur heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga, en önnur verða algjörlega á vegum sveitarfélaga, svo sem bygging grunnskóla, leikskóla og íþróttamannvirkja.
    Breyttum verkaskiptum er ætlað að einfalda og auðvelda fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og þess er vænst að með þeim fari saman frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð í þjónustu og rekstri. Þá tekur fjármálakafli framhaldsskólalaganna gildi um áramót og tekur ríkið þá að fullu við rekstri þeirra.
    Nauðsynlegt er að treysta vinnubrögð við

undirbúning og umfjöllun fjárlaga, m.a. til að draga úr hvata til sjálfvirkni og þenslu í ríkisútgjöldum. Meðal þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið í þessum efnum í tengslum við fjárlagafrv. er að á þessu þingi verður lögð fram þriggja ára fjárlagaáætlun sem sérstakt þingskjal og reiknað með því að þingið afgreiði hana með formlegri samþykkt sinni.
    Á næstu vikum verða lögð fram fjáraukalög og stefnt að því að draga verulega úr þörf á aukafjárveitingum á næsta ári, m.a. með rýmri fjárhag ráðuneytanna til óvæntra útgjalda og með því að stefna að því að leggja reglulega fyrir þingið fjáraukalög yfirstandandi árs.
    Í undirbúningi er að útgjaldarammar verði meginaðferð við fjárlagagerðina og var vísi að slíkri aðferð beitt við fjárlagagerðina nú.
    Þá er einnig stefnt að því að fimmtungur ríkiskerfisins verði veginn og metinn árlega með svokölluðum núllgrunnsáætlunum. Allt ríkiskerfið verði þannig athugað frá grunni tvisvar á hverjum áratug. Í þessu skyni verður á næstu vikum ákveðið hvaða ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki það verða sem á næsta ári verða sérstaklega tekin til meðferðar í samræmi við hina svokölluðu núllgrunnsáætlun.
    Virðulegi forseti. Þá mun ég víkja nokkrum orðum að efnahagslegum aðstæðum og árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á yfirstandandi ári. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum árangri því hann er mikilvæg forsenda þess fjárlagafrv. sem hér er lagt fram.
    Fjárlagafrv. nú, fyrir árið 1990, er lagt fram við töluvert aðrar aðstæður en ríktu hér fyrir réttu ári. Í fyrra var að ljúka miklu ofþensluskeiði. Við var að glíma verulegan tekju- og skuldaskilavanda í útflutningsatvinnuvegunum. Hann átti m.a. rætur að rekja til mikillar hækkunar á raungengi krónunnar. Einnig ríkti mikil óvissa um það hvað mundi taka við þegar launa- og verðstöðvun lyki snemma á árinu 1990.
    Fjárlagafrv. fyrir árið 1989 tók mið af þessum aðstæðum enda var í því lögð höfuðáhersla á að ná niður þenslunni og skapa þannig forsendur fyrir því að nauðsynleg lækkun raungengis gæti átt sér stað án verðbólgu. Um leið voru hafnar greiðslur verðuppbóta á freðfisk í gegnum Verðjöfnunarsjóð og Atvinnutryggingarsjóður var stofnaður til skuldbreytingar í útflutningsgreinum. Þessar aðgerðir voru skynsamlegar við þessar aðstæður þar sem ekki lá fyrir hversu varanleg viðskiptakjararýrnunin yrði og ekki heldur hve varanleg aflaminnkunin mundi verða. Þessar aðgerðir sköpuðu forsendur fyrir að aðlögunin að breyttum aðstæðum varð ekki eins hastarleg og óhjákvæmilegt hefði verið ella.
    Það sem einkennir aðstæður nú er að efnahagsaðgerðunum sem hófust sl. haust er að ljúka. Gert er ráð fyrir að skuldbreytingum á vegum Atvinnutryggingarsjóðs muni ljúka á næstunni þannig að hann hætti að taka á móti lánsumsóknum um næstu áramót. Greiðslum verðbóta á freðfisk á vegum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins mun einnig ljúka um

áramótin. Töluverður árangur hefur þegar náðst af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og mun ég nú nefna það helsta í því sambandi.
    Í fyrsta lagi. Jákvæður vöruskiptajöfnuður. Tekist hefur að aðlaga þjóðarútgjöld að minnkandi þjóðartekjum. Viðskiptahallinn minnkar í ár þrátt fyrir samdrátt í þjóðarbúskapnum en það hefur ekki gerst í marga áratugi hér á Íslandi að viðskiptahalli minnki á samdráttartímum í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Því er spáð að viðskiptahallinn verði um 8,5 milljarðar kr. en þar af eru flugvélakaup Flugleiða nær 3 milljarðar kr. Þessi halli samsvarar tæplega 3% af landsframleiðslu samanborið við 3,7% í fyrra. Vöruskiptajöfnuðurinn verður hins vegar jákvæður um 4,8 milljarða kr. í ár og það er í fyrsta skipti síðan 1986 að hann er jákvæður, en munurinn er sá að á árinu 1986 jókst fiskafli og viðskiptakjör bötnuðu verulega en nú minnkar bæði aflinn og viðskiptakjörin hafa versnað. Það er því mjög sérstakt og ánægjulegur árangur af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar að hafa náð á svo skömmum tíma verulega jákvæðum vöruskiptajöfnuði þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður.
    Í öðru lagi birtist árangur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í þróun
raungengisins og bættri stöðu atvinnuveganna. Raungengi krónunnar hefur lækkað verulega án þess --- og ég legg ríka áherslu á það --- án þess að til hafi komið kollsteypa í gengismálum eða að verðbólgan hafi farið úr böndunum. Um þessar mundir er raungengið á mælikvarða launakostnaðar nær 20% lægra en það var á fyrsta ársfjórðungi ársins 1988 og raungengið í ár verður á sama mælikvarða um 12,5% lægra en í fyrra. Raungengið er um þessar mundir rúmlega 2% lægra en það var að meðaltali á árunum 1979--1989, enda sýna nýjustu áætlanir Þjóðhagsstofnunar að fiskvinnslan er nú í heild rekin fyrir ofan núllið og um 2% hagnaður er af frystingunni. Þessar tölur sýna glöggt þau umskipti sem hafa orðið hér í höfuðatvinnugrein okkar Íslendinga á einu ári vegna þess að þegar við fjölluðum um fjárlagafrv. fyrir rúmu ári síðan þá var yfirvofandi allsherjarstöðvun í þessum mikla útflutningsatvinnuvegi okkar Íslendinga.
    Þriðji þátturinn í árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum felst í því að hemja verðbólguna á tímum samdráttar í efnahagslífinu. Það hefur tekist að koma í veg fyrir það að verðbólgan færi úr böndunum eins og jafnan hefur hins vegar gerst hér á Íslandi á samdráttartímum. Það er því í fyrsta sinn einnig nú að það tekst að hemja verðbólguna á samdráttartímum. Ætíð áður hefur hún rokið upp úr öllu valdi þegar ytri skilyrði og minnkandi afli hafa valdið samdrætti í hagkerfi okkar. Þetta er einnig verulegur árangur þegar horft er til þess hve mikil breyting hefur orðið á þessum tíma á raungengi krónunnar. Í fyrra hækkaði framfærsluvísitalan um 25,5% á milli ára en spáð er um 21% hækkun í ár.
    Fjórði þátturinn í árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum felst í því að tekist hefur að fjármagna vanda ríkissjóðs á innlendum lánamarkaði. Nú er útlit

fyrir að það takist að minnka halla ríkissjóðs um helming frá því í fyrra og það takist að fjámagna stóran hluta hans á innlendum lánsfjármarkaði. Halli ríkissjóðs verður því að líkindum 1,6% af landsframleiðslu á árinu 1989 samanborið við 2,8% í fyrra, en hallinn var hins vegar 1,2% á góðærisárinu 1986 og 1,3% á góðærisárinu 1987. Og fátt sýnir kannski betur hve vel hefur tekist í aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar að halli ríkissjóðs á þessu mikla samdráttarári í þjóðarbúskap okkar Íslendinga, en í u.þ.b. 20 ár hafa ekki komið tvö samdráttarár í röð, skuli vera af svipaðri stærðargráðu og hann var á góðærisárunum miklu 1986 og 1987.
    Í lok september höfðu spariskírteini ríkissjóðs verið seld fyrir 3,2 milljarða kr. En auk þess hafði almenningur skráð sig í áskrift fyrir u.þ.b. 200 millj. kr. í viðbót fram til áramóta. Það er satt að segja mjög ánægjuleg breyting að nú skuli mörg þúsund Íslendingar af fúsum og frjálsum vilja hafa skráð sig inn í sparnaðarkerfi spariskírteina ríkissjóðs og gerst þannig virkir þátttakendur í því verkefni að fjármagna þessa þætti hér innan lands í stað þess að taka erlend lán. Sá sparnaður er ekki þvingaður fram með neinum hætti, hann er ákvörðun fólksins sjálfs í landinu og sýnir um leið traust þess á þeim aðgerðum sem hér er verið að grípa til, ella mundi ekki jafnmikill fjöldi af fúsum og frjálsum vilja ganga inn í áskriftarform spariskírteinanna miðað við þau vaxtakjör sem þar eru boðin. Þeir sem trúa á markaðinn sem mælikvarða árangurs ættu að horfa á þessar markaðstölur og draga ályktanir af þeim.
    Í lok september höfðu verið seldir ríkisvíxlar fyrir um 4,1 milljarð kr. umfram innlausn frá áramótum. Innlausn spariskírteina frá áramótum til loka september nam um 1,3 milljörðum kr. Samtals höfðu því verið seld spariskírteini og ríkisvíxlar umfram innlausn fyrir um 6 milljarða kr. En nú stefnir að því að sala þeirra umfram innlausn á árinu öllu verði rúmir 6 milljarðar eða nákvæmlega 6,3 milljarðar kr. Það er mikil breyting frá þeirri erlendu lántökustefnu sem hér ríkti á undanförnum árum.
    Í fimmta lagi lýsir árangur efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar sér í því jafnvægi sem nú hefur í fyrsta sinn í langan tíma skapast á peningamarkaðnum og í þeirri vaxtalækkun sem þar hefur átt sér stað stig af stigi. Jafnvægi á peningamarkaðnum hér á Íslandi hefur ekki verið betra í lengri tíma. Lausafjárstaða bankanna var jákvæð um nær 10 milljarða kr. í lok september og tekist hefur að fjármagna árstíðabundinn halla ríkissjóðs utan við Seðlabankann, m.a. með þeirri miklu sölu ríkisvíxla sem ég gat um hér áðan.
    Nokkur árangur hefur náðst við lækkun raunvaxta. Vextir spariskírteina ríkissjóðs voru í sumar lækkaðir í 5,5% og 6% en voru um 7--8% þegar ríkisstjórnin tók við. Algengustu útlánavextir bankanna á verðtryggðum lánum hafa lækkað úr rúmum 9% í haust í um 7,5% nú. Vaxtalækkunin á gráa markaðnum hefur verið mun meiri en þetta. Frá áramótum til ágústmánaðar lækkaði raunávöxtun hlutdeildarbréfa verðbréfasjóðanna um 3,5% á átta

mánuðum. Það eru ekki dæmi um svo mikla raunvaxtalækkun á frjálsum verðbréfamarkaði á jafnskömmum tíma áður.
    Nokkuð vantar hins vegar á að vextir bankanna hafi aðlagast annars vegar lægri verðbólgu og hins vegar vaxtalækkuninni á spariskírteinum og verður að tryggja að sú aðlögun eigi sér stað á næstunni og er nauðsynlegt að
forsvarsmenn bankakerfisins átti sig á því að nú þegar eru fullkomlega efnahagslegar ástæður til þess að viðskiptabankarnir lækki sína vexti. Ef tekið er síðan tillit til breytingarinnar á lánskjaravísitölunni mundi raunvaxtalækkunin teljast enn meiri en hér kemur fram.
    Virðulegi forseti. Þessi veigamiklu atriði, sem ég hef hér nefnt, jákvæður vöruskiptajöfnuður, gífurleg breyting á raungengi, bætt staða atvinnuveganna, verðbólgan sé hamin á samdráttartímum, ríkissjóður fjármagnaður af innlendum lánsfjármarkaði, jafnvægi á peningamarkaði og vaxtalækkun, allt þetta eru höfuðatriði í vestrænni hagstjórn sem verðskuldar að vera kölluð því nafni og sýnir að ríkisstjórnin hefur beitt aðferðum sem í fyrsta skipti í langan tíma eru nú að skapa jafnvægisástand í íslenska hagkerfinu. Mælikvarðinn á árangur felst í niðurstöðunum í veruleikanum. Og þær tölur sem ég hef hér rakið varðandi þessa höfuðþætti efnahagslífsins á Íslandi staðfesta að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa borið árangur, að við búum hér nú við jákvæðari grundvallarþætti í okkar vestræna hagkerfi en menn hafa gert í langan tíma. Það hefur þess vegna verið hlutverk þessarar ríkisstjórnar að færa íslenska hagkerfið frá hinni afbökuðu mynd sem Sjálfstfl. skildi eftir sig yfir í jákvæða mynd vestrænna hagkerfa þar sem jafnvægi á peningamarkaði, eðlilegt raungengi, lánsfjáröflun innan lands, jákvæður vöruskiptajöfnuður og stöðugleiki í verðlagsmálum eru höfuðatriðin. Ég mun svo síðar í ræðu minni víkja nokkuð að því að Sjálfstfl. á hinn bóginn hefur viljað fylgja hér aðferðum sem að mínum dómi og annarra eru í raun og veru í andstöðu við þá höfuðþætti í vestrænni hagstjórn sem fylgt hefur verið á undanförnum áratugum.
    Fjárlagafrv. fyrir árið 1990 byggist af þessum sökum á því að nú hefur tekist að skapa nýjan grundvöll í efnahagsmálum okkar Íslendinga. Þessi nýi grundvöllur felst í því að millifærslunum, skuldbreytingunum og raungengisaðlöguninni er senn lokið. Nú tekur við það tímabil þar sem atvinnureksturinn sjálfur og aðilar vinnumarkaðarins bera ábyrgð innan þess almenna ramma sem ekki síst er markaður með fjárlögunum á hverjum tíma. Þetta eru hin miklu þáttaskil sem meðferð fjárlagafrv. á næstu vikum mun móta og sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á sl. 12 mánuðum hafa knúið fram. Ég skil hins vegar að forustumenn Sjálfstfl. og Morgunblaðið, sbr. leiðara þess fyrir nokkrum dögum síðan, veigri sér við að ræða þessar staðreyndir því að þær endurspegla þá höfuðdrætti í árangursríkri vestrænni hagstjórn sem fræðimenn og

hagfræðingar líta fyrst og fremst á þegar þeir eru að skoða það hvort efnahagsstefnan hefur skilað árangri.
    Virðulegi forseti. Markmið fjárlaga mótast af þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðarbúskapnum. Mun ég nú fara nokkrum orðum um þessar aðstæður. Sá samdráttur sem ég hef nokkuð vikið að á fyrst og fremst rætur að rekja til tekjubrests, þ.e. minnkandi afla og verri viðskiptakjara svo og verulegrar skipulagskreppu í atvinnulífinu sem er fyrst og fremst afleiðing rangrar efnahagsstefnu á árunum 1983--1988. Offjárfestingar og rangrar stefnu í vaxta- og peningamálum. Sjálfstfl. ætti þess vegna ekki að hafa hátt um umhyggju sína fyrir atvinnulífinu í landinu vegna þess að það er fyrst og fremst atvinnustefna hans á árunum 1983--1988 sem er meginþátturinn og orsökin í þeirri skipulagskreppu sem íslenskir atvinnuvegir hafa lent í.
    Hins vegar ríkti mikil umframeftirspurn í hagkerfinu þegar tekjubresturinn átti sér stað. Umframeftirspurn sem m.a. var búin til með rangri stefnu í ríkisfjármálum á góðæristímanum þegar ríkissjóður var rekinn með verulegum halla á miklum góðærisárum í stað þess að reka hann þá með tekjuafgangi. Við þessar aðstæður er enginn annar kostur en að aðlaga þjóðarútgjöldin að minni þjóðartekjum. Skynsamlegt getur þó verið að aðlaga ekki þjóðarútgjöldin að fullu að minni tekjum ef talið er með nokkurri vissu að tekjubresturinn sé ekki varanlegur. Mikið hefur dregið úr þeirri þenslu sem ríkti hér á árinu 1987 og fyrri hluta ársins 1988. En það var forsenda árangurs í efnahagsmálum að dregið yrði úr þessari þenslu. Þess vegna er ekki eins brýnt nú og áður að ríkissjóður sé, við þessar aðstæður, rekinn hallalaus. Eftir sem áður verður hallinn minni en í ár þannig að ríkisbúskapurinn stuðlar ekki að þenslu á næsta ári.
    Ljóst er orðið eftir hina nýlegu skýrslu Hafrannsóknastofnunar að ástand fiskistofnanna krefst samdráttar í afla. Ég hef stundum sagt að í raun og veru ætti skýrsla Hafrannsóknastofnunar að vera sérstakt fylgiskjal með þessu fjárlagafrv. Árið 1990 verður því þriðja samdráttarárið í röð en samfelldur samdráttur hefur ekki staðið svo lengi hjá okkur Íslendingum síðan á árunum í kringum 1950. Núverandi samdráttarskeið er það þriðja mesta frá stríðslokum á mælikvarða þjóðartekna. Ég vek sérstaka athygli hv. alþm. á þessari staðreynd vegna þess að mér hefur fundist nokkuð skorta á að menn gerðu sér raunverulega grein fyrir þessu mikla sögulega samhengi. Að samdráttarskeiðið nú, sem fyrst og fremst á sér rætur í minnkandi afla og verðlagi á erlendum mörkuðum, er hið þriðja mesta frá því síðari heimsstyrjöldinni lauk hér á Íslandi.
    Þjóðartekjurnar dragast saman um 7,2% á árunum 1988--1990 samanborið við 14,3% samdrátt á árunum 1945--1952 og 11,3% samdrátt á árunum 1967--1968. Það
er þess vegna eðlilegt að þegar þjóðin fer í gegnum sitt þriðja mesta samdráttarskeið frá stríðslokum þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða sem lítt eru til

vinsælda fallnar og munu hafa áhrif á lífskjör og möguleika fjölmargra til þess að bæta stöðu sína.
    Umskiptin í þjóðarbúskapnum sjást glöggt ef tekjuauki þjóðarbúsins á árunum 1986--1987, á góðærisárunum, er borinn saman við tekjurýrnunina á samdráttarárunum 1988--1990. Aukning þjóðarteknanna á fyrra tímabilinu þegar Sjálfstfl. rak ríkissjóð með halla samsvarar hvorki meira né minna en 52 milljörðum kr. á verðlagi þessa árs. Viðbótin sem kom inn í íslenska hagkerfið á árunum 1986--1987 nam hvorki meira né minna en 52 milljörðum kr. á núgildandi verðlagi. En tekjurýrnunin á árunum 1988--1990 samsvarar nærri því 22 milljörðum kr. á sama verðlagi. Þetta eru mjög stórar tölur sem lýsa vel í hnotskurn þeim umskiptum sem hér hafa átt sér stað.
    Við þessa erfiðleika bættist svo það viðvarandi ójafnvægi sem tók að myndast frá og með árinu 1983 í ríkisfjármálunum þegar Sjálfstfl. tók við forustunni í fjmrn. Sú þróun á annars vegar rætur að rekja til útgjaldaþenslu ríkisins og er merkilegt að heyra þann flokk tala síðan um það sýknt og heilagt að hann sé einhver sérstakur talsmaður minnkandi ríkisútgjalda og hins vegar til skattalækkana sem framkvæmdar voru á sama tíma og ríkisútgjöldin voru látin aukast stig af stigi, fyrst á árunum 1983 og 1984 og síðan skattalækkana í upphafi góðærisins 1986 þegar ríkisútgjöldin voru látin æða áfram upp úr öllu valdi. Sem dæmi um útgjaldaþensluna má nefna að útgjöld ríkissjóðs jukust um rúmlega 5,5% á ári á árunum 1984--1988. Á sama tíma jókst landsframleiðslan um 4,5% á ári, þ.e. Sjálfstfl. jók ríkisútgjöldin um 1% að raungildi á ári umfram aukninguna í landsframleiðslunni. Svo eru þessir menn að þykjast vera einhverjir sérstakir fulltrúar fyrir ábyrga fjármálastjórn.
    Tekjur ríkissjóðs minnkuðu að raungildi um nær 12% 1983 og stóðu síðan nánast í stað 1984. Skatttekjur ríkisins jukust að vísu umtalsvert á góðæristímanum, að sjálfsögðu, bæði á árunum 1986 og 1987 eða 9,6% og 12% hvort árið. Afleiðing alls þessa hefur verið samfelldur hallarekstur á ríkissjóði frá árinu 1985 og góðærisárin tvö 1986 og 1987 með Sjálfstfl. í forustu fyrir ríkisfjármálunum voru ekki nýtt til þess að reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi eins og þó hefði verið nauðsynlegt samkvæmt grundvallarkenningu vestrænnar hagstjórnar til að vinna gegn þenslunni og auka svigrúmið til að mæta framtíðaráföllum. En Sjálfstfl. þverbraut grundvallarlögmál vestrænnar hagstjórnar með því að magna þá upp hallann í góðærisárunum til þess að þenslan yrði enn meiri, skekkjan í hagkerfinu enn erfiðari og rekstur atvinnulífsins færi úr böndunum. Það er þessi stjórn á ríkisfjármálunum, þessi efnahagsstefna Sjálfstfl. sem ég hef leyft mér að kalla ga-ga-hagstjórn því það er ekkert annað heiti sem hæfir þessari ríkisfjármálastjórn Sjálfstfl. og efnahagsstefnu þessara ára heldur en hið skiljanlega og algenga orð almennings í landinu ga-ga. ( Gripið fram í: Hvar er þetta í hinni prentuðu ræðu?) Bls. 11 efst.

Það er nauðsynlegt að í framsögu með fjárlagafrv. séu hlutirnir orðaðir á réttan hátt. ( Gripið fram í: Það er neðst á 7.) Menn eru e.t.v. með annað blaðsíðutal en ég er með hér í handritinu en hitt er víst að þetta er í hinum skrifaða texta ræðunnar.
    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðarbúskapnum er ekki talið að ríkissjóður geti aukið hlutdeild sína í landsframleiðslunni. Því er við það miðað í þessu fjárlagafrv. að skatttekjurnar verði óbreytt hlutfall af landsframleiðslunni. Áhrif samdráttarins á tekjur og gjöld ríkissjóðs valda þannig halla á ríkissjóði, en hann er þó að sinni talinn geta samrýmst þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin hefur mótað þá grundvallarafstöðu að eyða halla ríkissjóðs á næstu tveimur til þremur árum.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem ég hef nú gert að umtalsefni þykir eðlilegt að meginmarkmið fjárlaganna fyrir árið 1990 séu að ríkisbúskapurinn stuðli að því að viðskiptahalli aukist ekki og að verðbólgan minnki þrátt fyrir samdrátt útflutningstekna; að skattar verði óbreyttir sem hlutfall af landsframleiðslu, það felur í sér tæplega 1,5% lækkun tekna ríkissjóðs að raungildi eða um 1,3 milljarða kr.; að halli ríkissjóðs verði innan þeirra marka að hægt sé að fjármagna hann án þess að auka erlendar skuldir eða hækka vexti á innlendum lánsfjármarkaði.
    Virðulegur forseti. Ég mun nú víkja að tekjuhlið fjárlagafrv. fyrir árið 1990. Tekjuhliðin endurspeglar það markmið ríkisstjórnarinnar að skattbyrðin sé óbreytt frá árinu 1989 sem hlutfall af landsframleiðslu. Talsverðar breytingar verða hins vegar á tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári. Ýmsir skattar lækka eða falla alveg niður. En á móti koma auknar tekjur af öðrum stofnum. Þessar kerfisbreytingar auka því ekki, og ég legg ríka áherslu á það, skatttekjur ríkissjóðs þegar á heildina er litið. Þvert á móti munu skatttekjur ríkissjóðs minnka að raungildi á næsta ári.
    Veigamesta kerfisbreytingin felst í gildistöku virðisaukaskatts um næstu áramót. Gert er ráð fyrir einu skatthlutfalli á smásölustigi sem verði 26%.
Til þess að ná fram verðlækkun á brýnustu matvörum verður skatturinn að hluta endurgreiddur á framleiðslustigi þannig að á nokkrar helstu tegundir innlendra matvæla leggst ígildi 13% skatts. Þessi breyting mun hafa í för með sér a.m.k. 10% verðlækkun á þessum matvælum.
    Í öðru lagi munu eftirtaldir skattar lækka eða falla alveg niður. Vörugjald lækkar, erlent lántökugjald fellur niður, jöfnunargjald lækkar og bensíngjald lækkar að raungildi. Við þetta tapar ríkissjóður um 2 milljörðum kr.
    Í þriðja lagi vegur á móti á tekjuhlið að framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verður framvegis fært á gjaldahlið en ekki sem frádráttarliður á tekjuhlið. Ýmis leyfis- og afgreiðslugjöld verða hækkuð til þess að þau standi undir auknum kostnaði viðkomandi stofnana. Enn fremur hækkar bifreiðagjald sérstaklega þó skattar á umferðina lækki í heild. Ég vek einnig sérstaka athygli á því að á árinu 1990

munu skattar á umferðina í landinu lækka í heild sinni að raungildi. Þetta þrennt vegur að mestu upp fyrrnefnt tekjutap upp á 2 milljarða.
    Í fjórða lagi eru svo ýmis önnur atriði til skoðunar á tekjuhlið. Hér má nefna samræmda skattlagningu fjármagnstekna sem er í undirbúningi. Skattlagning fyrirtækja og sjóða verður einnig endurskoðuð með það fyrir augum að draga úr mismun milli aðila og auka samræmingu. Hér má m.a. nefna skattlagningu orkufyrirtækja, fækkun frádráttarliða, sérstaka sveiflujöfnunarsjóði og breytingar sem stuðla að aukinni eiginfjármyndun í atvinnulífinu. Þessar breytingar munu hafa það í för með sér að færa skattlagningu atvinnulífs á Íslandi nær þeim skattakerfum sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar. Jafnframt verður unnið að því að endurskoða launatengd
gjöld með það fyrir augum að samræma álagningu þeirra. Þá verður tekjuskattlagning einstaklinga, eins og ég gat um áður, tekin til sérstakrar skoðunar á næstu mánuðum í því skyni að ná fram meiri jöfnuði innan núverandi tekjuskattskerfis án þess að auka tekjur ríkissjóðs, létta skattbyrði af lágtekjufólki en þyngja hana á fólki með mjög háar tekjur. Unnið verður að þessari athugun á næstu mánuðum en vafasamt er að þær komi til framkvæmda fyrr en á árinu 1991.
    Hvað gjaldahlið frv. snertir, þá lækka ríkisútgjöldin skv. frv. að raungildi frá því í ár og vek ég athygli á því að það yrði í fyrsta sinn á þessum áratug sem slíkt mundi gerast. Lækkunin er áætluð nema um 4 milljörðum kr. eða um 4% að raungildi. Er þá miðað við hækkun almenns verðlags á milli áranna 1989 og 1990, sem er áætluð 15--16%. En jafnvel þótt miðað sé við spá um hækkun verðvísitölu samneyslu á næsta ári, en hún hækkar minna en almennt verðlag, mælist lækkun ríkisútgjaldanna um 2,5% að raungildi. Ríkisútgjöldin á árinu 1990 verða skv. frv. 27,8% af landsframleiðslu eða lækka úr 28,7% frá áætlun fyrir árið 1989.
    Miklar breytingar verða á samsetningu útgjalda í frv. og eru þær einmitt eitt helsta einkenni þess.
    1. Breytingar vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Þær fela í sér að útgjöld ríkisins hækka vegna heilbrigðismála, sjúkratrygginga, framhaldsskóla og vegna framlags í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Við breytingarnar lækka hins vegar útgjöld ríkisins vegna grunnskóla og dagvistarstofnana.
    2. Breytingar á útgjöldum vegna breytinga á tekjuöflunarkerfinu eru fyrst og fremst vegna tilkomu virðisaukaskattsins, en þá falla niður endurgreiðslur á uppsöfnuðum sköttum til atvinnuveganna, sérstaklega sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar.
    3. Lækkun ríkisútgjalda næst fram með tveimur meginaðferðum, annars vegar með aðhaldi í rekstri án þess að gera ráð fyrir skertri þjónustu, hins vegar með því að ýmis framlög og fjárveitingar til fjárfestinga eru lækkuð verulega.
    4. Rekstur ríkisstofnana er að mestu miðaður við óbreytta starfsemi. Áætlað er fyrir leiðréttingum á

liðum sem áður voru áætlaðir á óraunhæfan hátt. Einnig verður nokkur aukning í heilbrigðismálum, sérstaklega í stofnunum fatlaðra og síðan í nokkrum stofnunum skattkerfisins til að tryggja öruggara og traustara skattkerfi.
    5. Kostnaður við heilbrigðisþjónustuna er lækkaður um 500 millj. kr. með lækkun lyfjakostnaðar og kostnaðar við sérfræðilækningar auk þess sem stefnt er að frekari árangri í sparnaði með samruna og samrekstri sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu.
    6. Framkvæmt verður sérstakt sparnaðarátak í skólakerfinu og fleiri stofnunum mennta- og menningarmála sem á að leiða til um 200 millj. kr. lækkunar á kostnaði með hagræðingu.
    7. Niðurgreiðslur búvöru verða óbreyttar að krónutölu en útflutningsbætur og framlag í Framleiðnisjóð lækka í 9% af framleiðsluverðmæti búvöru.
    8. Framlög til fjárfestinga verða lækkuð að krónutölu um 700 millj. kr. sem jafngildir um það bil 20% raunlækkun.
    9. Framlög til Vegagerðar ríkisins eru miðuð við að tekjur af bensíngjaldi og þungaskatti verði um 500 millj. kr. lægri en þær yrðu ef fullnýtt yrði
heimild til hækkunar á þessum gjöldum. Er þá einnig miðað við að sú tvískipting bensíngjaldsins sem fólst í sérstakri lækkun sl. sumar á gjaldi á blýlausu bensíni haldist á næsta ári.
    10. Framlag til Byggðastofnunar er með þeim hætti að það vex en framlög til byggingarsjóðanna lækka þótt gert sé ráð fyrir að lánveitingar að meðtöldum hluta húsbréfakerfisins aukist nokkuð að raungildi vegna aukinna lána til félagslegra bygginga og kaupleiguíbúða.
    11. Framlag til Rannsóknasjóðs heldur raungildi sínu en hlutverk hans er að örva nýsköpun og frumkvæði í atvinnulífinu.
    12. Stefnt er að því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins beri sjálfur stærri hluta verðtryggingar en verið hefur, en slíkt er unnt án þess að skert verði réttindi sjóðsfélaga sem eru óháð stöðu sjóðsins. Gert er ráð fyrir um 500 millj. kr. lækkun ríkisframlags af þessum sökum. Greiðslur ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna verðtryggingar hafa að undanförnu verið mun meiri en þarf til að standa við skuldbindingar sjóðsins á hverju ári og hefur mismuninum verið varið til að efla eiginfjárstöðu sjóðsins, fyrst og fremst með kaupum á ríkisskuldabréfum.
    Virðulegur forseti. Ef litið er á afkomu ríkissjóðs fyrir árið 1990, þá eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 90 milljarðar 352 millj. kr. og gjöldin 93 milljarðar 207 millj. kr. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir tekjuhalla sem nemur 2 milljörðum 855 millj. kr. á næsta ári. Þessi halli svarar til 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og 0,8% af landsframleiðslu. Þennan halla má að mestu rekja til áhrifa samdráttarins í þjóðarbúskapnum á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Á þessu ári, árinu 1989, er áætlað að halli ríkissjóðs verði um 4,7 milljarðar kr. eða 1,6% af landsframleiðslu. Þannig

er stefnt að því að hallinn verði helmingi minni á næsta ári en á þessu þrátt fyrir áframhaldandi samdrátt í þjóðarbúskapnum, en hallinn í ár verði hins vegar tæplega helmingi minni en hann var í fyrra þegar hann nam 2,8% af landsframleiðslu.
    Eins og ég hef vikið að áður er rétt í þessu sambandi að hafa í huga tölurnar frá góðærisárunum 1986 og 1987 er Sjálfstfl. fór með forustu í ríkisfjármálunum þegar átt hefði að reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi skv. viðurkenndum vestrænum hagstjórnaraðferðum. Þá hins vegar braut Sjálfstfl. þetta grundvallarlögmál viðurkenndrar vestrænnar efnahagsstjórnar og rak ríkissjóð með halla bæði góðærisárin, 1,2% af landsframleiðslu fyrra árið og 1,3% seinna árið. Það er þessi halli í góðærinu sem er höfuðeinkennið á þeirri ga-ga-efnahagsstjórn Sjálfstfl. sem ég hef svo kallað og er líka meginástæða þeirra erfiðleika sem nú setja svip sinn á efnahagsmál Íslendinga. Kreppan í efnahagsmálunum hefði orðið mun minni og auðveld viðureignar ef Sjálfstfl. hefði fylgt viðurkenndum vestrænum hagstjórnaraðferðum á árunum 1986 og 1987. En vegna þess að Sjálfstfl. braut þessar grundvallarreglur vestrænna hagstjórnaraðferða urðu erfiðleikar íslensku þjóðarinnar, kjararýrnun almennings í landinu og erfiðleikar atvinnuveganna mun meiri en þeir hefðu þurft að verða ella.
    Virðulegur forseti. Áður hefur komið fram að halli á ríkissjóði er áætlaður 2 milljarðar 855 millj. kr. á árinu 1990. Til viðbótar nema lánveitingar ríkissjóðs á næsta ári 1 milljarði 510 millj. kr., en þar af renna 1 milljarður 480 millj. til Lánasjóðs ísl. námsmanna og 30 millj. kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hluta- og stofnfjárframlög eru áætluð 160 millj. kr. og útstreymi á viðskiptareikningnum er áætlað 600 millj. kr. Á móti koma inn í ríkissjóð innheimtar afborganir af veittum lánum samtals 3 milljarðar 480 millj. kr. Að teknu tilliti til alls þessa verður hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1990, þ.e. lántökuþörf ríkissjóðs umfram það sem hann greiðir í afborganir af áður teknum lánum, 1 milljarður 645 millj. kr. sem er, og ég vek athygli á því, 1,2 milljörðum kr. lægri fjárhæð en áætlaður fjárlagahalli. Sé litið til fimm síðustu ára, þá fór lánsfjárþörf ríkissjóðs vaxandi fram til ársins 1988 þegar hún svaraði til 3,2% af vergri landsframleiðslu. Með öðrum orðum, enn á ný eitt af einkennum efnahagsstjórnar Sjálfstfl. að lánsfjárþörf ríkissjóðs fór vaxandi ár frá ári, líka á góðærisárunum. En í ár hefur þetta hlutfall þegar lækkað í 1,6% og á næsta ári er miðað við að það lækki enn, eða í 0,5% af landsframleiðslu. Breytingin er því úr 3,2% af vergri landsframleiðslu þegar Sjálfstfl. réði hér öllu og hafði góðærið til að hjálpa sér ef hann hefði haft vit til að bregðast rétt við og niður í 0,5% af landsframleiðslu.
    Eins og nú er ástatt í þjóðarbúskapnum er ekki talið ráðlegt að ríkissjóður greiði niður erlendar skuldir sínar, en jafnframt eru engin áform um að auka þær. Ríkissjóður mun því eingöngu taka ný erlend lán á árinu 1990 fyrir því sem nemur

afborgunum af eldri lánum, en þær eru áætlaðar 1 milljarður 370 millj. kr. Lánsfjárþörf ríkissjóðs verður því alfarið brúuð með innlendri lántöku í formi sölu á spariskírteinum ríkissjóðs að fjárhæð 6 millj. kr. Ég reikna með að fulltrúar Sjálfstfl. hér í þessum umræðum muni segja að þetta muni ekki takast. Ég vek athygli á að þeir sögðu nákvæmlega hið sama fyrir ári síðan um þau áform sem þá voru í fjárlögum fyrir árið 1989 hvað snertir
innlenda lánsfjáröflun. Staðreyndin er hins vegar sú eins og ég hef nú þegar rakið í ræðu minni að við erum komin langt fram úr því sem áætlað var í fjárlögum og ég mun á næstu dögum þurfa að leggja fram hér á Alþingi frv. til að afla viðbótarheimildar fyrir aukinni innlendri lánsfjármögnun á þessu ári af því að allt bendir til þess að farið verði fram úr því sem björtustu áætlanir fyrir árið í fyrra stóðu til.
    Innlendar afborganir ríkissjóðs af teknum lánum eru áætlaðar á árinu 1990 3 milljarðar 330 millj. kr. Innlend lántaka umfram afborganir nemur því 2 milljörðum 670 millj. kr. Þar sem lánsfjárþörfin er hins vegar einungis 1 milljarður 645 millj. kr. verður 1 milljarður greiddur inn í Seðlabankann á næsta ári til að bæta stöðu ríkissjóðs þar, þannig að fjárlagafrv. er miðað við það að greiða inn í Seðlbankann á næsta ári um 1 milljarð. Ef menn hafa einhverjar efasemdir um að það takist að ná þeim markmiðum í innlendri lánsfjármögnun sem gert er ráð fyrir í frv. er þó varasjóður upp á að hlaupa sem nemur þessum 1 milljarði sem reiknað er með í frv. að borga inn í Seðlabankann.
    Hin trausta efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar miðast þess vegna við það að fara að borga til baka og inn í Seðlabankann hluta af óreiðu fyrri ára sem ga-ga-efnahagsstjórn Sjálfstfl. skildi eftir sig á góðærisárunum.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja nokkuð að framlögum og fjárfestingum í B-hluta. Framlög úr ríkissjóði til fyrirtækja og sjóða í B-hluta hækka um 675 millj. kr., tæplega 13% frá fjárlögum þessa árs og verða alls 5 milljarðar 925 millj. kr. Hér er því um nokkurn raunsamdrátt framlaga til fyrirtækja og sjóða í B-hluta að ræða, þar sem verðlagsbreytingar eru áætlaðar 15--16%. Stærsta einstaka framlagið er sem fyrr til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða 2 milljarðar 215 millj. kr. Í fjárlögum fyrir 1989 er framlag ríkissjóðs til Lánasjóðsins 1 milljarður 617 millj. kr. að viðbættum 75 millj. kr. óráðstöfuðu framlagi frá árinu 1988. Fjárveitingin er að raungildi jöfn þessari samtölu að viðbættri aukinni greiðslubyrði sjóðsins af teknum lánum. Útlán sjóðsins eru áætluð 2 milljarðar 872 millj. kr. og aukast um 44% frá fjárlögum 1989. Sú fjárhæð miðast við það að við ákvörðun úthlutunarreglna fyrir skólaárið 1990--1991 verði heildarútlán sjóðsins miðuð við útlán í forsendum fjárlaga 1989 að teknu tilliti til breytinga á verðlagi, gengi og fjölda lánþega. Að því leyti sem útlán sjóðsins á fyrri hluta árs 1990 verða umfram áðurnefndar forsendur verður að mæta þeim með lántöku.

    Framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs nemur um 1 milljarði 250 millj. kr. og hækkar um tæpan milljarð frá fjárlögum ársins 1989. Aftur á móti lækkar framlag til byggingarsjóðanna um 1 milljarð. Engu að síður munu útlán byggingarsjóðanna á árinu 1990 að teknu tilliti til kaupa lífeyrissjóðanna á húsbréfum verða a.m.k. 500 millj. hærri að raungildi en útlán í fjárlögum 1989. Stafar þetta af því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða er talið munu aukast um 18,5% að raungildi frá árinu 1989. Sú aukning skýrist einkum af því að lokaáfangi í breikkun iðgjaldastofns lífeyrissjóðanna kemur til framkvæmda á næsta ári og að stækkun eignastofns sjóðanna leiðir til mjög vaxandi vaxtatekna og innheimtra afborgana. Um 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna fer skv. samningi til húsnæðiskerfisins í formi lánveitinga til byggingarsjóðanna eða með kaupum á húsbréfum. Þá nemur framlag til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina 350 millj. kr. og eru það eftirstöðvar framlags ríkissjóðs en samkvæmt lögum um sjóðinn átti það að vera 1 milljarður kr.
    Skil tekjuöflunarfyrirtækja í ríkissjóð og til annarra eru áætluð 7 milljarðar 137 millj. kr. sem er svipuð fjárhæð og er í fjárlögum fyrir árið 1989. Þar vega langþyngst skil Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en þau eru áætluð um 6 milljarðar 150 millj. kr. sem er um 100 millj. kr. hækkun frá fjárlögum ársins 1989.
    Fjárfestingar B-hluta fyrirtækja eru áætlaðar 2,2 milljarðar og hækka um 32% frá fjárlögum 1989. Veigamestu fjárfestingarnar eru sem fyrr á vegum Póst- og símamálastofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Fjárfesting Póst- og símamálastofnunar er áætluð um 800 millj. kr. og hækkar um 223 millj. frá fjárlögum ársins 1989. Fjárfesting Rafmagnsveitna ríkisins er áætluð 335 millj. kr. og hækkar um 159 millj. kr. Þessi hækkun er möguleg vegna yfirtöku ríkissjóðs á skuldum veitnanna á þessu ári en þar er enn á ný um að ræða framkvæmd ríkisstjórnarinnar á verki sem Sjálfstfl. gafst upp við að sinna þótt tveir iðnaðarráðherrar Sjálfstfl. hefðu gefið fyrirheit um að koma þessu í framkvæmd. Það er þess vegna ánægjulegt að það hefur orðið hlutskipti þessarar ríkisstjórnar að efna loforð sem iðnaðarráðherrar Sjálfstfl. stóðu ekki við.
    Þá ráðgera Síldarverksmiðjur ríkisins að endurnýja tækjakost verksmiðju sinnar á Seyðisfirði fyrir um 380 millj. kr. en áformað er af hálfu Síldarverksmiðjanna að hefja framleiðslu á svokölluðu gæðamjöli.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja nokkrum orðum að lánsfjáráætlun. Heildarfjárfesting hér á landi er áætluð 62,1 milljarður kr. á árinu 1990 sem
er um 1% samdráttur að magni til frá í ár. Hlutfall heildarfjárfestingar er áætlað 18,5% af landsframleiðslu og er það svipað hlutfall og verið hefur undanfarin tvö ár.
    Á árinu 1990 er talið að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman um 4,4%. Að undanskildum flugvélakaupum Flugleiða nemur samdrátturinn 22%. Þau flugavélakaup nema um 7,7 milljörðum kr. eða rúmlega 12% af heildarfjárfestingunni. Áætlað er að

framkvæmdir við íbúðarhús nemi 13,5 milljörðum kr. og verði svipaðar að magni til og í ár. Fjárfesting hins opinbera mun hins vegar aukast að raungildi um 3,7% á næsta ári eftir samdrátt í ár, en þá ber að hafa það rækilega í huga að aukningin á einungis rætur að
rekja til aukinna raforkuframkvæmda, sérstaklega við Blönduvirkjun, en önnur opinber fjárfesting dregst saman.
    Áætlað er að heildarlántökur opinberra aðila, opinberra lánastofnana og atvinnufyrirtækja verði 39,7 milljarðar kr. Í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum 1989 voru heildarlántökur þessara aðila áætlaðar 36,8 milljarðar en endurskoðuð áætlun bendir til þess að lántökurnar verði í reynd um 48 milljarðar kr. Heildarlántökur á árinu 1990 eru því áætlaðar um 8 milljörðum kr. lægri en í ár og borið saman á meðalverðlagi ársins 1989, sem er í reynd raunhæfari samanburður, nemur lækkunin um 13 milljörðum kr. Mestu munar að lántökur ríkissjóðs eru taldar lækka um rúma 9 milljarða kr., annars vegar vegna minni halla í rekstri ríkissjóðs, en hins vegar vegna minni innlausnar spariskírteina, auk þess sem ríkissjóður tók á árinu 1989 5 milljarða kr. erlent lán til að fjármagna greiðsluhalla ársins 1988.
    Áætlað er að innlendar lántökur opinberra aðila og lánastofnana nemi um 18,3 milljörðum kr. samanborið við 22,7 milljarða í ár. Innlendar afborganir þessara aðila eru áætlaðar um 8,8 milljarðar kr. Hrein lánsfjáröflun ríkissjóðs og opinberra lánastofnana er því áætluð um 9,5 milljarðar kr. á árinu 1990 sem er um 4 milljörðum lægri fjárhæð en hrein lánsfjáröflun þessara aðila í ár. Að raungildi er lækkunin enn meiri og vek ég sérstaka athygli á því, virðulegi forseti, þar sem gert er ráð fyrir um 15--16% hækkun verðlags milli áranna. Þess má geta að hrein lánveiting lífeyrissjóðanna til byggingarsjóðanna er áætluð 9,8 milljarðar á árinu 1990. Þá ber að hafa í huga að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna umfram það sem umsamið er til húsnæðiskerfisins er áætlað tæpir 11 milljarðar kr. Með þetta í huga, virðulegi forseti, verða að teljast góðar líkur á því að innlendri lánsfjárþörf opinberra aðila og sjóða verði fullnægt á árinu 1990 án vaxtahækkunar. Tölulegar forsendur þeirrar áætlunar liggja skýrt fyrir í því sem ég hef nú rakið hér að framan. Þessi áætlun er að mínum dómi jafnraunhæf og sú áætlun sem ég setti fram fyrir ári síðan þar sem ég greindi frá því að á árinu 1989 stefndi ríkisstjórnin að því að afla innlends lánsfjár með aukinni sölu spariskírteina og lækka vextina á spariskírteinunum, en þá fullyrtu snillingarnir í Sjálfstfl. nýútskrifaðir úr fimm ára ga-ga-tímabilinu í efnahagsstjórninni að það væri ekki hægt. Niðurstaðan liggur nú hins vegar fyrir. Vextirnir voru lækkaðir og sala spariskírteina hefur verið mun meiri heldur en áætlað var. Það hvarflar stundum að manni hvaðan þessar hugmyndir Sjálfstfl. um vestrænar hagstjórnaraðferðir séu eiginlega komnar vegna þess að bæði í málflutningi sínum og í aðferðum sínum ganga þeir þvert á grundvallarhugmyndir vestrænnar hagstjórnar. Það er e.t.v. of mikið af lögfræðingum í

forustusveitinni.
    Eins og áður var nefnt er áformað að afla ríkissjóði lánsfjár alfarið með sölu spariskírteina eða fyrir alls 6 milljarða kr. Verulega mun draga úr innlausn spariskírteina á næsta ári. Áætlað er að innlausn á árinu 1990 verði um 2 milljarðar kr. en áætluð innlausn á árinu 1989 er 3,8 milljarðar kr. Hrein lánsfjáröflun í formi spariskírteina á næsta ári er því áætluð um 4 milljarðar kr. samanborið við 2,2 milljarða kr. á árinu 1989. Ásókn hins opinbera í langtímalán mun því aukast nokkuð þótt dragi úr lánsfjárþörfinni þegar á heildina er litið.
    Í þjóðhagsáætlun 1990 er reiknað með að viðskiptahallinn verði um 10,1 milljarður kr. eða um 3% af áætlaðri landsframleiðslu 1990 sem er svipað því sem reiknað er með í ár. Það verður að teljast, eins og ég hef áður sagt, einstakur árangur og er það vissulega sögulega séð ef litið er á efnahagsstjórn Íslendinga á undanförnum áratugum að viðskiptahallinn aukist ekki þrátt fyrir þriðja samdráttarárið í röð og umtalsverðan samdrátt útflutningstekna. Ef það er eitthvað eitt sem endurspeglar árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, þá er það þetta. Þessar tölur liggja á borðinu skýrar og augljósar. Þessi árangur er auðvitað enn meiri sé það haft í huga að inni í þessari tölu eru flugvélakaup Flugleiða sem munu nema tæpum 8 milljörðum kr. á næsta ári og er fullkomlega óeðlilegt að reikna þau inn í samanburð milli ára vegna þess að þau gerast ekki nema á margra ára fresti.
    Erlendar lántökur til lengri tíma eru áætlaðar 21,4 milljarðar kr. Greiðslur þjóðarbúsins af löngum erlendum lánum eru áætlaðar 24,4 milljarðar kr. á árinu 1990, þar af eru afborganir 10,4 milljarðar og vextir 14 milljarðar. Hreinar
erlendar lántökur til langs tíma nema því um 11 milljörðum kr. eða um 900 millj. kr. umfram áætlaðan viðskiptahalla.
    Virðulegi forseti. Fjárlagavandi undanfarinna ára felst ekki hvað síst í því að útgjöld ríkisins hafa vaxið umfram ríkistekjur og landsframleiðslu á undanförnum áratug. Rétt er að vekja athygli á því að rekstur ríkisstofnana, þar á meðal skóla og heilbrigðisstofnana og fjárfesting ríkisins er samtals innan við helmingur af útgjöldum ríkisins. Það er stundum rætt um ríkisfjármálin eins og þessir liðir, heilbrigðiskerfi, skólakerfi, fjárfestingarnar, séu allur ríkisreksturinn, en í reynd er kostnaðurinn við þetta um það bil helmingur, innan við helmingur af útgjöldum ríkisins. Tryggingabætur, framlög og ýmiss konar útgreiðslur beinna fjármuna úr ríkissjóði til einstaklinga og annarra í okkar þjóðfélagi og vaxtagjöld nema hins vegar ríflega helmingi útgjaldanna. Og það er einnig staðreynd að rekstrargjöld ríkisins eru að miklu leyti bundin af þeim lögum sem um viðkomandi málaflokk gilda og Alþingi hefur sett. Þess vegna endurspeglar fjárlagafrv. á hverjum tíma þau lög sem hv. Alþingi hefur sett á undanförnum árum. Og þessum rekstrargjöldum verður ekki breytt nema með ákvörðun Alþingis um að þeirri þjónustu sem lögin

kveða á um verði fundinn annar farvegur. Sjálfvirkur vöxtur þjónustustarfsemi er síðan aukinn með því að ákveðnar tekjur eru markaðar fjárfestingu sem leiðir síðan til aukins rekstrarkostnaðar en ekki er hugað nægilega að honum samhliða fjárfestingunni. Þetta birtist m.a. í því að ýmsir framkvæmdasjóðir og aðrir slíkir tekjustofnar eru beint tengdir húsbyggingum og annarri steinsteypufjárfestingu án þess að nægilega sé séð fyrir fjármunum til þess að stuðla að eðlilegum rekstri og þjónustu innan þessara bygginga. Ég tel þess vegna brýnt að rjúfa þá einhliða steinsteyputengingu sem einkennir marga af þessum tekjustofnum og breikka grundvöll hennar og láta tekjustofnana einnig ná til þeirra brýnu verkefna að bæta rekstur og þjónustu á viðkomandi sviði.
    Þau vinnubrögð sem beitt hefur verið við gerð fjárlaga hafa á margan hátt stuðlað að þeim fjárlagavanda sem við hefur verið að glíma á undanförnum árum. Þessi vinnubrögð hafa um of verið útgjaldahvetjandi og mikið hefur skort á að Alþingi taki á ríkisfjármálum á grundvelli heildaryfirsýnar eða langtímastefnumótunar. Mestur tími Alþingis, eins og hv. alþm. vita, fer í einstök atriði, stundum smáatriði, á útgjaldahliðinni. Auk þess má færa sterk rök að því að tími þingsins til að fjalla um fjárlagafrv. er einfaldlega of naumur ef fjárlagafrv. á að verða raunhæf mynd af vilja þingsins um það hvernig ríkisfjármálunum verði stýrt á næsta ári. Af ofangreindum orsökum taldi ég nauðsynlegt að láta í ljósi þá skoðun að vandi ríkisfjármála á Íslandi felst ekki eingöngu í tekjuhlið annars vegar og gjaldahlið hins vegar heldur felst hann einnig í vinnubrögðunum og aðferðunum sem beitt er á þessu sviði. Af þeim ástæðum setti ég fram í sumar tillögu til umræðu í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna um breytt vinnubrögð á þessu sviði og flyt þær tillögur nú hv. Alþingi við 1. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1990.
    Í fyrsta lagi var sú tillaga að fjárlagaárinu verði breytt og verði það frá 1. júní til 31. maí ár hvert. Í framtíðinni verði fjárlög lögð fyrir haustþingið og þingið hafi þó nokkra mánuði til þess að fjalla um fjárlagafrv. og bundið verði í lög að frv. verði afgreitt fyrir lok apríl. Þá gefst einn mánuður til þess að undirbúa framkvæmd fjárlaganna en það hefur mjög á það skort um langa hríð að nægilegur tími gæfist frá því að fjárlagafrv. er samþykkt til að undirbúa framkvæmd þess.
    Í fjölmörgum löndum er fjárlagaárið annað en almanaksárið. Þessi tillaga hefur það að markmiði að gefa þinginu lengri tíma til að fjalla um fjárlagafrv. og, eins og ég sagði áðan, að ná því markmiði að hægt sé að undirbúa framkvæmd fjárlaganna í a.m.k. einn mánuð frá samþykkt frv. og þar til fjárlögin taka gildi. Með þeim hætti er hægt að tryggja að greiðsluáætlanir fyrir einstakar stofnanir og ráðuneyti liggi fyrir þegar í upphafi fjárlagaársins og þannig sé virkt útgjaldaaðhald tryggt strax frá upphafi. Ég veit að ýmsir hv. alþm. telja hæpið að breyta fjárlagaárinu með þessum hætti. Ég segi hins vegar: Það getur ekki

gengið til lengdar að þingið hafi eingöngu tæpa tvo mánuði til þess að fjalla um þennan veigamesta þátt í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Þá er eingöngu um tvær leiðir að ræða ef menn vilja treysta vinnubrögðin og gera þau raunhæfari og árangursríkari. Annaðhvort verður að breyta fjárlagaárinu frá því sem nú er eða hv. Alþingi verður að taka ákvörðun um það að koma saman til þingstarfa í ágústlok eða byrjun septembermánaðar þannig að það gefist tími í a.m.k. fjóra mánuði til þess að fjalla um fjárlagafrv. Ég er sannfærður um að það getur ekki gengið áfram eins og hingað til að þingið setji sér aðeins tæpa tvo mánuði til að fjalla um fjárlagafrv. Annað hvort verður að gerast, að þingstörfin hefjist í lok ágúst eða byrjun september og þingstörfunum verði í heild sinni breytt í samræmi við það, eða að fjárlagaárið verði fært yfir á annan tíma en almanaksárið.
    Í öðru lagi er sú tillaga að í framtíðinni verði lögð fram fjárlagaáætlun
til þriggja ára samhliða fjárlagafrv. hverju sinni sem sérstakt þingskjal og þessi fjárlagaáætlun hljóti sérstaka meðferð og um hana verði greidd atkvæði og hún samþykkt á svipaðan hátt og vegáætlun nú. Síðan taki fjárlagagerð næstu ára mið af þeim grundvelli sem slík langtímafjárlagaáætlun hefur markað.
    Í þriðja lagi er sú tillaga að útgjaldarammar verði meginaðferð við ákvörðun útgjaldahliðar fjárlaga í framtíðinni. Þannig verði unnið að fjárlagagerðinni að einstök ráðuneyti fái ákveðna heildarupphæð sem þau skipta síðan sjálf niður á verkefnaflokka og stofnanir áður en fjárlagafrv. er lagt fram, í stað þess að fram fari vikum saman reiptog milli fjmrn. annars vegar og einstakra fagráðuneyta hins vegar um fjölmarga liði, stóra og smáa, í útgjaldahliðum viðkomandi ráðuneyta. Það er mun skynsamlegra að ákveða heildarramma og láta síðan viðkomandi ráðuneyti ákveða sín útgjöld eða tillögur um þau innan þess ramma, sérstaklega þegar fjárhagseftirlit og fjármálastefna innan ráðuneytanna hefur verið styrkt.
    Í fjórða lagi er sú tillaga að gerðar verði núllgrunnsáætlanir fyrir einstök ráðuneyti og stofnanir á fimm ára fresti. Með þeim hætti verði um fimmtungur ríkiskerfisins endurskoðaður frá grunni á hverju ári og öll starfsemi ríkisins tvisvar á hverjum áratug. Eins og ég gat um áðan verður innan tíðar greint frá því hvaða ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki verða á árinu 1990 tekin til meðferðar samkvæmt þessari núllgrunnsáætlun þar sem heildarrekstur þeirra verður skoðaður frá toppi til táar og nauðsynlegt verður að réttlæta hvern einstakan útgjaldaþátt en ekki eins og verið hefur áður að fyrst og fremst er rætt um þau viðbótarútgjöld sem eiga að koma á nýju ári.
    Í fimmta lagi er sú tillaga að fjáraukalög verða að jafnaði lögð fram ef nauðsynlegt reynist að bæta við útgjöldum og aukafjárveitingar verði einungis veittar í samræmi við löglegar skuldbindingar. Fjáraukalög verði lögð fram á haustþingi ef nauðsyn er talin verða á þeim vegna lögbundinna skuldbindinga ríkissjóðs eða breytinga á forsendum fjárlaga. Hvert ráðuneyti fái í fjárlögum ákveðna upphæð til úthlutunar sem

,,Annað`` eða ,,Óviss útgjöld`` vegna þess að ljóst er að það geta alltaf komið upp ný útgjaldatilefni á árinu og þótt hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða er skynsamlegast að ætla fyrir slíku ráðstöfunarfé hjá hverju ráðuneyti og hjá ríkisstjórninni í heild eins og gert er í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Teknar verði einnig inn í fjárlög heimildir til að breyta útgjöldum beinna rekstrarliða og lögbundinna útgjalda til samræmis við verðlagsbreytingar umfram forsendur fjárlaga, en að jafnaði verði gerð grein fyrir notkun þessara heimilda við framlagningu fjáraukalaga.
    Virðulegur forseti. Ég set þessar tillögur hér fram við 1. umr. frv. vegna þess að ég tel að þær snerti ekki aðeins þingflokka núverandi ríkisstjórnar, heldur séu þær í reynd erindi til þingsins alls því að það er ekki bara hagsmunamál núverandi ríkisstjórnar að tryggja betri og bætt vinnubrögð á þessu sviði, heldur brýnt hagsmunamál þingsins alls og þjóðarinnar. Ég teldi því mjög mikilvægt ef innan þingflokka allra flokka hér á Alþingi og í fjvn. og einnig í fjárhags- og viðskiptanefndum færu fram umræður um þessar hugmyndir og aðrar hugmyndir sem fram kunna að verða settar svo að við getum á yfirstandandi þingi náð breiðri samstöðu um bætt vinnubrögð og nýjar starfsaðferðir á þessu sviði.
    Virðulegi forseti. Ég hef nokkrum sinnum í ræðu minni vikið að vestrænum hagstjórnaraðferðum. Ég hef gert það vegna þess að talsmenn Sjálfstfl. hafa kosið oftar en einu sinni að ásaka núv. ríkisstjórn fyrir það að hún fylgi ekki vestrænum hagstjórnaraðferðum. ( Gripið fram í: Það var forsrh. sem sagði þetta.) Ég tel hins vegar að ferill þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem hóf feril sinn fyrir rúmu ári síðan sýni ótvírætt að núv. ríkisstjórn hefur með árangursríkum hætti beitt traustustu aðferðum vestrænnar hagstjórnar til þess að forða íslenska hagkerfinu frá því stórslysi sem Sjálfstfl. skildi eftir sig eftir fimm ára valdaferil á þjóðbraut okkar Íslendinga.
    Það er rétt að vekja athygli á því að þar sem vestrænar hagstjórnaraðferðir eru í fullu gildi og hafa raunverulega merkingu en eru ekki bara slagorð eins og hjá Sjálfstfl. eru fjárlögin hornsteinninn í efnahagsstefnu stjórnvalda og ríkisins hverju sinni. Hér á landi hefur hins vegar gætt þeirrar tilhneigingar að líta á fjárlögin sem eitthvað sem sé hagstjórn og efnahagsaðgerðum, eins og stundum er kallað, nánast óviðkomandi. Og Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum verið brautryðjandi þeirrar hugmyndar að fjárlögin séu nánast þingskjal og í kjölfar þeirra þurfi síðan að koma efnahagsaðgerðirnar. Jafnvel þessir menn sem tala hæst um vestrænar hagstjórnaraðferðir eru í raun fylgjandi þessu séríslenska framlagi Sjálfstfl. til íslenskrar hagsögu sem kalla má því nafni ,,groddahagstjórn`` stórra gengisfellinga og kollsteypna sem fyrst og fremst eru mótaðar af þessu viðhorfi. Sumir talsmenn Sjálfstfl. hafa þess vegna hvað eftir annað lagt mikla áherslu á að núverandi ríkisstjórn fylgi ekki hefðbundnum vestrænum hagstjórnaraðferðum. Þeir láta eins og slíkar hefðbundnar rekstrar- og hagstjórnaraðferðir séu

annaðhvort þessi groddahagstjórn stórra gengisfellinga sem Sjálfstfl. er fylgjandi eða þá hin hreinræktaða ómengaða frjálshyggja þar sem hinn tryllti peningamarkaður með
vextina æðandi upp úr öllu valdi sé hreyfiafl hagkerfisins.
    Hins vegar er ekkert fjær lagi. Ef eitthvað er, þá er sú hagstjórn sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir nær hefðbundnum vestrænum hagstjórnaraðferðum en grundvallarhugmyndir Sjálfstfl. á undanförnum árum. Hún tekur mið af hugmyndafræði hins blandaða hagkerfis og hagstjórnar þar sem beitt er samræmdum aðgerðum á sviði ríkisfjármála og peningamála, ýmsum aðgerðum á sviði tekjumyndunar og inngripum inn í óhefta starfsemi markaðarins á vissum sviðum. Þessi stefna er sú sem hefur verið ráðandi á Vesturlöndum allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Og það er í samræmi við anda þessarar stefnu sem tímabundnar millifærsluaðgerðir eru taldar skynsamlegri leið til þess að koma hagkerfinu á réttan grundvöll en groddahagstjórn stórra gengisfellinga sem leiðir til kollsteypna í hagkerfinu. Bæði þessi groddahagstjórn, sem Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum og gerir enn kröfu til samkvæmt samþykkt þingflokks Sjálfstfl. í sumar, og hin hreinræktaða frjálshyggja eru í raun undantekningarnar. Það eru þær sem eru undantekningarnar frá þeim meginreglum í hagstjórn á Vesturlöndum sem fylgt hefur verið.
    Ég tel það sérstaklega mikilvægt að vekja athygli á þessu hér vegna þess að það er tími til kominn að þessar hugmyndir um hagstjórnaraðferðir verði dæmdar á rykfallna bekki sögunnar en þeim sé ekki haldið hér fram hvað eftir annað, jafnvel þótt talsmenn Sjálfstfl. eigi í hlut. Það er mál til komið að því rótgróna viðhorfi að fjárlögin séu nánast utan við hagstjórnina verði vikið til hliðar. Það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er og verður hornsteinninn í hagstjórninni á næsta ári. Hér er ramminn sem allir aðilar þjóðfélagsins verða að taka mið af, hvort sem það er ríkið sjálft, atvinnureksturinn eða launafólk. Með þessu og síðasta fjárlagafrv. hefur verið leitast við að hverfa af braut þeirrar stefnu, sem ég hef nefnt ga-ga-stjórn á ríkisfjármálum, sem einkenndi yfirstjórn Sjálfstfl. á þeim málum frá árunum 1983--1987 og forustu Sjálfstfl. fyrir ríkisstjórninni 1987--1988.
    Vegna samdráttar í þjóðarbúskapnum verður ekki að sinni hægt að ná hallalausum fjárlögum. Hins vegar er með höfuðeinkennum þessa frv. lagður grunnur að jafnvægi í ríkisfjármálum til lengri tíma og á þessum grundvelli á að vera hægt að reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi þegar uppsveiflan í hagkerfinu hefst og er þá brýnt að forðast hin örlagaríku mistök Sjálfstfl., að búa til stórfelldan halla á ríkissjóð á góðærisárunum 1986 og 1987. Takist að forða þjóðinni frá því að mistök Sjálfstfl. verði endurtekin þegar góðærið gengur á ný í garð erum við nú að halda inn á örugga braut í íslenskri hagstjórn með jafnvægi í efnahagslífinu og traustan grundvöll fyrir bættum hag atvinnulífsins og jafnari lífskjörum

alls almennings í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég legg að svo mæltu til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjvn.