Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1990. Í ræðu hans skorti hvorki falleg orð né hástemmdar yfirlýsingar, en í þeim var þó holur hljómur. Í ræðu ráðherrans skorti heldur ekki pólitískt orðagjálfur og ekki árásir á Sjálfstfl., árásir sem við sjálfstæðismenn munum taka okkur tíma til þess að svara hér á hinu háa Alþingi. Hæstv. ráðherra þarf ekki að frýja okkur þess að við hirðum ekki um að ræða atvinnumál eða efnahagsmál við hann hér á þessu háa Alþingi. Það mun verða tekið til athugunar bæði í þessari umræðu og eins þótt síðar verði.
    Hæstv. ráðherra hefur sagt að frv. marki ákveðin tímamót. Það sé áfangi að nýjum grundvelli í efnahagsstjórn á Íslandi og það sé traustur rammi um efnahagslífið sem allir aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða að laga sig að. Látið er að því liggja að frv. sé svo fullkomið að þar þurfi helst engu að breyta. Sennilega er það nánast formsatriði að leggja það fyrir Alþingi og allir aðilar í þjóðfélaginu eiga að taka því með fögnuði og aðdáun.
    Eitthvað rámar mig í það, þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir sínu fyrsta fjárlagafrv. fyrir tæpu ári síðan, að yfirlýsingar hans hafi verið með sambærilegum hætti. Einnig þá markaði fjárlagafrv. þáttaskil. Það var talið reist á traustum grunni og framtíðarheill þjóðarinnar átti að ráðast af því hvort Alþingi féllist á að afgreiða frv. að mestu óbreytt. Þjóðin hlýtur hins vegar að spyrja hvort þær glansmyndir sem hæstv. fjmrh. hefur dregið upp í kringum þessi fjárlagafrumvörp bæði séu eitthvað í samræmi við raunveruleikann. Því miður er það svo að þegar farið er að skyggnast í málin hverfur glansinn og dökku hliðarnar blasa við. Orðagjálfur hæstv. ráðherra breytir þar engu um.
    Fyrir tæpu ári síðan gagnrýndi ég harkalega fjárlagafrv. sem þá var til meðferðar og síðar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989. Ég benti m.a. á að
fjárlagaafgreiðslan væri byggð á stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum. Ég benti á að forsendur fjárlaganna væru gjörsamlega í lausu lofti og þar með niðurstaða á rekstraryfirliti. Ég benti á að þrátt fyrir að fjárlögin væru afgreidd með tekjuafgangi sem byggðist á hrikalegri nýrri skattheimtu en áður hefðu verið dæmi um í okkar landi vantaði inn í fjárlagadæmið vanáætluð útgjöld sem næmu a.m.k. rúmum 1 milljarði kr. Ég benti á að niðurskurður útgjalda hitti fyrst og fremst atvinnuvegina og strjálbýlið, ekki síst bændur landsins og vegamál. Og ég benti á að þrátt fyrir slíkan niðurskurð fælist í fjárlögunum mikil þensla í rekstri og umfangi ríkiskerfisins.
    Skemmst er frá því að segja að allt sem ég sagði um þessi efni var sannleikanum samkvæmt og hefur komið fram. Þegar hæstv. ríkisstjórn var loks knúin til nokkurra aðgerða í efnahags-, atvinnu- og launamálum kostaði það ríkissjóð milljarða í nýjum útgjöldum umfram fjárlög. Forsendur fjárlaganna í verðlags-,

launa- og gengismálum entust ekki nema 2--3 fyrstu mánuði ársins. Þá voru þær sprungnar. Þau dæmi sem ég hafði rakið um vanáætlun útgjalda í einstökum málaflokkum voru viðurkennd í raun af hæstv. ríkisstjórn eftir að Alþingi hafði verið slitið. Niðurstaðan varð sú sem allir hv. alþm. þekkja, að fjárlagafrv. sem lagt var fram með nærri 1200 millj. kr. rekstrarafgangi var afgreitt sem fjárlög frá Alþingi með 600--700 millj. kr. rekstrarafgangi, en hæstv. ríkisstjórn þurfti ekki nema örfáar vikur eftir að Alþingi var slitið til þess að breyta þessari stöðu yfir í 4--5 milljarða halla. Og samkvæmt spá sem um þessar mundir er gerð af fjmrn. er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á þessu ári verði 8 milljörðum hærri heldur en fjárlög kveða á um, að tekjur ríkissjóðs á þessu ári fari 2,7 milljarða fram úr áætlun fjárlaga og að hallinn á fjárlagadæminu verði um 5 milljarðar. Þannig var nú hinn trausti rammi fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. í fyrra. Þannig er nú raunveruleikinn eftir því sem best er vitað um þessar mundir samkvæmt spá um útkomu ársins. Þetta er sú reynsla sem þjóðin hefur fengið af fjármálastjórn þessa hæstv. fjmrh.
    Áður en ég tek að ræða það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir og markar tímamót í efnahagssögu okkar Íslendinga að mati hæstv. fjmrh. þykir mér rétt að víkja örfáum orðum að efnahags- og atvinnumálum, ekki síst eftir þá dæmalausu ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti hér á Alþingi í útvarps- og sjónvarpsumræðum fyrir fáum dögum. Þar var nú ekki sparað að lýsa ástandinu fagurlega og það var heldur ekki sparað hér í dag. Hvert sem litið var sást að allt stóð í blóma og bar vitni um trausta efnahagsstjórn. Ég segi það fyrir mig að ég hef sjaldan undrast eins eina ræðu og ég hef aldrei orðið vitni að því að fjármálaráðherra sem mælir fyrir fjárlagafrv., eins og hann gerði hér í dag, hafi blandað ræðu sína slíkum pólitískum árásum og slíku pólitísku orðagjálfri sem þessi hæstv. ráðherra gerði hér í ræðu sinni áðan. Það er einsdæmi. Og einsdæmi þessa hæstv. ráðherra eru vafalaust mörg fleiri eins og alþjóð er kunnugt. Greinilegt var á ræðu hæstv. ráðherra hér fyrir fáum dögum og raunar í ræðu hans hér áðan að skrum hans og sjálfsánægja blindar honum sýn. Raunveruleikinn er honum hulinn og staða fólksins í landinu
er honum ókunn.
    Það var kaldhæðnislegt fyrir hæstv. fjmrh. að sama kvöldið sem hann flutti þessa ræðu flutti einnig flokksbróðir hans ræðu, hv. þm. Ragnar Arnalds. Hann sagði m.a.:
    ,,Það loga eldar í íslensku efnahagslífi sem birtast í gjaldþrotum, atvinnuleysi, lágum launum, halla á ríkissjóði og því að landsbyggðinni blæðir.``
    Skyldi nú ekki þetta vera sannari lýsing á ástandinu? Hverjum skyldi nú fólkið í landinu trúa betur, hv. þm. Ragnari Arnalds ellegar hæstv. fjmrh.? Ég veit að allir kunna skil á hvert svarið er. Af þessu tilefni þykir mér rétt að víkja að nokkrum atriðum þessara mála í grófum dráttum.
    Hæstv. fjmrh. sagði að þau ytri skilyrði hefðu ekki hent íslenska þjóð í 40 ár að þrjú samdráttarár komi

í afla og framleiðslu í röð. En hver eru þá þessi erfiðu skilyrði? Hver eru þessi ytri áföll sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir? Það er vissulega rétt að það hefur orðið samdráttur í efnahagskerfinu frá veltiárunum 1987 og 1988. En það er þó rétt að taka eftir því, og það ætti hæstv. ráðherra að gera, að aðeins tvisvar sinnum á þessum áratug hafa komið hagstæðari ár fyrir íslenska þjóðarbúið en árið 1989. Þetta á bæði við um viðskiptakjör þjóðarinnar út á við og um þjóðartekjur. Aðeins tvisvar sinnum hafa viðskiptakjörin verið hagstæðari og aðeins tvisvar sinnum hafa þjóðartekjurnar verið meiri á mann á þessum áratug en í ár. Áföllin eru þá ekki meiri en þetta. Og svo kemur hæstv. fjmrh. hér í dag og fyrir fáum kvöldum hér á hinu háa Alþingi og talar um verstu áföll þjóðarbúsins í 40 ár.
    Hæstv. fjmrh. var ákaflega ánægður með stöðu atvinnuveganna og sagði að nú heyrðust ekki lengur raddir um að þeir væru að stöðvast. Það var einnig kaldhæðnislegt að sama kvöldið og þessi orð voru töluð af hæstv. fjmrh., fyrir fáum kvöldum, voru í ríkisfjölmiðlunum fregnir af því að tvö kaupfélög höfðu orðið gjaldþrota og að eitt fiskiðjuver stæði frammi fyrir gjaldþroti. Þetta voru í sjálfu sér engin nýmæli í fréttum nú síðustu vikurnar og mánuðina. Staðreyndin er hins vegar sú að hallarekstur atvinnuveganna hefur haldið áfram allan þann tíma sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur setið.
    Í þjóðhagsáætlun sem dreift var hér á hv. Alþingi 11. okt. sl. er sagt að þegar á heildina sé litið virðist stefna í 1--2% halla sjávarútvegsins í heild. Í fréttabréfi Þjóðhagsstofnunar frá því í gær er svo gert ráð fyrir að úr þessum halla hafi dregið, þannig að hann sé um þessar mundir 1 / 2 % að meðaltali í veiðum og vinnslu.
    Þrátt fyrir það að úr hallarekstrinum hafi dregið hefur hallinn haldið áfram í rekstri atvinnuveganna og þegar hann hefur staðið svo lengi sem raun ber vitni eru fyrirtækin í sífellu, hvert af öðru, að komast í þrot. Og þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki tekið eftir því er gert ráð fyrir að fjöldi gjaldþrota verði á þessu ári meiri en nokkru sinni fyrr. Aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hafa í flestu verið kákráðstafanir. Sumpart hafa þær komið of seint eða verið of litlar til þess að taka fyrir rætur vandans þannig að hallareksturinn hefur í sífellu haldið áfram. Á hinn bóginn hefur millifærslusjóðum ríkisstjórnarinnar verið beitt til þess að framlengja lán og fresta greiðslum af lánum sem að loknu næsta ári koma til gjalda hjá atvinnufyrirtækjunum með fullum þunga. Þá verður væntanlega þessi hæstv. ríkisstjórn farin frá og það kemur í hlut annarra að leysa vandann.
    Þá sagði hæstv. fjmrh. að atvinnuleysi hefði verið forðað, eins og hann orðaði það. Hann lét þess ekki getið að atvinnuleysi fyrstu átta mánuði þessa árs hefur verið þrisvar sinnum meira en á sama tíma árið á undan og spáð er að atvinnuleysi fari enn vaxandi á næstunni. Hæstv. fjmrh. sagði að vöruskiptajöfnuður væri orðinn hagstæður og viðskiptahallinn að hverfa. Hann lét eins og hann hefði ekki heyrt þess getið að

því er spáð að viðskiptahalli við útlönd verði á næsta ári 9,9 milljarðar kr. Í munni hæstv. fjmrh. er viðskiptahallinn að hverfa þó hann sé 10 milljarðar á ári.
    Hæstv. ráðherra gumaði af gengisbreytingum og sagði: ,,Verðbólgan hefur verið hamin.`` Þetta er vitaskuld eins og annað í þessari ræðu hæstv. ráðherra. Verðbólgan er þvert á móti því sem ráðherrann segir meiri á þessu ári heldur en hún var í fyrra.
    Þá talar hæstv. ráðherra um jafnvægi í peningamálum og að lausafjárstaða bankanna sé nú jákvæð. Það er rétt að það er talið að lausafjárstaða bankanna hafi á þessu ári batnað um 6,2 milljarða. En hæstv. ráðherra gleymdi að geta um það að á sama tíma hafa erlend skammtímalán viðskiptabankanna vaxið um 5,7 milljarða og heildar erlend lán bankakerfisins vaxið á sama tíma um 9 milljarða kr. þannig að a.m.k. að hluta er þessi bætta staða bankakerfisins fólgin í auknum erlendum lántökum.
    Þá sagði hæstv. ráðherra að vaxtadansinn hefði verið stöðvaður. Þetta gefur mér tilefni til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann ánægður með vaxtastigið eins og það er í dag? Er hæstv. ríkisstjórn ánægð með þá stöðu sem nú er í vaxtamálum þjóðarinnar og blasir við almenningi? Mér finnst eðlilegt að fá svör við þessu og það auðvitað breytir ekki þeirri stöðu þó að talið sé
að raunvextir hafi á þessu ári lækkað um sem svarar 2% að meðaltali. Það er nú öll dýrðin sem við fólkinu blasir í vaxtamálum. Það er ekki að furða þótt hæstv. ráðherra sé ánægður. En ég er ekki viss um að þeir sem eru að
sligast undan vaxtabyrði af þungum lánum úti í þjóðfélaginu sé jafnánægðir og hæstv. ráðherra.
    Hæstv. fjmrh. var nú aldeilis ánægður yfir því hvernig ríkisstjórninni hefði tekist að verja kaupmáttinn. Samkvæmt þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að kaupmáttur atvinnutekna verði á þessu ári 7,5% lægri að meðaltali heldur en var í fyrra og kaupmáttur almannatrygginga rýrni um 4--9% eftir einstökum tegundum trygginga. Það má svo benda á að hæstv. forsrh. sagði hér fyrir fáum kvöldum í svokallaðri stefnuræðu sinni að kaupmátturinn mundi enn lækka á næsta ári. Er að furða þótt hæstv. fjmrh. sé ánægður með það hvernig honum hafi tekist að verja kaupmáttinn. Ég hugsa að fólkið í landinu, launþegarnir í þessu landi, séu einnig ákaflega ánægðir eins og ráðherrann.
    Þá sagði hæstv. ráðherra að halli ríkissjóðs færi mjög minnkandi og jafnvægisástandi hefði verið náð á flestum eða öllum stigum efnahagslífsins. Ekkert af þessu er í samræmi við raunveruleikann. Alvarlegasta meinsemdin í efnahagsmálum okkar Íslendinga er að sjálfsögðu hrikaleg staða grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar sem stafar af langvarandi hallarekstri. Þótt nokkuð hafi dregið úr reikningslegum halla dugar það ekki til. Ef koma á í veg fyrir að fyrirtækin fari hvert af öðru fram af brúninni svo sem þau hafa verið að undanförnu, þá verða þau þó að hagnast til að vinna

upp það mikla tap sem þau hafa mátt þola á síðustu missirum.
    Ég endurtek það vegna sífelldra frýjuorða hæstv. fjmrh. að við sjálfstæðismenn óttumst ekki og munum ekki hliðra okkur hjá því að taka hér upp umræðu við hæstv. fjmrh. um aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum né stöðuna í þeim þáttum þjóðlífsins. Ég vil því leggja það til við hæstv. forseta að tekinn verði frá heill dagur nú alveg á næstunni hér á hinu háa Alþingi til að ræða þessi mál ítarlega. En það mun þó ekki forða hæstv. ráðherra frá því að hér í þessari umræðu munum við sjálfstæðismenn taka okkur tíma til þess að svara frýjuorðum hæstv. ráðherra og rangfærslum hans á marga lund.
    Halli á viðskiptum okkar við útlönd og skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis ásamt hallarekstri ríkissjóðs bera heldur ekki vitni þess að neinu jafnvægi hafi verið náð. Hæstv. fjmrh. sagði að nú væri þetta jafnvægisástand komið í svo gott lag að í upphafi nýs árs gætum við lokað millifærslukerfinu og lagt millifærslusjóði til hliðar og komið þeim fyrir í bankakerfinu. Þetta þóttu mér nú góðar fréttir. Því spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvernig stendur þá á því að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina fái í framlög frá ríkissjóði á fjárlögum næsta árs 350 millj. kr. og lán, bæði innlend og erlend, samtals 750 millj. kr.? Enn fremur að útlán sjóðsins og styrkir verði á næsta ári 1295 millj. kr.? Úr því að það á að leggja þennan sjóð til hliðar og loka millifærslukerfinu í upphafi nýs árs eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni, eru þetta þá bara misprentanir í fjárlagafrv. sem fjvn. verður þá væntanlega falið að leiðrétta? Eða er það svo að allt það sem hæstv. fjmrh. sagði í þessari ræðu sinni sé bara markleysa og ekkert annað? Ekkert nema markleysa. Við bíðum eftir því að sjá hvort réttara er.
    Þó ég hafi hér gert að umtalsefni ræðu hæstv. ráðherra frá umræðum um svokallaða stefnuræðu forsrh. fyrir fáum kvöldum, þá vék hæstv. ráðherra enn fremur að þessum atriðum flestum eða öllum í ræðu sinni hér áðan og blandaði inn pólitísku orðagjálfri og árásum á Sjálfstfl. þó að í sumum greinum og sumum atriðum dragi hann nokkuð úr orðavali sínu frá því sem var í ræðu hans hér fyrir fáum kvöldum.
    Það fjárlagafrv. sem hér er til 1. umr. og hæstv. ráðherra hefur sagt að marki tímamót í íslenskri efnahagsstjórn felur í sér nokkur meginatriði.
    1. Frv. er lagt fram með nálega þriggja milljarða halla og sýnir að hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp við að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins.
    2. Í frv. felst villandi samanburður því víðast hvar eru tekna- og gjaldaliðir bornir saman við spá um líklega útkomu sambærilegra liða á þessu ári. Áður hefur slíkur samanburður yfirleitt verið á milli frv. og síðustu fjárlaga.
    3. Forsendur frv. eru óljósar og settar upp með svo flóknum hætti að jafna má við feluleik. Engar líkur eru til að þær fái staðist.
    4. Gerbreyting er áformuð á tekjuöflunarkerfi

ríkisins með upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts. Ýmis framkvæmdaatriði skattsins eru í algerri óvissu og áætlanir um tekjuhlið frv. því óvenjulega óáreiðanlegar þótt ljóst sé að frv. gerir ráð fyrir mikilli hækkun á óbeinum sköttum og launasköttum.
    5. Frv. boðar verulega útþenslu ríkiskerfisins á næsta ári með á þriðja hundrað nýjum starfsmönnum að frátöldu skólakerfinu og útþenslu rekstrarútgjalda ríkisins um 1,8% að raungildi.
    6. Framlög til fjárfestingar, viðhalds og ýmissa tilfærslna eru skorin
harkalega niður í frv. svo að hafa mun áhrif á atvinnumöguleika fólks á næsta ári auk þess sem brotnar verða ýmsar ákvarðanir síðasta þings t.d. í vegamálum, landbúnaðarmálum og öðrum málefnum strjálbýlisins.
    7. Frv. er götótt. Á gjaldahlið frv. vantar verulegar fjárhæðir sem ekki verður séð að komist verði hjá að greiða út á næsta ári.
    8. Frv. felur í sér hvatningu til hækkunar vaxta með fyrirætlunum um skattlagningu vaxtatekna.
    9. Yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um 4% raunlækkun ríkisútgjalda eru markleysa. Í fyrsta lagi er þetta hlutfall fengið með röngum samanburði, í öðru lagi með hæpnum reikniforsendum og í þriðja lagi á Alþingi eftir að stoppa upp í eitthvað af þeim götum sem á frv. eru.
    10. Frv. er ekki traustara en það fjárlagafrv. sem lagt var fyrir Alþingi fyrir tæpu ári síðan, jafnvel síður en svo. Að þessu leyti markar frv. engin tímamót.
    Virðulegi forseti. Við þessa umræðu mun ég ekki ræða ítarlega einstaka liði frv. enda eðlilegt að það bíði 2. umr. Ég kemst þó ekki hjá því að fara nokkrum orðum um ýmsa af þeim liðum sem ég hef hér að framan talið í 10 töluliðum sem megineinkenni á þessu frv. Nokkur atriði í greinargerð frv. eru nú ógreinilegri og óskýrari en oftast hefur áður verið. Þetta á einkum við um tvennt:
    1. Frv. er borið saman við spádóma um hver kunni að verða niðurstaða í tekjum og gjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Þessi samanburður er ákaflega villandi og í raun verið að bera saman ósambærilega hluti sem skýrist auðveldlega af því hversu mikill munur er á frv. sem lagt var fram í fyrra og fjárlögum sem afgreidd voru í byrjun þessa árs og líklegri útkomu á tekjum og gjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Þessi samanburður sem einkum er á frv. í heild og ýmsum yfirlitstöflum er ákaflega villandi og torveldar það mjög að draga réttar ályktanir af frv. Skylt er þó að geta þess að samanburður á gjaldaliðum einstakra ráðuneyta og einstakra stofnana er yfirleitt svo sem verið hefur miðað við fjárlög fyrir þetta ár en ekki einhverja spádóma.
    2. Forsendur frv. eru settar upp með ákaflega óskýrum hætti svo að kalla má feluleik eða sjónarspil. Fullyrða má að forsendur frv. séu svo veikar að ekki séu líkur til að þær geti staðist. Með sjónarspili af þessu tagi má reikna með því að útgjöld sem nema stórum fjárhæðum séu dulin í frv. svo sem var í

fjárlögum fyrir þetta ár. Enn fremur byggir frv. á þeim grunni að sá 4% niðurskurður sem ákveðinn var með fjárlögum fyrir þetta ár á launagjöldum og öðrum rekstrargjöldum hafi orðið raunhæfur. Engar upplýsingar liggja þó fyrir frá fjmrn. um það hvort þessi niðurskurður hafi tekist eða muni takast í raun. Einungis hefur verið frá því sagt að frá honum hafi verið horfið að hluta í heilbrigðiskerfinu. Að svo miklu leyti sem þessi niðurskurður eða sparnaður hefur ekki komist í framkvæmd er fjárlagafrv. óraunhæft sem því nemur. Þykir mér ekki ólíklegt að það geti numið nokkrum hundruðum millj. kr. A.m.k. gengur furðu treglega að fá upplýsingar um þennan sparnað.
    Augljóst er að þetta frv. er þenslufrv. hvað varðar ríkisbáknið. Frv. boðar enga stöðnun í vexti og umfangi ríkiskerfisins, heldur þvert á móti. Þetta skýrist best með því að meðan gert er ráð fyrir að verðlagsbreytingar milli ára verði 16%, þá hækka rekstrargjöld frv. um 24,7% og launagjöld um 25,2%. Samkvæmt þessu vaxa rekstrarútgjöld ríkisins um 1,8% að raungildi svo sem áður sagði og er það drjúgum meira en gert var ráð fyrir í afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta yfirstandandi ár.
    Samkvæmt bráðabirgðayfirliti frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun fjölgar stöðugildum í þessu frv. um 217 sem sýnir verulega útþenslu á starfsmannahaldi ríkisins og er það skýringin á hinum auknu launaútgjöldum sem í frv. eru. Eru þá ekki teknir með þeir starfsmenn sem kunna að bætast við í skólakerfinu. Til viðbótar við þetta er óljóst hversu margir starfsmenn eru ráðnir til tímabundinna verkefna. Meðal þeirra eru pólitískir aðstoðarmenn einstakra ráðherra sem ráðnir hafa verið umfram heimildir laga og reglugerða um Stjórnarráð Íslands.
    Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að útþensla í rekstri er mest hjá fjmrn. eða hækkun um 51% frá síðasta ári meðan gert er ráð fyrir að verðlagsbreytingar á milli ára séu 16%. Þar af hækkar aðalskrifstofa fjmrn. um 35% frá fjárlögum þessa árs. Við þetta eru gefnar þær skýringar að síðustu ár hafi fjárveitingar til ráðuneytisins að jafnaði verið nokkru lægri en raunkostnaðartölur hafi gefið tilefni til. Með öðrum orðum er verið að segja að sjálfsagt þyki að verðlauna þá sem fara verulega fram úr fjárlagatölum. Og verðlaunin eru langsamlega mest í skrifstofu og ráðuneyti hæstv. fjmrh. sjálfs. Það er eftir öðru í þeirri fjármálastjórn sem við búum nú við.
    Í fjölmiðlum hafa birst fregnir af því hvernig ýmsar stofnanir menntmrn. hafa verið meðhöndlaðar af hæstv. ríkisstjórn í þessu fjárlagafrv., svo sem Háskóli Íslands, Þjóðarbókhlaðan og Lánasjóður ísl. námsmanna. En í fjárlagafrv. eru ýmsir fleiri athyglisverðir póstar er varða það ráðuneyti. Þar segir m.a. í skýringum er varða grunnskóla, að lagt sé til að hækka
framlög til endurmenntunar sálfræðinga um 151%, framlag til sérstakra fræðsluverkefna um 103% og fjárveitingu til yngri barna í grunnskólum um 174%, sem væntanlega er forskólanám. Þar segir einnig að

hækka eigi fjármagn til þróunarstarfa í grunnskólum um 115% og stofna nýtt viðfangsefni sem beri heitið Starfsleikninám. Að loknum þessum lestri er frá því greint að menntmrn. muni efna til sérstaks sparnaðarátaks á næsta ári. Ég tel það að sjálfsögðu eðlilegt að menntmrn. og fjmrn. geri grein fyrir því hvar það sparnaðarátak eigi að koma niður meðan verið er að setja stóraukið fé í ný viðfangsefni og stórhækka önnur svo sem hér hefur verið rakið að framan.
    Í frv. er það nýmæli að í hverju ráðuneyti er nýr liður sem kallast Ráðstöfunarfé. Er þessi liður yfirleitt 3--15 millj. kr. eftir einstökum ráðuneytum, þó ekki í ráðuneyti hæstv. hagstofuráðherra. Svo virðist sem þetta fjármagn eigi að vera til frjálsrar ráðstöfunar hvers ráðherra fyrir sig, enda segir í undirfyrirsögn að það eigi að ganga til einstaklinga, heimila eða samtaka. Í sjálfu sér er það til bóta að hafa slíkan lið í hverju ráðuneyti sem ætti þá að koma í veg fyrir eða draga úr þörf fyrir aukafjárveitingar á árinu. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að slíkum lið verði settar fastari skorður en frv. gerir ráð fyrir þannig að með þessu fé verði hægt að mæta vanáætlun á einstökum liðum, jafnvel breytingum á forsendum eða til þess að ljúka verkefnum sem fé er veitt til á fjárlögum. En það er jafnframt óhjákvæmilegt að reisa skorður við því að þetta fé verði notað að geðþótta ráðherra til ýmissa verkefna sem Alþingi hefur til að mynda hafnað ellegar til þess að veita fé til styrktar Pétri eða Páli úti í bæ sem býður upp á pólitíska misnotkun. Þau nauðsynlegu takmörk sem setja verður þessum fjárlagalið munu að sjálfsögðu tengjast þeim tillögum sem fjvn. vinnur að og ég greindi að nokkru frá í umræðum utan dagskrár hér fyrr á þessu þingi, en þær tillögur eiga að hafa það að markmiði að girða fyrir þá meðferð á fjármunum ríkisins sem tíðkast hefur að undanförnu með svokölluðum aukafjárveitingum.
    Í fjárlögum fyrir þetta ár var harkalega dregið úr fjárframlögum ríkisins til fjárfestingar í landinu svo sem öllum er kunnugt. Í því frv. til fjárlaga fyrir næsta ár sem hér er til umræðu er enn lengra gengið á þessari braut og fé til fjárfestinga beinlínis lækkað í krónutölu um nær 500 millj. kr. frá fjárlögum fyrir þetta ár og um 700 millj. kr. ef miðað er við áætlaða útkomu ársins eða um 20% að raungildi. Þessi niðurskurður á framkvæmdafé er svo mikill að hætt er við því að það hafi veruleg áhrif á atvinnustig landsmanna þrátt fyrir það að spáð sé vaxandi atvinnuleysi þótt þetta kæmi ekki til. Niðurskurðurinn hittir flestar greinar opinberra framkvæmda, svo sem hafnir, skólabyggingar og heilbrigðisstofnanir. Enn fremur framlög til mikilvægra sjóða. Og þið tókuð eftir því, hv. alþm., að hæstv. ráðherra gumaði af því að fé til Framkvæmdasjóðs aldraðra og Framkvæmdasjóðs fatlaðra væri þó óskert að krónutölu í þessu frv. En niðurskurðurinn er þó allra hrikalegastur til framkvæmda og viðhalds hjá Vegagerð ríkisins. Sl. vor afgreiddi Alþingi nýja vegáætlun með miklum niðurskurði vegaframkvæmda

á þessu ári. Þá skorti hins vegar ekki heitstrengingar hæstv. samgrh. og annarra stjórnarliða um að niðurskurðurinn væri aðeins fyrir þetta ár, enda var vegáætlun afgreidd í samræmi við þessar yfirlýsingar. Aðeins fimm mánuðum seinna er þetta fjárlagafrv. lagt fyrir Alþingi og nú er gert ráð fyrir að skera niður fé til Vegagerðar ríkisins um 1 milljarð og 15 millj. kr. miðað við það sem vegáætlun kveður á um. Þetta á m.a. að gera með því að hækka ekki sérmerkta tekjustofna Vegagerðarinnar en hækka þess í stað svokallað kílóagjald á bifreiðar um þúsundir króna á hvern bíl, enda rennur sá skattur ekki til Vegagerðar ríkisins heldur beint í ríkissjóð.
    Hvar eru nú hin stóru orð hæstv. samgrh. og annarra stjórnarliða frá því á síðasta þingi um vegamálin? Hafa þeir nú samþykkt að leika vegamálin með þessum hætti? Mér er sannarlega spurn. Rétt er að hafa það í huga að öllu þessu fé hefur verið ráðstafað af Alþingi og þau verk sem átti að vinna fyrir þetta fé eru mörg hver hafin eða búið að bjóða þau út. Stærst af þeim er vitaskuld þær miklu stórframkvæmdir sem nú er unnið að í Ólafsfjarðarmúla. Þessi mál, eins og önnur í fjárlagafrv., á auðvitað eftir að ræða vandlega í fjvn. og hér á hinu háa Alþingi. En ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hv. þm. stjórnarliðsins láti það ganga yfir sig að fara með þessum hætti með vegamálin. Enn hafa engar upplýsingar borist um það hvernig það fé sem vantaði í vegamálin á þessu ári verður útvegað. Ef ég man rétt vantaði til framkvæmda í Ólafsfjarðarmúla 90 millj. kr. og til snjómoksturs og vetrarviðhalds um 140 millj. kr. Það væri fróðlegt að fá hér í þessum umræðum upplýsingar frá hæstv. samgrh. ellegar hæstv. fjmrh. um það hvernig þetta fé verður útvegað.
    Sú ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem mynduð var fyrir rúmu ári síðan lýsti yfir því að hún ætlaði sér að treysta stöðu landsbyggðarinnar. Það lítur þó út fyrir að meðal eftirlætisstefnuatriða hennar sé að skera niður það fé sem mesta þýðingu hefur fyrir fólkið á landsbyggðinni. Svo er t.d. um vegamálin sem þó eru auðvitað mál landsmanna allra og ekkert síður hér á
höfuðborgarsvæðinu en annars staðar vegna þess að einmitt hér á þessu svæði þarf að leggja í fjárfrek verkefni til þess að greiða úr þeim mikla vanda sem hér er við að fást í umferðarmálum. En hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einungis sinnt því uppáhaldsverki sínu að skera niður fé til vegamála. Hún hefur eins og allir vita vanrækt að skapa viðunandi rekstrarskilyrði fyrir undirstöðuatvinnugreinar landsmanna og meðferðin á bændastéttinni í þessu fjárlagafrv. væri verðug sérstakrar umræðu.
    Í tengslum við setningu nýrra búfjárræktar- og jarðræktarlaga á síðasta þingi var því lýst hátíðlega yfir að á þessu ári yrði gerður upp skuldahali búfjárræktar- og jarðræktarframlaga sem myndast hafði og mun vera yfir 200 millj. kr. Ekkert hefur heyrst frá hæstv. ríkisstjórn sem bendir til þess að þau fyrirheit verði efnd. Í fjárlagafrv. er ætlað til þessara framlaga

á næsta ári 110 millj. kr. Skv. upplýsingum landbrn. verða á næsta ári gjaldfallin framlög vegna þessara framkvæmda sem nema um 450 millj. kr. Þessu virðast hæstv. landbrh., hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin ætla að mæta með því að borga 110 millj. kr. Þetta heitir víst að treysta stöðu landsbyggðarinnar og standa við þau hátíðlegu loforð sem gefin hafa verið.
    Gert er ráð fyrir því skv. þessu fjárlagafrv. að niðurgreiðslur á vöruverði verði óbreyttar að krónutölu á næsta ári. Jafnframt er því haldið á lofti að vöruverð á matvælum muni lækka með upptöku virðisaukaskatts. Eins og nú standa sakir eru þessi mál nokkuð óljós, vegna þess að enginn veit hvernig framkvæmd virðisaukaskattsins verður hagað en þar er eftir að leysa flest ágreiningsmál
innan stjórnarliðsins þótt aðeins séu tveir mánuðir þangað til þessi mikla skattkerfisbreyting á að taka gildi. Ljóst er þó miðað við það fé sem ætlað er til niðurgreiðslna að tæplega getur orðið um verðlækkun að ræða. Rétt er þó að taka fram að ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að taka hluta af fé Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til niðurgreiðslna þá styðst það hvorki við lög né reglugerðir.
    Ég sagði áðan að frumvarpið væri götótt. Stærstu misfellurnar koma væntanlega fram í tæpum forsendum frumvarpsins. Ég ætla ekki hér að áætla hversu það nemur miklum fjárhæðum. En benda má á að vitlausar forsendur í síðustu fjárlögum, þ.e. fjárlögum fyrir þetta ár, hafa kostað ríkissjóð drjúgan hluta af þeim 8 milljörðum sem útgjöldin virðast fara fram úr fjárlögum á þessu ári.
    Séu önnur stærstu atriðin í þessu götótta frv. dregin saman eru þar vitaskuld veigamest vegamálin, um 1000 millj. kr., framlög vegna landbúnaðarins um 300 millj. kr., sem er varlega áætlað, launagjöld og rekstur vegna þess að grunnur frv. er byggður á röngum forsendum, þ.e. á sparnaði sem ekki hefur náðst á þessu ári og er varlega metinn á 400 millj. kr. Óhætt er að telja niðurskurð á framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins óraunhæfan en hann er 500 millj. kr. Og eitthvað verður að ætla fyrir svigrúmi Alþingis til að stoppa í hin smærri götin og er varlega áætlað í það verkefni 400--600 millj. kr. Sá 2,8 milljarða halli, sem birtist í frv. segir því ekki nema hálfa sögu.
    Nú segir hæstv. ráðherra að hallinn á næsta ári eigi að verða helmingi minni en verður á árinu í ár, árinu sem hæstv. ráðherra býr við fjárlög sem afgreidd voru frá hv. Alþingi með rekstrarafgangi upp á 635 millj. kr. Trúi nú hver sem vill að á næsta ári taki fjármálastjórn þessa hæstv. ráðherra slíkum stakkaskiptum að nú takist að halda halla fjárlaga, útgjöldum fjárlaga í nákvæmlega því horfi sem afgreitt verður hér á hinu háa Alþingi. Trúi því hver sem vill miðað við þá reynslu sem þjóðin hefur fengið af þessum hæstv. ráðherra.
    Þó að hæstv. fjmrh. reyni að láta líta svo út sem þetta frv. sé fullkomið og marki einhver tímamót í efnahagssögu okkar Íslendinga þá er það þó sýnu götóttara en það frv. sem þessi hæstv. ráðherra lagði fyrir Alþingi fyrir ári síðan. Fjvn. hefur því mikið

verk að vinna. Það verk verður ekki auðveldara fyrir það að svo virðist sem forustumönnum stjórnarflokkanna í fjvn. komi ýmsir þættir frv. á óvart og þeir verða jafnvel að biðja starfsmenn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um að ganga eftir túlkun eða útskýringum fjmrh. á einstökum þáttum frv. Fróðlegt verður síðan að sjá hvort hæstv. fjmrh. ætlar að kenna Alþingi um þær lagfæringar sem óhjákvæmilegt verður að gera á þessu frv. þegar tekið verður til við það verkefni að stoppa í götin.
    Þetta götótta frv. sem lagt er fram með 2,8 milljarða halla felur í sér, eins og áður sagði, hrikalegan niðurskurð á fé til verklegra framkvæmda, til atvinnuvega og þýðingarmikilla sjóða, en jafnframt stórkostlega útþenslu á rekstri ríkiskerfisins. Allt sannar þetta svo ekki verður um villst að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki náð þeim tökum sem nauðsynleg eru á fjármálum ríkisins.
    Þessi niðurstaða haggast ekki við hástemmdar yfirlýsingar og margs konar málskrúð og orðagjálfur hæstv. fjmrh. Til þess að mögulegt sé að ná tökum á þessu verkefni verður að stöðva útþenslu ríkiskerfisins og síðan að draga rekstrarumfangið saman.
    Til þess að sýna fram á það hvernig þetta hefur þróast á þessum áratug er rétt að vekja athygli á því að frá 1980 til 1990, og er þá miðað við spá fyrir það ár, hefur þjóðarframleiðsla aukist um 4% og þjóðartekjurnar um 8%. En samneyslan hefur aukist um 37%. Á sama tíma minnkar fjárfestingin um 8%. Allir sjá að þetta framhald getur ekki gengið, það felur í sér kollsteypu fyrr eða síðar. Það er því skoðun mín að engum raunverulegum árangri verði náð í ríkisfjármálum nema þessi þróun verði stöðvuð og henni snúið við. Því er það að mínum dómi nauðsynlegt að stöðva útþenslu ríkiskerfisins og draga það að einhverju leyti saman þrátt fyrir að það þýði það að einhver af hinum góðu málum verði að þoka um sinn. En til þess að þetta sé mögulegt verða þeir sem með völdin fara að skilja að þetta er óframkvæmanlegt nema byrjað sé á æðstu stöðum. Þar er Alþingi ekkert undanskilið. En ráðherrarnir verða fyrst og fremst að byrja heima hjá sér, í eigin skrifstofum ráðuneytanna. Þar verður að byrja á því að sýna aðhald og sparnað sem veitir þá um leið ráðherrunum burði til þess að beita þær stofnanir ríkisins sem fjær liggja sömu tökum.
    Núverandi hæstv. ríkisstjórn fer öfugt að. Útþenslan er mest í skrifstofum ráðherranna sjálfra og þó allra mest í skrifstofu fjmrh. Þetta birtist m.a. í því, eins og ég rakti í umræðum utan dagskrár hér á Alþingi nýlega, að einstakir ráðherrar raða pólitískum vildarmönnum sínum á jötuna og það jafnvel á þann hátt að brjóta um leið lög og reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Fjölgun ráðherra og þarflaus fjölgun ráðuneyta, svo sem fyrirhugað er í þessu frv., er og þáttur í þessu. Endurskoðun Stjórnarráðsins getur verið góðra gjalda verð. En formbreytingar og tilfærslur á verkefnum á milli ráðuneyta gera enga stoð ef þær fela ekki í sér sparnað, en slíkar breytingar fela oftar en ekki í sér stóraukin útgjöld

miðað við fyrri reynslu. Þess vegna eru breytingar á skipan Stjórnarráðsins því aðeins til bóta að um leið og menn telja að í þeim felist einhver hagræðing sé einnig í þeim fólginn sparnaður í beinhörðum peningum.
    Hæstv. ráðherra rakti undir lok ræðu sinnar hugmyndir sínar ellegar tillögur um breytingar á undirbúningi fjárlagagerðar. Mér þykir rétt að fara örfáum orðum um þá þætti sem hann greindi frá í þeim tillögum sínum.
    Í fyrsta lagi leggur hann til að breyta fjárlagaárinu þannig að það verði frá 1. júní til 31. maí ár hvert. Meginforsenda hæstv. ráðherra fyrir þessari breytingu var sú að með því gæfist Alþingi betri tími til þess að fást við fjárlagavinnuna og athugun á fjárlagafrv. áður en fjárlög væru afgreidd. Ég hef ekki mikla trú á því að ríkisstjórn, hver sem hún nú í rauninni er, verði tilbúin með fjárlagafrv. og þau nauðsynlegu mál önnur sem fylgja fjárlagafrv. hverju sinni miklu fyrr miðað við lokadag heldur en eftir núverandi skipulagi. Reynslan er sú að ákvarðanir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eru ekki teknar fyrr en rekur að tímaþröng þannig að ég hef ekki mikla trú á því að þetta mundi breyta neinu verulegu í þeim starfstíma sem Alþingi hefði til þess að fást við fjárlagafrv. Hitt er enn þá vitlausara að stefna að því að afgreiðslu fjárlagafrv. á Alþingi beri saman við lokahrinu afgreiðslu mála á Alþingi, þ.e. fyrir apríllok. Það hljóta allir hv. alþm. að sjá sem hér hafa einhverja reynslu að með því væri stefnt í hreina ófæru og miklu meiri erfiðleika en fylgja núverandi skipan.
    Hitt er svo annað mál að þessari tilfærslu á fjárlagaárinu fylgja margháttaðir erfiðleikar aðrir. Ef það yrði reglan, þá þýddi það að allar stofnanir ríkisins og sjóðir yrðu að gera upp sína reikninga tvisvar á ári, í fyrsta lagi miðað við almanaksár, í öðru lagi miðað við fjárlagaár. Og það er vandséð hvort ekki væri nauðsynlegt að breyta einnig skattaárinu þannig að skattaárið yrði ekki lengur almanaksár heldur hið sama og fjárlagaárið. Þessu mundi fylgja stóraukinn kostnaður, fyrirhöfn og vandamál sem ekki er hér tóm til þess að telja upp.
    Hitt er svo rétt sem hæstv. ráðherra sagði að sumar þjóðir Vestur-Evrópu hafa annað fjárlagaár heldur en almanaksár. Svíþjóð hygg ég að sé eitt Norðurlandanna sem er með annað fjárlagaár heldur en almanaksár. Fjölmargar þjóðir hafa á síðari árum breytt sínu fjárlagaári frá því sem það áður var yfir í almanaksár en ekki er vitað til þess að nokkur þjóð hafi farið öfugt að svo sem fjmrh. er hér að leggja til. Ég hef því fyrir mína parta hafnað þessum hugmyndum og þó svo ég sé kannski einn af þeim sem eru því hvað best kunnugir hér á hinu háa Alþingi hversu mikil vinna fylgir því að afgreiða fjárlagafrv. fyrir jól, þá er ég eigi að síður sannfærður um að það verk má vinna hér eftir sem hingað til, og betur þó, með því að gera fjvn. að heils árs nefnd sem geti hafið hluta af sínu starfi fyrr á árinu en nú er, því að raunverulega er hún ekki til fyrr en eftir að hún hefur verið kosin á hverju haustþingi.

    Það er svo enn þáttur í þessu máli að nauðsynlegt er að þeir sem með völdin fara í fjvn., þ.e. meiri hl. fjvn. og forustumenn hennar, séu í nánum tengslum við fjmrh. hverju sinni um frumvarpsgerðina og undirbúning fjárlagagerðarinnar í heild. Mér er ekki grunlaust um að eitthvað skorti á það samstarf að þessu sinni.
    Um aðra þætti í þessum tillögum hæstv. ráðherra segir að í framtíðinni verði lögð fram fjárlagaáætlun til þriggja ára samhliða fjárlagafrv. hverju sinni og
hljóti slík áætlun meðferð hér á Alþingi. Þetta er ekki ný hugmynd og a.m.k. tvisvar sinnum var birt með athugasemdum fjárlagafrv. áætlun um þróun tekna og útgjalda ríkissjóðs 2--3 ár fram í tímann. Frá þessu var horfið að ég ætla vegna þess að forsendur fyrir fjárlagadæminu eru í sífellu að breytast og þessar áætlanir stóðust ekki dóm reynslunnar nægilega vel til þess að ástæða þætti til þess að halda þeim áfram. Það má breytast sitthvað í okkar þjóðfélagi ef slíkar áætlanir 2--3, jafnvel 4 ár fram í tímann eiga að hafa raunverulegt gildi. Það er þó ekki fyrir að synja að í þeim felist nokkur leiðbeining miðað við þær forsendur sem eru til staðar þegar þessar áætlanir eru samdar, um það hvernig horfir í fjármálum ríkisins. Þannig tel ég að það sé ástæða til að leggja verk í það að sýna hvernig þær áætlanir líta út miðað við þær forsendur sem til staðar eru þegar þær eru samdar, þ.e. í hverju fjárlagafrv. Hitt tel ég hafa vafasamt gildi að fara að leggja þær fyrir Alþingi til samþykktar svo mikil óvissa sem um þær hlýtur að vera.
    Þá segir hér í þriðju tillögu að útgjaldarammar verði meginaðferð við ákvörðun útgjaldahliðar fjárlaga í framtíðinni. Þannig fái einstök ráðuneyti ákveðna upphæð sem þau skipta síðan sjálf niður á verkefnaflokka og stofnanir áður en fjárlagafrv. er lagt fram. Að sjálfsögðu má um það deila hvort þetta sé rétt aðferð eða ekki. Ég hygg þó að ef þetta ætti að ganga í þann farveg að verulegur hluti af útgjaldafé hvers ráðuneytis væri óskipt og væri til ráðstöfunar að sjálfdæmi ráðherranna ellegar ráðuneytanna sjálfra væri það ekki aðferð sem Alþingi vildi fallast á og ég gæti ekki samþykkt. Væri úthlutun fjármagns af hálfu ráðuneytanna ráðstafað í fjárlagafrv. gæti það orðið allt eins góður grunnur og sú aðferð sem nú er viðhöfð, að endanleg meðferð þeirra mála sé í höndum fjmrh. Ég hygg þó að hvor aðferðin sem notuð er leysi ekki hæstv. fjmrh. og hæstv. fagráðherra undan því að hafa samstarf um að koma þessum málum fyrir þannig að sæmileg skipan sé á. E.t.v. er þessi hæstv. fjmrh. að leggja þetta fram til þess að fría sig undan því að leggja vinnu í það ásamt fagráðherrum og starfsmönnum ráðuneytanna að skipta þessu niður í fjárlagafrv. Ég skal ekki um það segja.
    Tillaga um núllgrunnsáætlanir hefur áður verið til meðferðar á Alþingi og er allrar athygli verð. Ég vil þó einnig taka það fram að ég tel að það sé til bóta að leggja fram sérstakt frv. til fjáraukalaga, þegar það á við eða nauðsynlegt er, og mun koma heim við

tillögur sem í vinnslu eru af hálfu fjvn. sem ég hef hér drepið á en ég ræði ekki frekar vegna þess að þær eru á vinnslustigi.
    Það er þó skilyrði um frv. til fjáraukalaga sem leggja á fyrir Alþingi á haustþingi að það sé lagt fram í tæka tíð. Ég tel að nú sé liðinn sá tími sem eðlilegt er að slíkt frv. komi fram og ef hæstv. fjmrh. ætlar sér að leggja fram slíkt frv. nú er sannarlega tímabært að það sé gert á allra næstu dögum því það er þegar farið að torvelda vinnu fjvn. að slíkt frv. er ekki komið fram svo sem boðað hefur verið.
    Eðlileg framrás verka í fjvn. er sú að það sé byrjað á því að fara yfir slíkt fjáraukalagafrv. og taka það til afgreiðslu og leggja niðurstöðu þess til grundvallar fyrir afgreiðslu á fjárlagafrv. sjálfu fyrir næsta ár. Þess vegna beini ég þessum orðum til hæstv. fjmrh. að hugsi hann sér að standa við þær yfirlýsingar að leggja slíkt frv. fyrir á þessu þingi er meira en tímabært að það sé gert. Það er þegar orðið of seint.
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. fjmrh. lagði fram fjárlagafrv. fyrir ári var það með tekjuafgangi og fjárlögin voru afgreidd í samræmi við það. Þá varð hæstv. fjmrh. tíðrætt um það að áræði og kraft þyrfti til að takast á við erfið verkefni og hrinda þeim í framkvæmd. Það þyrfti áræði til þess að leggja fram fjárlagafrv. með tekjuafgangi og það þyrfti kraft til þess að fylgja því máli eftir á þann hátt að það yrði jafnvægi á rekstri ríkisins á fjárlagaárinu. Og það vantaði sannarlega ekki að af hæstv. ráðherra geislaði bæði áræði og kraftur meðan hann var í ræðustólnum. En svo fór að krafturinn bilaði þegar leið á árið og nú lítur út fyrir, eins og áður hefur verið sagt, að ríkissjóður verði með 5 milljarða halla á þessu ári.
    Þegar hæstv. fjmrh. talaði hér áðan og mælti fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 talaði hann hvorki um áræði eða kraft. Hvort tveggja var horfið. Á hinn bóginn talaði hann um að fjárlögin þyrftu að vera hornsteinn efnahagsstefnu. Reynslan af fjármálastjórn þessa hæstv. ráðherra sýnir að í hans höndum verður hornsteinninn kollóttur og veltur óheftur undan brekkunni.
    Hæstv. ráðherra talaði einnig um þáttaskil og nýjan grundvöll að jafnvægi í efnahagsmálum. Betur að svo væri. En því miður er það aðeins í orði en ekki á borði.