Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er mjög erfitt að átta sig á því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að þau tekjuöflunarfrv. sem boðað hefur verið að lögð verði fram hafa ekki séð dagsins ljós og þær fáu vísbendingar sem gefnar eru í grg. fjárlagafrv. gefa satt að segja litlar upplýsingar um það hvers megi vænta. Það er þó augljóst þegar litið er á tekjuhlið þessa fjárlagafrv. að á næsta ári má búast við að tekjur verði í það minnsta einum til einum og hálfum milljarði minni en þar er gert ráð fyrir vegna þess að hinn almenni samdráttur í landinu á næsta ári verður meiri heldur en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þetta er auðvitað bein afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og ég geri ráð fyrir því að þegar frekari upplýsingar liggja fyrir og frv. fær ítarlegri meðferð í fjvn. muni þetta koma glöggar í ljós sem auðvitað þýðir að fjárlagahallinn er að þessu skapi meiri heldur en segir í fjárlagafrv.
    Það er annað atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á og það er að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að jöfnunargjald nemi á næsta ári 500 millj. kr. Það er í fjárlögum þessa árs 551 millj. kr. Ekki er hægt að sjá í þeirri tekjuáætlun fyrir yfirstandandi ár sem fylgir fjárlagafrv. hversu tekist hefur um innheimtu jöfnunargjalds. Eðli þessa gjalds er að það er lagt á allan innflutning til að mæta uppsöfnun söluskatts hjá innlendum samkeppnisgreinum, framleiðslugreinum og það leiðir af eðli virðisaukaskatts og þeim fríverslunarsamningum sem við höfum gert við önnur ríki að jöfnunargjaldið fellur niður um leið og virðisaukaskattur er lögfestur.
    Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. í þessu sambandi hvort það sé rétt að athugasemdir hafi þegar borist til utanrrh. vegna þeirra áætlana sem uppi eru um innheimtu skattsins á næsta ári þar sem skatturinn brjóti í bága við fríverslunarsamninga. Ég sé að hæstv. fjmrh. hristir höfuðið. Hann hefur þá
fengið aðrar upplýsingar en ég og er nauðsynlegt að ganga úr skugga um það þegar hæstv. utanrrh. kemur til landsins en það mun auðvitað bíða þess tíma.
    En ástæða er til að spyrja hæstv. ráðherra hvort samdráttur hafi orðið verulegur í innheimtu þessa skatts um leið og ég finn mjög að því hversu illa er gengið frá skýringum um tekjuáætlun í fjárlagafrv. Ég get nefnt eitt lítið dæmi. Í sambandi við tekjuskatt á einstaklingum er einungis nettótalan, einungis það sem eftir verður í ríkissjóði, en eðlilegt hefði verið eins og áður hefur verið gert, ég held fram á þetta ár, að sundurliða tekjuskattinn þannig að þm. geti séð hver er brúttóáætlun tekjuskattsins á næsta ári og hver nettó. Vil ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. gefi þær upplýsingar nú við þessa umræðu hver sé brúttótalan á tekjuskatt einstaklinga, hversu mikið af þeim skatti renni til sveitarfélaga, hversu mikið fari í barnabætur, hversu mikið í húsnæðisbætur og þar fram eftir götum eða hvernig þessi mál eru hugsuð.
    Það er skammt síðan hæstv. forsrh. flutti stefnuræðu sína hér á Alþingi en í þeirri ræðu vék

hann nokkuð að virðisaukaskatti og ég tók ekki betur eftir en hann hefði þar notað sama orðalag og er í samkomulagi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar um stjórnarsamstarf frá 10. sept. 1989 þar sem segir:
    ,,Virðisaukaskattur taki gildi um næstu áramót eins og lög gera ráð fyrir. Hann verður í tveimur þrepum. Á smásölustigi verður þó aðeins eitt skatthlutfall til að tryggja öruggari skattskil. Í lægra skattþrepi verður mjólk, kjöt, fiskur og innlent grænmeti og önnur mikilvæg matvæli sem tæknilega er unnt að lækka með fyrirhugaðri framkvæmd enda leyfi svigrúm fjárlaga það. Með þessu móti er að því stefnt að lækka verð á nauðsynlegustu innlendum matvælum og verður niðurgreiðslum hagað í samræmi við það.``
    Í fjárlagafrv. er annar texti. Þar stendur um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Á hinn bóginn hafa stjórnvöld ákveðið að lækka verð á helstu nauðsynjavörum heimilanna í tengslum við kerfisbreytinguna með því að endurgreiða hluta virðisaukaskattsins á framleiðslustigi. Verð á mjólk, dilkakjöti, innlendu grænmeti og fiski mun þannig lækka um tæp 10% í byrjun næsta árs þar sem á þessar vörur verður aðeins lagt ígildi 13% skatts. Þessi aðgerð er talin kosta ríkissjóð um 1 milljarð króna á heilu ári.``
    Í þessum texta er búið að takmarka þessa niðurgreiðslu virðisaukaskattsins við mjólk, dilkakjöt, innlent grænmeti og fisk. Ég skil það svo að ostur t.d. sé ekki niðurgreiddur og kom það raunar fram í plaggi sem hæstv. fjmrh. sendi til þingflokka í gær að stjórnarflokkarnir verði að taka afstöðu til þess hvernig þeir standi að þessari niðurgreiðslu. Hitt vil ég óska eftir að hæstv. fjmrh. upplýsi hið háa Alþingi um hvort hann muni standa við það að verð á þessum framleiðsluvörum sem ég hef hér talið upp lækki um 10% á næsta ári. Hæstv. fjmrh. hefur gripið fram í hér töluvert á þessum kvöldfundi. Það mundi nægja ef hæstv. fjmrh. segði nú já eða nei. Hyggst hæstv. fjmrh. standa þannig að álagningu virðisaukaskatts að útsöluverð þessarar vöru lækki um 10%?
    Í þeirri nefnd sem ég á sæti í fyrir hönd Sjálfstfl. og hefur fjallað um virðisaukaskattinn með hæstv. fjmrh. og fulltrúum þingflokka og ýmsum öðrum embættismönnum spurði ég sérstaklega um þetta atriði og þá var það fullyrt við
mig að það stæði til að standa við það að matvaran lækkaði um 10%.
    Ég skil þögn hæstv. fjmrh. svo að bókstafurinn blífi. Úr því hann vill ekki svara þá þýðir það væntanlega að hann telji augljóst hvað orðin merkja og það muni þá þýða það að þessi matvæli muni lækka um 10% á næsta ári. Það eru út af fyrir sig ágætar upplýsingar. Ef þetta er misskilningur minn þá leiðréttir hann það væntanlega hér á eftir.
    Ég vil við þessa umræðu í sambandi við virðisaukaskatt leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að tímarit njóti þeirra skattahlunninda sem þau njóta nú. Það er svo í raun að söluskattur er ekki lagður á söluverð tímarita. Þetta hefur orðið til þess að hér á landi hefur vaxið mikill markaður fyrir tímarit af

margvíslegu tagi. Mörg þessara tímarita eru mjög vönduð og hafa staðið sig vel í samkeppni við erlend tímarit og við þau vinna mörg hundruð manns. Ég skal ekki fullyrða hvort það eru þrjú, fjögur eða fimm hundruð ársverk sem liggja að baki öllum þessum tímaritum. Á skrá í Landsbókasafni eru 300 tímarit. Auðvitað koma þau stopult út og sum eru unnin í sjálfboðavinnu. Þar fyrir utan er allur sá fjöldi sem hefur atvinnu af því að prenta þessi tímarit og með margvíslegum öðrum hætti tengist óbeint þessari útgáfu. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. treysti sér til að lýsa því yfir núna að hann sé reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að tímaritaútgáfan haldi sinni stöðu. Það er auðvitað mikið menningarmál fyrir okkur Íslendinga að erlendu tímaritin ryðji ekki þeim innlendu burt vegna þess að við þorum ekki að standa á bak við útgáfuna. Það yrði auðvitað mjög dapurlegt ef lögfesting virðisaukaskatts mundi valda því að ein atvinnugrein hér á landi biði mikinn hnekki. Það væri í fullkominni andstöðu við tilgang og eðli virðisaukaskattsins en tilgangur hans er auðvitað sá að styrkja innlenda starfsemi, innlenda framleiðslu í samkeppninni við erlenda. Eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði glögga grein fyrir hér í dag ber þetta fjárlagafrv. þess merki að ríkisstjórnin er menningarfjandsamleg og það er auðvitað mjög sorglegt ef enn einn steinninn sem kastað er í íslenska menningu yrði sá að leggjast gegn íslenskri tímaritaútgáfu. Það yrðu satt að segja ekki fögur eftirmæli um þessa ríkisstjórn.
    Ég vil í þriðja lagi leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að hlunnindi bænda haldi þeirri stöðu sem þau hafa nú innan skattkerfisins. Ég man ekki hvort það er þriðja eða fjórða hver jörð hér á landi t.d. sem hefur veiðihlunnindi og þær tekjur sem bændur fá með þeim hætti ráða oft og einatt úrslitum um það að sveitir eru í byggð.
    Á fundi hér í morgun var hæstv. landbrh. til andsvara og það var satt að segja hálf dapurlegt að heyra til hans og finna að hann hefur ekki þann bakstuðning innan ríkisstjórnarinnar sem nauðsynlegur er til þess að hann geti staðið sig sómasamlega. Það væri t.d. fróðlegt þó ekki væri meira að fá það upplýst hvort hæstv. fjmrh. hafi staðið loðdýrabændum skil á uppsöfnuðum söluskatti frá síðasta ári. Er búið að koma þeim peningum til skila? Það væri fróðlegt að fá það upplýst hér við umræðuna. Auðvitað ber ríkissjóði að skila þessum peningum. Síðast þegar ég spurði um þetta þá hafði það ekki verið gert. Nú má vera að það hafi verið gert nú á haustdögum og þá er það gott en þetta hefur eitt með öðru verið dæmi um það í hvaða úlfakreppu hæstv. landbrh. er og sýnir kannski hver afstaða Alþb. er til íslensks landbúnaðar þegar á reynir.
    Ég legg áherslu á það að 26% virðisaukaskattur er auðvitað allt of hár en við sjálfstæðismenn getum ekki annað en reynt að standa þar á móti eins og við verðum að reyna að standa á móti ýmsu öðru af því sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og er að gera.

    Ég minnist þess, hæstv. forseti, frá vorþinginu að miklar umræður urðu um þá kjarasamninga sem hæstv. fjmrh. gerði við opinbera starfsmenn og hefur nú beðist afsökunar á með því að lýsa því yfir að það eigi að vera aðilar vinnumarkaðarins en ekki ríkissjóður sem móti launastefnuna og hefur hann með þeim ummælum sínum viðurkennt að hann hljóp á sig á sl. vori. Eins og margsinnis hefur komið fram hefur hann hvergi nærri staðið við þær yfirlýsingar og þau fyrirheit sem hann gaf opinberum starfsmönnum í þeim samningum. Upp úr því voru gerðir samningar á hinum almenna vinnumarkaði og í tengslum við þá samninga skrifaði hæstv. forsrh. Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna bréf sem er dagsett 30. apríl 1989 og hefst með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í því skyni að greiða fyrir kjarasamningum milli Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar hefur ríkisstjórnin eftir viðræður við fulltrúa sambandanna ákveðið eftirfarandi:
    1. Samkeppnisstaða útflutningsgreina. Greiðslur verðbóta á freðfisk úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verða lækkaðar á næstu mánuðum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Ríkisstjórnin mun grípa til ráðstafana sem bæti frystiiðnaðinum niðurfellingu verðbótanna með einum eða öðrum hætti verði ekki breytingar til batnaðar á ytri skilyrðum greinarinnar á næstunni. Sama gildir um niðurfellingu sérstakrar endurgreiðslu söluskatts. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á
samningstímanum.``
    Við þetta hefur ríkisstjórnin ekki staðið og liggur það nú fyrir að mjög hæpið er að þessi ríkisstjórn geri tilraun til þess á þeim skamma tíma sem eftir er og skal ég ekki tala um það frekar í þessu sambandi en minna hins vegar á sjöunda liðinn sem heitir Skattlagning fyrirtækja. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Evrópubandalagsins. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun. Ríkisstjórnin mun við heildarendurskoðun eignaskattlagningar taka til athugunar álagningu eignarskatta á atvinnufyrirtæki.``
    Ég rifja upp að við umræður um þessi mál hér í sameinuðu þingi hinn 2. maí 1989 sagði hæstv. forsrh. um skattlagningu fyrirtækja: ,,Þetta er að sumu leyti hafið. T.d. hefur iðnrh. hafið athugun á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og þar koma skattamálin inn í og er fulltrúi fjmrh. þátttakandi í því.``
    Hæstv. iðnrh. segir um þetta efni þegar ráðstafanir um kjarasamninga voru ræddar í Ed. 6. maí 1989, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Ég vek sérstaka athygli á því að í því bréfi sem forsrh. hefur skrifað samstarfsaðilum, þá segir hann að ríkisstjórnin muni taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum eins og hv. þm. vitnaði til. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem eru að verða innan Evrópubandalagsins. En þetta atriði ásamt öðrum er einmitt verkefni sérstakrar nefndar hvað varðar iðnaðinn sem nú starfar með þátttöku fulltrúa ríkisstjórnarinnar og samtaka atvinnugreinarinnar og fólks sem vinnur við iðnað. Ég vænti þess að þær tillögur muni koma að liði við þessa endurskoðun.`` Ég vona að hæstv. fjmrh. heyri það sem ég segi.
    Mig langar í fyrsta lagi til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta sé rétt, að nefnd af þessu tagi hafi verið skipuð sem starfi í samvinnu við samtök atvinnurekenda til að vinna að þessari endurskoðun. Ég óska eftir því að hann láti þingmönnum í té þær upplýsingar sem sú nefnd sem hæstv. iðnrh. vitnaði til hefur safnað og vildi auðvitað gjarnan biðja hæstv. forseta að vera liðlegan í því sambandi ef þingið gæti með einhverjum hætti greitt fyrir því að þessar upplýsingar bærust til einstakra þingmanna. Ef svo er að þessi upplýsingasöfnun er skammt á veg komin og ef svo er, sem frv. til fjárlaga gefur í skyn með þögninni, að engar hugmyndir séu uppi um það að breyta tekjuskattslögum í þá átt sem hæstv. iðnrh. lagði svo ríka áherslu á í umræðum í Ed. á sl. vori, og gengið var eftir þeirri yfirlýsingu af þingmönnum Sjálfstfl., þá bið ég hæstv. fjmrh. að gefa yfirlýsingu um það hér í kvöld hvernig hann skilji þann kafla í bréfi hæstv. forsrh. sem ég hef nú vitnað til.
    Ég hlýt, hæstv. forseti, að finna að því að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera við þessa umræðu. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir því að það geta komið upp ákveðin atriði sem nauðsynlegt er fyrir einstaka þingmenn að fá upplýsingar um. ( Fjmrh.: Ég hef heyrt hvert einasta orð ...) --- Ég sagði hæstv. forsrh. svo að ég held að hæstv. fjmrh. hafi ekki heyrt hvert einasta orð. Ég var að finna að því, hæstv. fjmrh., að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur til þess að hann geti gefið skýringu á því hér hvað hann átti við með þessum kafla í sínu bréfi. Ég man ekki betur en sá skilningur hafi verið uppi á sl. vori að hér væri átt við breytingar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt. ( Fjmrh.: Þingmaðurinn var nú ekki heldur viðstaddur framsöguræðu ...) Ég hlustaði á framsöguræðuna --- að vísu gat ég ekki alltaf verið við --- og fékk af henni útdrátt þar að auki. En það er mjög gott ef hæstv. fjmrh.
hefur gefið glögga skýringu á því hvað þarna er átt við. En auðvitað á það heima í grg. með frv. Ég geri þá ráð fyrir að hæstv. fjmrh. muni endurtaka hér fyrir mig --- ég veit að hann er mælskur maður og hefur ekki mikið fyrir því --- hvað átt er við með þessum orðum og hlýt að finna að því að þeim skuli ekki gerð skil í fjárlagafrv.
    Í bréfi hæstv. forsrh. er enn fremur þessi setning, með leyfi hæstv. forseta, það er 6. tölul., stimpilgjöld:

,,Ríkisstjórnin mun fyrir næstu áramót beita sér fyrir athugun á ákvæðum laga um stimpilgjöld.`` Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvað líði þeirri athugun. Eins og fjárlagafrv. lítur út er gert ráð fyrir að tekjur af stimpilgjöldum á næsta ári verði 1,9 milljarðar kr., eilítið hærri en á þessu ári samkvæmt fjárlögum.
    Nú er það svo að hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir, ekki aðeins hér á Alþingi, ekki aðeins í sjónvarpi, blöðum og útvarpi, heldur í yfirlýsingu sem hún gaf við kjarasamningana á sl. vori, að hún mundi beita sér fyrir lækkun vaxta og fjármagnskostnaðar.
    Nú er það svo um stimpilgjald að það er 1,5% til viðbótar raunvaxtastigi þegar um skuldabréf er að ræða. Það er algengt í viðskiptum að skuldabréf séu til sex mánaða og menn þurfi að endurfjármagna þau með útgáfu nýs skuldabréfs sem þýðir að þessir vextir eru komnir upp í 3%. Fyrir þau fyrirtæki sem þurfa
að treysta á víxilviðskipti eru stimpilgjöldin um 3--4% viðbót á raunvaxtastigið. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. hvort þess sé að vænta að ákvæðum um stimpilgjöld verði breytt þannig að þau verði lækkuð og þannig komið til móts við aðila vinnumarkaðarins og þá sem þyngstan bera fjármagnskostnaðinn sem auðvitað var meiningin að gefa í skyn með þeirri setningu sem ég vitnaði til í áðan.
    Það er mjög erfitt að átta sig á hvaða hugmyndir hæstv. fjmrh. hefur um tekjuskatt einstaklinga eða öllu fremur erfitt að átta sig á hvort hæstv. fjmrh. kemur hugmyndum sínum fram í sambandi við breytingar á lögum um tekjuskatt einstaklinga. Það er nú í fyrsta lagi að hæstv. fjmrh. hyggst skattleggja sparifé. Efnahagsráðgjafi hans hefur lýst því yfir í blaðaviðtali eða blaðagrein að það muni þýða hækkun raunvaxta. Það er almenn skoðun og reynslan alls staðar að skattlagning vaxtatekna eykur vaxtamismun.
    Nú er það ekki svo að hæstv. fjmrh. ætli að skila þessu til baka því að samkvæmt þeim hugmyndum sem hann er hér með er ekki hugmyndin að vaxtatekjur verði frádráttarbærar á móti. Þessu til viðbótar hefur hæstv. fjmrh. ákveðið að beita sér fyrir því að þrep í tekjuskatti verði tvö. Hið hærra þrepið verði kannski 50% af tekjum eða svo. Þegar ofan á það bætist stéttarfélagsgjald, lífeyrissjóðsgjald og annað þvílíkt er farið að taka um 55% af hæstu tekjum í ríkissjóð. Það hefur löngum verið svo hér á landi að eignamismunur hefur verið minni en víðast annars staðar og ástæðan fyrir því hefur verið sú að einstaklingum hefur tekist að koma þaki yfir höfuðið, eignast íbúð eða hús með mikilli vinnu. Hugmyndir hæstv. fjmrh. ganga þvert á þetta. Hugmyndir hans eru þær að skattleggja sem mest, með margvíslegum hætti, það fólk sem er að brjótast í því að eignast þak yfir höfuðið eða fólk sem hefur lent í erfiðleikum og er að reyna að brjótast út úr þeim með vinnu sinni. Það á með öðrum orðum að breyta þjóðfélaginu þannig að fólk geti ekki orðið eignamenn af vinnutekjum.
    Þetta er auðvitað mjög dapurleg mynd sem þannig er dregin í fjárlagafrv. af þeirri ríkisstjórn og af þeim fjmrh. sem nú situr. Það væri mjög gagnlegt að fá

nánari upplýsingar um þetta atriði. En auðvitað er þetta með öðru ástæðan fyrir þeim mikla fólksflótta sem hér er úr landinu, ástæðan fyrir því mikla vonleysi sem hefur gripið um sig hjá þjóðinni og við sjáum með því að atvinnuleysistölur fara hækkandi og fólki sem er í erfiðleikum fjölgar stöðugt, sem sér ekki fram úr sínum vanda, missir íbúðir sínar og húsnæði og þar með fótfestuna í lífinu.
    Á bls. 254 í fjárlagafrv. standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta: ,,210 Háskólinn á Akureyri. Framlag til Háskólans á Akureyri er 78 millj. 48 þús. kr. og er það 60% hærri fjárveiting en í fjárlögum 1989. Mikil hækkun skýrist af áformum um mjög aukna starfsemi á árinu 1989 vegna fjölgunar námsára í heilbrigðis- og rekstrardeildum ásamt stofnun sjávarútvegsbrautar við skólann. Stöðuheimildum fjölgar um 7 frá gildandi fjárlögum og verða alls 20,5. Launagjöld eru alls 41 millj. 938 þús. kr. en önnur rekstrargjöld 21 millj. 400 þús. kr. Framlag til tækja og búnaðar er 5 millj. kr. og 10 millj. er varið til stofnkostnaðar við húsnæði og innréttingar.`` --- Það er auðvitað mjög bagalegt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera við þessa umræðu.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef duga þessir fjármunir ekki til að gera það sem stendur hér í skýringum við fjárlagafrv. og vantar mikið upp á það. Þannig blasir það við ef auknar fjárveitingar fást ekki til skólans að ekki verður unnt að efna til sjávarútvegsbrautar við Háskólann á Akureyri. Ég vil því í fullri vinsemd við hæstv. fjmrh. biðja hann að endurskoða þessar tölur, biðja embættismenn sína um skýringar á þeim texta sem þarna stendur því ég efast ekki um að hæstv. fjmrh. vilji standa við þann texta sem stendur í meginmáli við Háskólann á Akureyri, efast með öðrum orðum ekki um að hæstv. fjmrh. vilji stuðla að því og styðja það að sjávarútvegsbraut taki til starfa á næsta ári eins og áætlanir eru um og standa þannig við það að íslenska ríkið hafi og telji sig hafa efni til þess að mennta það fólk betur en nú er gert sem vinnur við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.
    Hæstv. fjmrh. talar mikið um ga-ga upp á síðkastið. Það er mikið uppáhaldsorð hjá hæstv. fjmrh.

     Að fá borgaða skatta til baka,
     sem er búið að margendurtaka,
     er e.t.v. hægt
     ef að engum er vægt
     og innheimturáðherrann ga-ga.

    Ég bið, hæstv. forseti, afsökunar á því að þurfa að bera baka og taka fram á sunnlensku.