Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað svo að það er á valdi forseta að haga störfum með þeim hætti að einstakir þingmenn viti aldrei hvernig að fundarhöldum verður staðið. Það hefur verið sú venja og hún hefur verið föst hér í gegnum árin að réttur þingmanna til kvöldmatar hefur verið virtur. Á hinn bóginn hefur komið los á þetta upp á síðkastið sem er óþolandi. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að t.d. hæstv. forsrh. er fjarverandi við þessa umræðu sem er auðvitað eðlilegt að hann sitji, að hlusta á það sem fram fer. Ég er ekki að óska eftir því að í hann verði náð. En það ber líka að bera virðingu fyrir tíma þingmanna og hæstv. forseti getur ekki gengið út frá því sem gefnu að einstakir þingmenn hafi ekki bundið sig á þeim venjulega tíma sem vani er að ekki standi yfir fundarhöld.
    Ég hygg að fundur hafi staðið nú frá kl. 10 í morgun og ýmsir eru á mælendaskrá. Ég minnist þess ekki við aðstæður eins og þessar að þingmenn hafi ekki getað treyst því að þeir geti ráðstafað sér kvöldmatartíma.