Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu fjárlög íslenska ríkisins sem hafa meiri áhrif á afkomu almennings en nokkuð annað frv. sem hér er lagt fram. Hér er til umræðu hvað heimilin eiga að hafa til skiptanna, hvað almenningur í landinu á að hafa á milli handanna, hvernig á að halda á fjármálum íslenska ríkisins.
    Þeir mættu hér til leiks tveir, þingmaður Alþb. og varamaður hans úr Reykjanesi. Þeir mættu til leiks og varamaðurinn er nú hæstv. fjmrh. Þeir mættu hér til leiks og það verður þjóðinni dýrt því að hér eru lögð fram fjárlög sem eru með þeim hætti að það er eiginlega sama hvort maður snýr þeim upp eða niður, þau geta þess vegna alveg eins staðið á hvolfi. Hér er verið að færa í búning fjárlög íslenska ríkisins með breyttum hætti og þau eru sett fram með þeim hætti að ekki er hægt að lesa úr mörgum þeim atriðum sem hér eru og eiga að vera skýr fyrir almenning án þess að hafa marga sérfræðinga við höndina til þess að skoða nákvæmlega hvað er verið að fela og hvernig haldið er á þessum málum.
    Í frv. er haldið fram að það sé sparnaður. En er það sparnaður sem á sér stað í íslensku fjármálunum hjá ríkinu? Menn geta trúað því, en þegar maður sér að aðeins fjmrn. hækkar um 51% á milli fjárlaga gerir maður sér grein fyrir því að vissulega er hér ekki um sparnað að ræða. Hér er auðvitað verið að auka útgjöld ríkisins. Og það hafa verið gerðar nokkrar úttektir á þessum fjárlögum núna sem sýna að það er aukning í magni á rekstri.
    Það er líka meginatriði við þessi fjárlög að það er talað um að vöruskiptajöfnuður sé jákvæður. En stóru og veigamiklu atriði er gleymt og það er hinn svokallaði fjármagnsjöfnuður. Við getum litið á það að erlendar skuldir hafa aukist verulega á þessu ári í hlutfalli við landsframleiðslu. Og við sjáum það að frá árinu 1988 voru löng erlend lán 41,3% af landsframleiðslu, en núna er útlit fyrir að þetta hlutfall verði rúmlega 50%. Og þá geta menn talið fólki trú um að það sé allt í lagi með þetta frv. sem hér liggur fyrir. Menn geta haldið því fram en það liggur ljóst fyrir að svo er ekki. Það liggur líka ljóst fyrir að það vantar töluverðar upphæðir inn í þetta frv. til þess að það sé sambærilegt við frv. sem var afgreitt hér síðast með þeim lögbundnu greiðslum sem eiga að fara fram.
    Hæstv. fjmrh. heldur því fram að ríkisútgjöld lækki að raungildi. En þetta er ekki rétt. Magn fjárlaganna hefur aukist og þrátt fyrir gífurlegar skattahækkanir nást endar ekki saman á þessu ári og það er talið að það verði um 8 milljarða gat á þessu fjárlagaári. Það er farið með lög íslenska ríkisins með þeim hætti að það er spurning hvort ekki er hægt að draga menn fyrir landsdóm.
    Ég minni á það að hér samþykkjum við lög og þau eru síðan brotin af ríkisstjórninni. Til hvers er þá verið að samþykkja lögin? Það má velta þessu fyrir sér. Og ég vil koma inn á það sem hv. þm. Kvennalistans, 7. þm. Norðurl. e., kom hér inn á

varðandi þjóðarbókhlöðuskattinn. Það eru samþykkt sérstök lög um þjóðarbókhlöðuskattinn. Þau hafa algjöra sérstöðu við lagasetningu vegna þess að í þeim lögum er kveðið skýrt á um það að allt sem komi inn í þessum skatti skuli renna til Þjóðarbókhlöðunnar og skatturinn er eingöngu lagður á til þess að hann renni til hennar. Þessi eignarskattsauki er með þeim hætti að honum verður ekki jafnað við neinn annan skatt að þessu leyti. En honum hefur að langmestu leyti verið skotið undan. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra gaf skatturinn um 817 millj. kr. á verðlagi ársins í ár. Og
samkvæmt upplýsingum frá Ríkisbókhaldinu hafa aðeins 278 millj. kr. skilað sér til byggingarinnar eða 34% af þessum svokallaða þjóðarbókhlöðuskatti. Nú fullyrði ég hér að skattgreiðendur eigi endurkröfurétt á ríkið á þeim skatti sem var ekki notaður í Þjóðarbókhlöðuna vegna þess að þessi þjóðarbókhlöðuskattur er eingöngu ætlaður til Þjóðarbókhlöðunnar og ekki heimilt að nota hann í neitt annað. Ef það væri ekki, þá hefði þetta verið sett upp sem almenn lög en þetta eru ekki almenn lög. Þau fjalla eingöngu um það að þessi tiltekni skattur skuli renna óskiptur til þessa verkefnis. Því verður fljótlega að láta reyna á það hvort hér er ekki um lagabrot að ræða og ég tel að ríkissjóður eigi að endurgreiða skattgreiðendum þennan hluta af sköttum sem þeir hafa greitt. Í rauninni er spurning um það hvort hér er ekki um brot á stjórnarskránni að ræða því að þessi skattur, eins og ég sagði áðan, hefur algjöra sérstöðu í skattlagningu.
    En ég vil líka ræða um það þegar hæstv. fjmrh. segir að það megi gera ráð fyrir að þriggja milljarða kr. halla megi fjármagna með lánum innan lands án þess að valda hækkun vaxta. Þetta er náttúrlega algjör fölsun. Raunávöxtun á ríkisskuldabréfum eru ekki aðeins vextirnir sem eru reiknaðir heldur líka eignarskatturinn og það má reikna með að núverandi raunávöxtun sé um 10% auk verðbóta. Þetta þýðir það að lán sem ríkið er að taka og notar til að fjármagna eyðsluna er þess valdandi að vextir í landinu eru a.m.k. 2% hærri en þeir ættu að vera og hafa spennt upp fjármagnsmarkaðinn með þeim hætti að það
er óviðunandi. Það er óviðunandi að verið sé að fjármagna halla ríkissjóðs með þessum hætti.
    Já, það er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði um 3 milljarðar kr. En ef réttilega væri reiknað með skattatekjum af virðisaukaskattinum, þá væri það líka ljóst að þessi fjárlög væru á núlli því að reiknað er með að virðisaukinn gefi 3 milljörðum kr. meira en er í fjárlögum. Þetta er eitt af því sem er rangt farið með í þessum fjárlögum. Ég gæti hér tekið fjölmörg dæmi úr þessu frv. því til staðfestingar að það hefur verið haldið illa á fjármunum ríkisins. Ég tel að í staðinn fyrir að rembast hérna eins og rjúpan við staurinn og berja sér á brjóst um hvað fjármálastjórn ríkisins sé góð núna, þá væri fjmrh. hollt að fara í læri til Reykjavíkurborgar því þar er góð fjármálastjórn. Hann gæti líka lært þar hvernig á að stjórna fjármálum með fáum og góðum mönnum.

Hann gæti líka lært það hvernig á að byggja stórhýsi í einum áfanga með sem minnstum tilkostnaði en ekki vera um árabil að henda í þetta smáupphæðum. Og hann gæti líka lært það hvernig á að halda starfsmannahaldi innan þeirra marka sem fjárhagur ríkisins leyfir.
    Þó að þessi ríkisstjórn tali um hag láglaunafólksins þá er raunin allt önnur. Ég minni á hækkun á þungaskatti á bifreiðum sem kemur auðvitað niður á þeim lægst launuðu og ég minni á það að þessi ríkisstjórn er enn þá ekki búin að koma sér saman um neitt er varðar virðisaukaskattinn nema bara um grófu brauðin góðu. Það er það eina sem hún er sammála um, grófu brauðin góðu. Það er það eina sem hún er alveg viss um að hún ætlar ekki að hafa mjög háa skatta á. Það væri því betra að ríkisstjórnin vissi hvað hún vildi. Hún veit það ekki. Og hún hefur lækkað framlög til húsnæðismála og það er gert ráð fyrir því núna að þeir sem eiga óafgreiddar lánsumsóknir hjá Húsnæðisstofnun fái ekki þau lán sem þeir eiga rétt á.
    Það er einnig svo að sá feluleikur sem hér er í fjárlögunum á ekkert skylt við vestræna fjármálastjórn. Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að þetta eigi eitthvað skylt við vestræna fjármálastjórn. Sú skattastefna sem núv. fjmrh. boðar á ekkert skylt við það. Hún er sú stefna sem austantjaldsríkin höfðu á sinni tíð meðan þau voru að koma áþján yfir þá sem áttu eitthvað. Í þessu frv. er líka ráðist á íþróttahreyfinguna og nánast ekkert ætlað til hennar. Og ef ekki kæmu til bæjarfélög sem hefðu skilning á þessu, þá stæði íþróttahreyfingin illa, en sérsambönd innan íþróttahreyfingarinnar eru nú í fjárþröng og framlagið til þeirrar starfsemi hefur ekki hækkað nú í nokkur ár.
    Ég minni á það að fjárlög ríkisins eiga að vera skýr, einföld og réttlát en þau eru það ekki. Þau eru flókin og óréttlát. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að við fáum mann sem hefur vit á fjármunum í fjmrn., við fáum mann sem veit að tvisvar tveir eru fjórir en heldur ekki að það séu fimm. Það ber brýna nauðsyn til að við höfum þannig fjármálastjórn að almenningur og fólkið í landinu geti treyst því að fjárlögin 1989 verði með sama hætti og árið 1990, að hægt sé að bera þau saman, að þau séu ekki gerð þannig úr garði að það þurfi sérfræðinga til að finna út hvort raunveruleg hækkun hefur átt sér stað, hvort raunveruleg breyting hefur átt sér stað og hvað hefur breyst. Það að gera fjárlögin eins og hér eru er óvirðing við Alþingi, óvirðing við kjósendur í landinu. Og sú stefna sem það boðar eru verri laun og minni, verri afkoma hjá almenningi og stórkostleg eyðsla og óhóf í ríkisrekstrinum.