Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur verið hefð á Alþingi Íslendinga í allt of mörg ár, vil ég segja, að það eru helst ekki nema fjmrh. og fulltrúar flokkanna í fjvn. Alþingis sem hafa fjallað um frv. til fjárlaga í ítarlegu máli.
    Ég tel að það sé mjög til skaða að þessi þróun hafi átt sér stað með þeim hætti og e.t.v. felst í því skýringin á því hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram gagnvart hinu háa Alþingi. Það má segja að það sé Alþingi Íslendinga sjálfu að kenna að svo skuli komið sem nú er, að flokkarnir telji það sjálfsagðan hlut að þegar fjmrh. viðkomandi ríkisstjórnar hefur talað komi fulltrúar flokkanna sem eru í fjvn. og fjalli um þessi mál. Þetta þýðir á einföldu máli að það á sér stað ákveðin samþjöppun valds og þekkingar sem hefur afar óæskileg áhrif bæði á störf og stöðu Alþingis og gefur auðvitað þeim sem hafa völdin, þ.e. ríkisstjórn sem telur sig hafa öruggan meiri hluta á Alþingi á bak við sig, enn meiri ástæðu til að vanvirða sjónarmið og skoðanir minni hlutans.
    Ég segi þetta m.a. vegna þess að eftir daginn í dag er mér enn ljósara hvað það er þýðingarmikið að Alþingi Íslendinga styrki stöðu sína frá því sem verið hefur og nú er. Ég segi það ekki vegna þess að hér situr einn ráðherra, hæstv. fjmrh., alls ekki, þannig að þessi orð eru ekki töluð til hans persónulega, heldur eru þetta almennar hugleiðingar alþingismanns í upphafi þess að hann tekur þátt í að ræða hér nokkuð um frv. til fjárlaga.
    Annað er það einnig sem hlýtur að vekja athygli manns á því hvernig komið er í umræðum þessara mála hér á hinu háa Alþingi, að í dag hefur aðeins einn ráðherra, hæstv. fjmrh., verið hér viðstaddur allar umræðurnar, sem er sjálfsagður hlutur því að þetta mál er auðvitað aðalmál hans og á hans ábyrgð í ríkisstjórninni, en það er varla hægt að segja að aðrir hæstv. ráðherrar hafi sést hér undir þessum umræðum. Hæstv. forsrh. var hér í
hálftíma eða í mesta lagi klukkutíma í dag og svo sat hér hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands, ef ég man það rétt, og var viðstaddur nokkra stund og svo sást hæstv. iðnrh. bregða fyrir. Heilbr.- og trmrh. kom augnablik inn í salinn og hneigði sig, sá elskulegi maður, ágæti maður.
    Þetta er náttúrlega ekki góð spegilmynd af því fyrir þjóðina að hæstv. ráðherrar hæstv. skuli ekki sinna því betur þó að ríkisstjórnin sé búin að koma sér saman um þau fjárlög sem hæstv. ríkisstjórn vill koma í gegn og meiri hlutinn sé fyrir hendi. Þetta ber ekki vott um mikla virðingu, hvorki fyrir hinu háa Alþingi né þeim málaflokkum sem hér eru til umfjöllunar. Þess vegna er orðið fullkomlega tímabært að umræða eins og hér fer fram núna eigi sér stað og ætti að standa yfir í minnst tvo til þrjá sólarhringa. Þannig að stjórnarandstaðan ætti þá að taka að sér það hlutverk sem hið háa Alþingi hefur greinilega vanrækt í allt of mörg ár, að fjalla hér ítarlega um einstaka málaflokka í fjárlagafrv. svo að það sé ekki lagt alfarið í vald

hæstv. fjmrh. né þeirra sem sitja í fjvn. Alþingis. Ég sé það að hæstv. fjmrh. skilur vel hvað ég er að fara því að þetta eru vinnubrögð að hans skapi. Þannig mundi hann vilja vinna í stjórnarandstöðu eins og ég hef hér lýst. Það hljóta að verða næstu viðbrögð stjórnarandstöðunnar að taka upp vinnubrögð sem eru nútímalegri og þá með þeim hætti sem ég lýsti hér lauslega áðan.
    Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það er víða hægt að koma við sögu í umfjöllun frv. til fjárlaga fyrir árið 1990, en ég mun einkum fjalla um:
    Í fyrsta lagi veikleika fjárlaganna, í stórum dráttum.
    Í öðru lagi versnandi stöðu þjóðarbúsins út á við.
    Í þriðja lagi mun ég koma hér nokkuð inn á aukna greiðslubyrði vegna erlendra lána. Þar mun ég leiðrétta nokkuð það sem hæstv. fjmrh. hefur haldið fram, bæði hér í þessari umræðu og einnig víðar í sambandi við stöðu þjóðarbúsins, í sambandi við lánamál og einnig í sambandi við aukna greiðslubyrði vegna erlendra lána.
    Í fjórða lagi ætla ég að fjalla nokkuð um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna, þ.e. skyldu þeirra til að afhenda 55% af ráðstöfunarfé sínu til húsnæðismálakerfisins.
    Í fimmta lagi hafði ég hugsað mér að fjalla hér nokkuð um ræðu fjmrh., almennt, og einnig þann þátt ræðunnar hjá hæstv. fjmrh. þar sem mér fannst hann blanda nokkuð saman stöðu sinni sem formanns Alþb. annars vegar og svo stöðu hans sem hæstv. fjmrh. íslenskrar ríkisstjórnar. Það er ýmislegt í þeim innskotum og athugasemdum og ég vil segja árásum sem hæstv. ráðherra gerði á Sjálfstfl. sem gengur ekki alveg upp þegar hæstv. fjmrh. leggur hér fyrir frv. til fjárlaga.
    Í sjötta lagi er það einnig einnar messu virði að fjalla nokkuð um þann kafla í ræðu ráðherra þar sem hann talaði um millifærslur og vildi nú sanna það fyrir þingheimi og þjóðinni að hann væri að leggja niður millifærslukerfið. Ég mun sanna það í minni ræðu að þessi ríkisstjórn er að innleiða og festa líklega það mesta millifærslukerfi sem nokkurn tíma hefur
tíðkast á Íslandi.
    Í sjöunda lagi hafði ég einnig ... ( Fjmrh.: Þetta verður löng ræða hjá þér.) Já, þetta getur orðið nokkuð löng ræða, hæstv. fjmrh., ég veit það að hann hefur gaman af ræðuhöldum og honum er ekki alveg sama hverjir tala, ég hef tekið eftir því, þannig að ég skal gleðja hann með því að ég skal ekki vera allt of stuttorður, en ég skal reyna að vera gagnyrtur.
    En í sjöunda lagi er það atriði líka sem mér fannst mjög athyglisvert er ég kom hér á fundinn í kvöld. Útgáfustarfsemi virðist vera að hefjast hérna í ráðuneytunum. Hér var í hólfunum hjá okkur fréttabréf félmrn. Þetta mun vera nýjung. Ég veit að hæstv. fjmrh. leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál í þeim efnum, en það er mjög athyglisvert ef ráðuneytin ætla að taka upp þann hátt að fara að gefa út sín eigin fréttabréf. Þó að ég hafi auðvitað ekkert

á móti því og telji æskilegt að ráðuneytin upplýsi þjóðina um það sem þau eru að gera, þá efast ég
um að það séu heimildir fyrir því að einstök ráðuneyti geti hafið útgáfu fréttabréfa með þeim hætti sem kemur hér fram í þessu bréfi og mun ég koma nánar að því hér á eftir.
    Í áttunda lagi, sem er náttúrlega það þýðingarmesta, hyggst ég vera hér með vangaveltur um það hvað sé nú hugsanlega fram undan og leggja þá kannski nokkrar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. um það efni og getur hann þá svarað mér hvort sem hann vill sem hæstv. fjmrh. eða formaður Alþb., en auðvitað verður hann látinn svara fyrir allt það sem hér gerist ,,til syvende og sidst``, eins og maður segir á slæmu máli, þegar kemur að kosningum og uppgjöri við þessa ríkisstjórn.
    Svo að ég víki nú máli mínu fyrst að veikleika fjárlaganna. Ef maður lítur á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv. virðist mér það koma í ljós í sambandi við tekjuhliðina að samdráttur í tekjuöflun verði meiri en fjárlögin gera ráð fyrir. Fyrir þá sem alla vega lesa frv. og skoða undirgögn og reyna að kynna sér þetta og líta líka til fortíðarinnar, þá gæti ég trúað, að höfðu samráði við menn sem eru nokkuð kunnugir fjárlögum, að samdrátturinn í tekjuhliðinni gæti orðið meiri en hér er gert ráð fyrir og mundi ég áætla það að hann geti verið á bilinu 1000--1500 millj. þrátt fyrir það að virðisaukaskatturinn skili meiri tekjum. Ég held að tekjusamdráttur í öðru verði það mikill að hann muni ekki vega þar á móti og að innheimta, til þess að mæta þeirri tekjuþörf til þess að ríkissjóður geti staðið við sínar greiðsluskyldur, muni verða með þeim hætti í því versnandi ástandi sem er því miður að verða í íslensku efnahagslífi og kemur einnig fram staðfest í þessum fjárlögum sem er það að það er gert ráð fyrir að framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs aukist um einn milljarð. Þar með staðfestir ríkisstjórnin sjálf í þessum fjárlögum að hún gerir ráð fyrir gífurlega miklu atvinnuleysi á árinu 1990.
    Þá er það jöfnunargjaldið. Ég mundi áætla að þar sé það ofmetið um 500 millj., þannig að ég mundi áætla að tekjuhlið sé ofáætluð um 1500--2000 millj. En ef við skoðum síðan gjaldahliðina, þá sýnist mér, og mun ég fara nánar ofan í það, að gjaldahlið sé vanáætluð um 4--5,6 milljarða kr. Ef við skoðum síðan einstök atriði, einstaka liði sem ég mundi vilja taka inn í það til þess að færa sönnur á þessa fullyrðingu mína, þá mundi ég líta þannig á að í uppgjöri vegna verkaskiptingar, hinna nýju laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sé vanáætlað um 500 millj. kr. Mér sýnist einnig að niðurgreiðslur séu greinilega of lágt áætlaðar. Þær geta orðið á bilinu 700--1000 millj. kr. meiri en þarna er gert ráð fyrir í frv.
    Þá er Lánasjóður. Það er ekki í samræmi við siðferðilegar skuldbindingar, vil ég segja, gagnvart Lánasjóði annað en gera ráð fyrir því að hann þurfi hið minnsta 200--300 millj. kr. til viðbótar. Þá mundi ég áætla að launaliðir væru vanáætlaðir um minnst 500--800 millj. Það er algert óraunsæi að halda því fram að launaliðir breytist ekki meira en fjárlagafrv.

gerir ráð fyrir sem er sáralítið miðað við það ástand og þá verðbólguþróun og þær verðbólguspár sem við þekkjum að eru á bilinu 20--30%.
    Síðan er það Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna. Það eru þessar 500 millj. sem ég tel að séu hreinar reikningskúnstir og eigi auðvitað að skila sér aftur til þessa sjóðs vegna þeirra skuldbindinga sem opinberir starfsmenn hafa gagnvart öðrum liðum í tengslum við þeirra kjaramál og hagsmunamál. Síðan eru minni liðir eins og menntmrn. Ég tel að það sé vanáætlun upp á 200 millj. Einnig er liður sem heitir Niðurgreiðslur á rafmagni. Ég hugsa að þar vanti u.þ.b. 100 millj. Svo er það hin fræga Þjóðarbókhlaða. Þar áætla ég vanáætlun upp á 60 millj. Útflutningsuppbætur þurfa að vera hærri, verða hærri, ekki af því að ég óski eftir því, en samkvæmt þeim lögum og skuldbindingum sem gert er ráð fyrir getur þar verið um að ræða 300--500 millj.
    Byggingarsjóður ríkisins er svo alveg sérstakur kafli út af fyrir sig vegna þess að í sambandi við meðferð hans af hálfu hæstv. fjmrh. er raunverulega um samningsbrot að ræða gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Það eitt hvernig ríkissjóður bregst skyldum sínum þar og samningum er hægt að áætla á bilinu 500--1000 millj. Síðan er það lyfja- og lækniskostnaður sem er mjög
vanáætlaður og þyrfti að vera, ef það ætti að vera sambærilegt við það sem áður hefur verið, 500 millj. Í stuttu máli sagt er hér aðeins í þessum liðum vanáætlun á bilinu 4--5,6 milljarðar.
    Samkvæmt þessu má benda á augljósar hættur í sambandi við þetta fjárlagafrv. og mjög mikinn veikleika í sambandi við framkvæmd fjárlaga árið 1990, það er vegna aukins halla upp á 5500--7700 millj. kr. Það má kannski gera ráð fyrir því að einhver árangur náist í sambandi við áform til sparnaðar en það er ekki óvarlegt að áætla að hallinn á ríkissjóði á næsta ári verði hið minnsta rúmir 4 milljarðar kr. og það er mun meira en stefnt er að í fjárlagafrv. Halli ríkissjóðs á árinu 1990 getur því sem sagt orðið, eins og ég sagði áðan, á þessu bili og orðið yfir 2% af landsframleiðslu sem er vaxandi hlutfall við það sem áður hefur verið.
    Nú geri ég ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. vilji vefengja þetta og hann mun örugglega reyna að svara því hér á eftir og sanna það að þetta muni ekki verða svona. En hvað sem því líður hef ég sett fram mitt mat á því hvernig þetta geti þróast og tíminn einn mun þá leiða það í ljós hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér, hæstv. fjmrh. eða ég ásamt þeim mönnum sem hafa litið á þetta til þess að reyna að komast að niðurstöðu um það hvað sé raunverulegt og einnig til þess að benda hæstv. fjmrh. á verulega veik atriði í framsetningu þessa frv. til fjárlaga.
    En það eru tvö önnur atriði sem er mjög þýðingarmikið að fjalla um vegna fullyrðinga hæstv. fjmrh. um stöðu Íslands í sambandi við erlendar lántökur. Við höfum heyrt hæstv. fjmrh. fullyrða það að staðan hafi farið batnandi og horfur séu góðar í þessum efnum. Hann hefur talað hér mjög ósmekklega

um það hvernig Sjálfstfl. hafi staðið að þessum málum gegnum árin. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, fá að lesa hér upp nokkrar tölur sem sanna það og sýna að staðan hefur aldrei verið verri og mun aldrei hafa orðið verri en í tíð þessa hæstv. fjmrh. Þessi fjárlög og sú staðreynd, viðurkennd í fjárlögum, að verðbólgan geti verið um eða yfir 20% mun hafa það í för með sér að heildarstaðan gagnvart erlendu lánunum hefur versnað til muna og greiðslubyrði þjóðarinnar vegna erlendra lána mun verða mjög slæm árið 1990 og nálgast það að vera hin þriðja versta á áratugnum 1980--1990.
    Ef við lítum fyrst á stöðu þjóðarbúsins út á við, þá kemur í ljós að í fjármálaráðherratíð hæstv. fyrrv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar voru skuldir þjóðarbúsins í hlutfalli við landsframleiðslu, þegar Þorsteinn Pálsson tók við fjmrn., 51,1%. Þegar Þorsteinn Pálsson skilaði af sér sínu ráðuneyti skilaði hann af sér með 40,4% skuldabyrði. Hún hafði sem sagt lækkað í hans tíð úr sem sagt 51,1% miðað við landsframleiðslu niður í 40,4%.
    Þegar núv. hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson tók við fjmrn. var þessi skuldabyrði vegna heildar erlendra lána miðað við landsframleiðslu 41,3%. Árið 1989 mun þessa skuldabyrði vegna langra erlendra lána vera komin upp í 50,4% og stefnir óðfluga í það að verða 53,1% árið 1990. Þetta er samkvæmt heimildum frá Seðlabanka Íslands. Þessar heimildir á hæstv. fjmrh. að þekkja. Þetta er mjög alvarleg þróun og hún er því miður ekki í þá átt sem hæstv. fjmrh. hefur predikað og haldið fram, bæði hér, í sambandi við fjárlagaumræðuna nú, og einnig í ræðum á undanförnum vikum og mánuðum þar sem hann hefur haldið því fram að þessi staða væri að batna.
    Hann hefur einnig haldið því fram að þetta fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun væri þeirrar gerðar að nú þyrfti ekki að auka erlenda skuldabyrði vegna þess að nú yrðu lánin tekin hér innan lands og við höfum heyrt hæstv. fjmrh. lýsa því hér yfir hvað nú gengi vel að selja ríkisskuldabréf, þannig að þessi staða ætti að batna samkvæmt því. En Seðlabanki Íslands metur þetta öðruvísi. Hann metur þetta nákvæmlega eins og ég gat um hér áðan og vísa ég í þau plögg máli mínu til staðfestingar, þannig að staðan fer hríðversnandi.
    Einnig vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að rifja það upp til þess að sýna það hvaða stefna svífur yfir vötnunum þegar staða Íslendinga versnar og skuldabyrðin eykst í sambandi við erlend lán og erlendar lántökur að árið 1980, aðeins tveim árum eftir að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar fór frá, en hún fór frá, eins og menn muna, vorið 1978, voru skuldir þjóðarbúsins í hlutfalli við landsframleiðslu, þ.e. erlend lán, aðeins 29,9%. Ef ég man rétt mun þessi skuldabyrði hafa verið lægri vorið 1978 þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar fór frá. Árið 1981 er þessi skuldabyrði komin í 30,8%, árið 1982 39,0%, árið 1983 48,6, árið 1984 48,5 og árið 1985 51,1%, eins og ég gat um áðan, og fór síðan lækkandi meðan Þorsteinn Pálsson var fjmrh. úr 51,1 niður í 47,5 og niður í 40,4. Árið 1988 var þetta 41,3%, 1989 50,4%

og því er spáð að erlend lán verði árið 1990 178,4 milljarðar en í lok þessa árs 148,3 milljarðar, þ.e. fer upp í 53,1% sem er algjört Íslandsmet í skuldastöðu gagnvart erlendum aðilum. Þessi spilaborg er því hrunin hjá hæstv. fjmrh. svo framarlega sem hann getur ekki hrakið þetta mat og þessar upplýsingar sem ég hef frá Seðlabanka Íslands.
    Ef við lítum síðan á greiðslubyrði erlendra lána miðað við útflutningstekjur, þá er staðan ekki betri hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv.
fjmrh. Þegar Þorsteinn Pálsson tekur við sem fjmrh. árið 1985 er greiðslubyrðin miðað við útflutningstekjur 19,9%. Þegar hann skilar af sér árið 1987 sem fjmrh. er greiðslubyrðin komin niður í 16,1%.
    Þegar núv. hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson tekur við fjmrn. árið 1988 er greiðslubyrði miðað við útflutningstekjur 17,3%. Samkvæmt lánsfjáráætlun, ef menn lesa plaggið, og með staðfestingu Seðlabankans um það að rétt sé skilið, verður þessi greiðslubyrði, miðað við útflutningstekjur, árið 1990 komin í 20,1% þannig að hún hefur hríðversnað.
    Ég gat um það áðan þegar ég talaði um stöðuna miðað við landsframleiðslu að það er ákveðið stjórnarmunstur sem framkallar alltaf þessa neikvæðu og versnandi stöðu Íslands gagnvart erlendum lánum og gagnvart greiðslubyrði miðað við útflutningstekjur. Það er á þeim tímum þegar það stjórnarmunstur er við lýði á Íslandi sem hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar hefur komið nálægt að búa til. Það er ekkert launungarmál og söguleg staðreynd sem hæstv. fjmrh. hefur stundum verið að státa sig af að hann var einn aðalhöfundurinn að þeirri ríkisstjórn sem Gunnar heitinn Thoroddsen myndaði hér á Íslandi á sínum tíma. Um það urðu miklar deilur í Sjálfstfl. Það er ekkert launungarmál og söguleg staðreynd. Það var ekki vegna þess að við værum að deila á það út af fyrir sig að ágætir sjálfstæðismenn tækju sæti í ríkisstjórn. Við höfðum ekki trú á því að sú stefna sem við hinir sem vorum í meiri hluta fyrir því að vilja ekki fara í ríkisstjórn með Alþb., að sú stefna yrði ofan á sem alþýðubandalagsmenn lögðu áherslu á með jafnhrikalegum og neikvæðum afleiðingum, þannig að þótt okkar menn --- ég segi okkar menn, þetta voru sjálfstæðismenn þó að þeir væru í þessari ríkisstjórn --- mundu ekki geta ráðið við þá þróun og því miður varð niðurstaðan þessi. En út af fyrir sig harma ég það ekkert vegna þess að Sjálfstfl. hélt stöðu sinni og hann styrktist við þetta og vann sínar glæsilegu kosningar í sveitarstjórnarkosningum strax á eftir með góðum styrk margra sem voru stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat að völdum, þannig að við skulum ekkert sýta það. Það er þetta stjórnarmunstur sem hæstv. fjmrh. framkallar sem gerir þessa stöðu sífellt verri fyrir íslensku þjóðina, og það er því miður, hæstv. fjmrh., að ske núna, kannski óafvitandi, að þessi staða, greiðslubyrðin gagnvart útlöndum, versnar og heildarlántökur aukast, erlendar lántökur, með þar af leiðandi versnandi hlutfalli miðað við landsframleiðslu. Þetta er mjög alvarlegt og þetta er ekki góður árangur hjá hæstv. ríkisstjórn Steingríms

Hermannssonar nema síður sé. En þetta er nákvæmlega það sem við sjálfstæðismenn áttum von á. Þetta heitir á mæltu máli, hæstv. fjmrh., aukin greiðslubyrði á Íslendinga, það þýðir verri stöðu og verri afkomu landsmanna þegar til lengdar lætur, því miður.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja nokkrum orðum að því sem einn stjórnarþingmaður, hv. þm. Alexander Stefánsson, kom inn á hér áðan í sambandi við skyldukaup lífeyrissjóðanna, 55% skyldukaupin. Það er nú svona innískot miðað við það að ég er nú fyrst og fremst hér til þess að fjalla um fjárlögin og beini máli mínu einkum til hæstv. fjmrh., en ég get nú samt ekki annað en vakið athygli á því sem kom fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni í sambandi við skyldukaup lífeyrissjóðanna. Það virðist hafa farið fram hjá hv. þm. hvað hefur verið að gerast í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það er að vissu leyti furðulegt að einn af aðalstuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, Alexander Stefánsson, skuli ekki hafa gert sér grein fyrir þessum samningum og því samkomulagi sem ríkisstjórnin hefur gert við þá aðila sem leggja þessa fjármuni til húsnæðismálakerfisins. Ég vil því vekja athygli þingheims á því að í þessu stjórnarsamstarfi virðast sumir hv. stjórnarþingmenn vera settir út í horn eða þeir svo illa upplýstir eða fylgjast svo illa sjálfir með. ( Gripið fram í: Þeir ættu nú að geta lesið blöðin.) Já, ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, það er alveg lágmarksskylda alþingismanna að lesa dagblöðin, maður kemst víst ekki fram hjá því. En vegna þess að ég tel að fjmrh. hafi farið með rétt mál og hans staða, hann hafi alveg hreint borð í því, þá vil ég nú til áréttingar því sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta, að vísu með öðrum orðum, með leyfi forseta, lesa hér upp kafla úr þskj. nr. 1, þ.e. frv. til fjárlaga, um þetta atriði sem heitir verðbréfakaup lífeyrissjóðanna, því þetta er mjög
þýðingarmikið atriði upp á framhaldsþróun mála í sambandi við húsnæðismálakerfið. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp þar sem segir um verðbréfakaup lífeyrissjóðanna:
    ,,Stærstur hluti innlenda fjármagnsins á uppruna sinn hjá lífeyrissjóðunum. Áætlað er að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna verði um 24,1 milljarður króna á áætluðu meðalverðlagi næsta árs samanborið við 17,6 milljarða króna á þessu ári [þ.e. árinu 1989]. Áætlað er að raunaukning ráðstöfunarfjárins verði um 18% og skýrist sú aukning einkum af tvennu: Lokaáfanga í breikkun iðgjaldastofns lífeyrissjóðanna sem kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs og stækkun eignastofns lífeyrissjóðanna sem leiðir til mjög vaxandi vaxtatekna og afborgana. Reiknað er með að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf af byggingarsjóðunum fyrir 45% af ráðstöfunarfé sínu, þ.e. 10.855 m.kr. [eða 10,8
milljarðar] og er þá miðað við að kauphlutfallið lækki í 45% úr 55% af ráðstöfunarfé þeirra. Þessi lækkun er í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru í tengslum við setningu laganna um húsbréfaviðskipti, en þar er

gert ráð fyrir að um 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna renni til kaupa á húsbréfum. Reiknað er því með að lífeyrissjóðir kaupi húsbréf fyrir að minnsta kosti 2.410 m.kr. Þá eru verðbréfakaup Lífeyrissjóðs bænda af Stofnlánadeild landbúnaðarins áætluð um 130 m.kr.``
    Ég vil undirstrika það og þingfesta það að í þessu er yfirlýsing um það að fyrirheit jafngildi samningum og ég veit að hæstv. fjmrh. virðir þetta fyrirheit sem gefið var, eins og hér kemur fram, í sambandi við setningu laganna um húsbréfaviðskipti. Þá greiddum við ýmsir þm. m.a. því frv. sem þá lá fyrir atkvæði okkar með tilliti til þessa.
    Þá vil ég, með leyfi forseta, einnig víkja að því atriði sem tengist vaxtaspursmáli og húsbréfakaupum. Það hefur komið fram í þessum umræðum að vextir munu væntanlega fara lækkandi. Félmrh. mun hafa gefið það til kynna, ég man ekki hvort hún hefur sagt það sjálf, en hvað sem því líður þá liggur það fyrir þeim sem væntanlega munu kaupa húsbréfin að það er gert ráð fyrir því að þau verði með 6% vöxtum. Ég vona þá að hæstv. fjmrh. geti þá annaðhvort staðfest þetta eða hrakið, varðandi það atriði hvort þetta sé rétt skilið.
    Í þessu felst auðvitað ákveðin vaxtalækkun sem er auðvitað æskileg. En þessu tengist líka annað sem ég mun víkja að hér á eftir í sambandi við húsnæðismálakerfið í heild sem er það atriði að það er greinilegur vilji hjá a.m.k. sumum ráðherrum, ég tel þar á meðal vera hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. sem eru farnir að viðurkenna þá staðreynd að það er ekki hægt að vera með húsnæðismálakerfi þar sem vextir eru þetta á bilinu frá 1% upp í 3,5% á skuldabréfum þeirra sem taka lán hjá Húsnæðisstofnun eða byggingarsjóðunum á sama tíma sem ríkissjóður verður að undirgangast ábyrgð á vaxtagreiðslum þar sem skuldabréf eru með 6,8% vexti eða 6% vexti. Ég mun ræða það nokkuð hér á eftir í sambandi við skoðun mína og afstöðu til Húsnæðisstofnunar.
    Eins og ég sagði áðan í upphafi minnar ræðu þá var fróðlegt að fylgjast með því að þegar hæstv. fjmrh. flutti fjárlagaræðu sína hér í dag sáust hæstv. ráðherrar aðrir hér harla lítið. Ég var nú að velta því fyrir mér hvort það væri af óvirðingu eða hvort aðrir ráðherrar hefðu svo mikið að gera. Ég kann ekki skýringu á því, það verður náttúrlega hver að meta það eins og það snýr að honum. Þó hefði ég talið það virðingarvott af hálfu annarra ráðherra að vera hér viðstaddir þegar hæstv. fjmrh. flytur sína fjárlagaræðu, alla vega hefði ég gert það, hefði ég verið í ríkisstjórn hjá hæstv. fjmrh. En svo er manni það náttúrlega ljóst sem mestu máli skiptir fyrir hæstv. fjmrh., það skiptir hann raunverulega engu máli hvort þeir eru hér eða ekki, þessir aðrir hæstv. ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar vegna þess að hann, hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., ræður þessu öllu saman hvort sem er ásamt sínum ágæta aðstoðarmanni, Má Guðmundssyni. Þessir ágætu menn fjalla um þessi viðamestu mál ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að þeir þurfa ekki að hafa hér aðra

hæstv. ráðherra fyrir framan sig vegna þess að þeir ákveða það með sínum skörungsskap, með sinni stefnufestu --- ég er alls ekki sammála þeirri stefnu nema síður sé --- og með sínum nútímalegu vinnubrögðum eins og kemur fram hér í ræðu hæstv. fjmrh. Hann talar um það hér einhvers staðar í sinni ræðu og er í þessu plaggi að hér sé nú unnið dálítið öðruvísi, það eru breytt vinnubrögð. Þetta er hluti af nýjum og breyttum vinnubrögðum. Ég segi nú bara fyrir mig, ég óska bara Alþb. til hamingju. Það hefur eignast foringja að mínu mati. Það getur vel verið að það skaði hæstv. fjmrh. að sjálfstæðismaður skuli segja þetta en ég get því miður ekki óskað þjóðinni til hamingju í sömu andránni, né Íslendingum, því það er því miður ekki hamingja, hæstv. fjmrh., að hafa jafnafgerandi og stefnufastan, vinstri róttækan nútímasósíalista í stöðu fjmrh. á Íslandi. Því miður. Þessi stefna hæstv. fjmrh. og hans, ég vil segja að mörgu leyti hæfu sérfræðinga og samstarfsmanna, þessi stefna hans í sambandi við fjármál ríkisins og í sambandi við skattamál mun því miður ekki færa íslensku þjóðinni þá hamingju sem ég gæti ímyndað mér að hæstv. fjmrh. mundi vilja færa henni, vegna þess að stefnan er röng. Hún gengur ekki upp miðað við íslenskar aðstæður. Hún gengur ekki upp miðað við það umhverfi sem við lifum í. Fyrst og fremst vegna þess að við Íslendingar höfum ekki svigrúm til þess að útfæra svona vinstri stefnu, svona kerfisbundna stefnu sem raunverulega felst í þessum fjárlögum. Þess vegna er ekki unnt að óska Íslendingum til hamingju með það að valdamesti maðurinn í ríkisstjórn Íslands skuli vera róttækur, ég vil segja róttækur nútímasósíalisti, sem kemst upp með það að vera afskaplega ósvífinn. Ég ætla ekki að vera hér með nein stóryrði um það í hverju þessi ósvífni er fólgin en í mínum huga kemur ýmislegt upp þegar ég hugsa til þess hvað hæstv. fjmrh. getur stundum verið ósvífinn í sínum málflutningi og sínum skoðunum og hvað hann gefur öðrum oft lítið svigrúm til þess að tjá sig og fylgja sínum málum eftir með þeim hætti sem verður að teljast lýðræðislegt og þingræðislegt. Kapp er best með forsjá, líka í stjórnmálum.
    Þegar ég var að hugleiða það að mæla þessi orð sem eru náttúrlega nokkuð stór en þó held ég að ég hafi nú ekki talað þannig til hæstv. fjmrh. að hann þurfi að vera sleginn yfir þeim, þá fór ég að hugleiða það hvernig hann útfærir sín völd sem fjmrh. í þessari ríkisstjórn, hver er hans afstaða til veigamikilla mála sem ráðherra annars vegar og svo formaður Alþb. hins vegar.
    Í ræðu sinni hér í dag braut hæstv. fjmrh. ákveðnar hefðir sem hafa myndast á hinu háa Alþingi um það hvernig fjmrh. á að leggja fyrir sitt fjárlagafrv. Hann leyfði sér að ráðast hér í sinni ræðu, með innskotum, á Sjálfstfl., einstaka forystumenn Sjálfstfl., og viðhorf okkar til mála með þeim hætti að hann verður að eiga von á því að því sé mætt með þeim hætti sem ég mun gera hér á eftir.
    Það er nú einu sinni þannig að menn verða að átta

sig á því að þegar þeir breyta út af venjum og brjóta, ég vil segja eru að eyðileggja góðar hefðir, þá kemur náttúrlega nýtt upp og því verður svarað og er svarað. Ég vil þess vegna segja við hæstv. fjmrh. að þegar hann víkur að okkur sjálfstæðismönnum með þeim hætti að ástæðulausu í þessari ræðu í dag þá munum við auðvitað svara fyrir okkur. Og ég mun svara þannig að þjóðin væntanlega fái að heyra það hvernig ég met þá stöðu hæstv. fjmrh. og alþýðubandalagsmannsins og formanns flokksins, Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Tökum dæmi um það hvernig hann umgekkst meiri háttar mál.
    Fyrsta dæmi: Stóriðjumál. Þeir sem hafa fylgst með ferli hæstv. ráðherra frá því hann kom í ríkisstjórn og skoða síðan samþykktir Alþb. í sambandi við stóriðju og þeir sem þekkja eitthvað til innviða íslensks valdakerfis, þeir gera sér fullkomlega grein fyrir því að alþýðubandalagsmenn sem ráða ferðinni um aðild Alþb. í þessari ríkisstjórn, þeir ætla ekki að standa við afstöðu Alþb. til stóriðjumála. Ef maður skoðar samþykktir og afstöðu Alþb. til stóriðjumála þá fer ekkert á milli mála að meginþorri þeirra flokksmanna sem hæstv. fjmrh. er formaður fyrir er á móti því að stóriðja verði aukin á Íslandi og hún efld, móti aukinni þátttöku erlends fjármagns á Íslandi. Þannig að ef formaður Alþb. ætti að vera sjálfum sér samkvæmur þá væri hann á móti aukinni stóriðju. En Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., hann er með stóriðju vegna þess að hann leyfir það m.a. að hæstv. iðnrh. vinni núna á hverjum degi mjög skipulega og ákveðið að því að reyna að tryggja samninga um aukna stóriðju á Íslandi sem mundu koma til framkvæmda þegar á næsta ári. Þar með hefur formaður Alþb., ráðherrann Ólafur Ragnar Grímsson, tekið afstöðu með stóriðju þrátt fyrir afstöðu síns eigin flokks.
    Tökum afstöðu hæstv. ráðherra til NATO. Ráðherrann hæstv., Ólafur Ragnar Grímsson, hann er með aðild Íslands að NATO, alla vega berst hann ekki á móti henni. Flokkurinn hans hins vegar er á móti bæði því varnarliði sem situr á Íslandi, suður í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli, og einnig er Alþb. í hjarta sínu og stefnulega á móti aðild Íslands að NATO.
    Við skulum síðan taka þriðja atriðið sem er erlent fjármagn á Íslandi, frjáls viðskipti með peninga á milli landa. Það fer ekkert leynt að hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson vinnur að því núna og er líklega búinn að semja reglugerð sem heimilar erlendum aðilum að eiga hér hlutabréf, kaupa skuldabréf og koma hér inn á íslenskan markað og vera aðilar að íslenskum bönkum og íslenskum fjármálastofnunum. Þar með hefur hæstv. fjmrh. raunverulega líka tekið afstöðu með því, því ekki gerir hann það að stjórnarslitaatriði. Hins vegar er flokkurinn hans, Alþb., á móti öllu slíkum ráðagerðum.
    Síðan ætla ég að leyfa mér að ræða hér dálítið um verkalýðsmál. Ég undrast það nokkuð hvað mér hefur fundist hæstv. fjmrh. hafa lítinn skilning á því hversu

staða láglaunafólks er ömurleg í dag á Íslandi. Ég er ekki að kenna honum persónulega um það hvernig komið er hjá láglaunafólki. Það væri afskaplega ómerkilegt af mér að gera það. Það eru margþættar ástæður fyrir því hvers vegna staða láglaunafólks er jafnslök og hún er en hún hefur líklega ekki í fleiri ár verið jafnerfið og vond og hún er í dag, því miður.
    Þegar hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson talar um stöðu láglaunafólks þá kom það m.a. fram þegar hann talaði í sambandi við stefnuræðu hæstv. forsrh. að hann teldi að staða láglaunafólks hefði bara verið með því allra besta sem verið hefur í fjölda ára. Láglaunafólk þyrfti ekki að kvarta, þetta stefndi allt á betri veg og staða þess hefði stórlega batnað. Ég verð að segja það að ég skil ekki íslensku eða merkingu orðanna ef hægt er að fullyrða það að staða láglaunafólks á Íslandi sé með því besta og trygg í dag. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að fara, eins og hann gerði stundum hér í gamla daga, í kjörbúðirnar og gera innkaup á grundvelli 50--60 þús. kr. mánaðarkaups og segja mönnum svo hvort staðan hafi batnað eða versnað frá því að hann fór í innkaup á sínum tíma þegar hann gerði það og var að bera saman verðlag hérlendis og erlendis. Í viðræðum mínum og af kunningsskap við marga af forustumönnum í verkalýðshreyfingunni sem eru í röðum Alþb. heyri ég kveða við allt annan tón. Þeir sem eru í forustu verkalýðsfélaganna kvarta sáran undan aukinni dýrtíð. Þeir kvarta undan kaupmáttarskerðingu og líklegast munum við sjá það í næsta bréfi kjararáðs að kaupmáttur er líklegast kominn, ja, ég veit
ekki hvernig á að mæla það en líklegast er kaupmátturinn kominn niður fyrir 90% miðað við þann mælikvarða sem þar er notaður og líklegast hefur kaupmáttur launa ekki verið lægri í áratugi en hann hefur þróast í dag. (Gripið fram í.) Þetta mun koma í ljós þegar næsta kjarabréf kemur út þannig að það mun þá staðfest sem ég segi hér að kjaraskerðingin og kjararýrnun hefur orðið gífurlega mikil, miklu meiri en við gerum okkur grein fyrir og ég segi því miður. Ég er ekki að kenna hæstv. fjmrh. um þetta einum út af fyrir sig. Hins vegar hefur sú stefna sem núv. ríkisstjórn fylgir haft gífurlega mikil áhrif til hins verra, því miður, vegna þess hæstv. fjmrh., að þið sjáist ekki fyrir í ykkar valdaspekulationum, núv. hæstv. ráðherrar.
    Félagar formanns Alþb. í verkalýðshreyfingunni eru núna að undirbúa kröfur sem m.a. fela í sér kröfu um launahækkanir en þeir eru að gera annað og meira. Þeir eru einnig að krefjast þess að ríkisstjórnin standi við það að hún móti og framkvæmi atvinnustefnu sem tryggi fulla atvinnu. Ég er sannfærður um það að þegar forusta verkalýðshreyfingarinnar og ekki hvað síst félagar hæstv. fjmrh. í Alþb. sjá það og gera sér grein fyrir því að í þessum fjárlögum er gert ráð fyrir því að það þurfi að setja einn milljarð í Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári, og ef hæstv. ráðherra gerir sér ekki grein fyrir því að með því er

hann sjálfur að staðfesta þann ótta sem er í röðum verkalýðshreyfingarinnar, þá skilur hann ekki um hvað þetta snýst.
    Þá ætla ég að víkja hér nokkuð að millifærslukerfinu. Hæstv. ráðherra vék hér mörgum orðum að því að nú væri tími millifærslna að ljúka og hann vildi þakka sér það sérstaklega. Hér segir orðrétt að það eigi að hækka framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 1250 millj. kr. eða um tæpan milljarð. Þetta er náttúrlega hrein ávísun á það og staðfesting á það að ,,atvinnustefna ríkisstjórnarinnar`` er svo veik að þeir treysta sér ekki til annars en að hækka þetta framlag um 1000 millj. kr.
    En svo að við víkjum nokkuð að því sem hæstv. fjmrh. talaði mikið um í dag sem var þetta atriði að nú væri tímum millifærslna að ljúka. Ég skildi nú ekki almennilega hvað hæstv. fjmrh. var að fara. Að vísu er hægt að finna það í fjárlagafrv. að það er verið að minnka ákveðna tegund millifærslna, en það er bara verið að auka þær annars staðar svo að í þessu felst ákveðin blekking þegar hæstv. ráðherra segir: Tímum millifærslna er lokið. Ég spyr:
Hvað um húsnæðiskerfið? Er ekki húsnæðiskerfið eitt allsherjar millifærslukerfi? Er ekki með lagaboði ákveðið að lífeyrissjóðirnir skuli verja 55% af árlegu ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum húsnæðismálastjórnar? Ég veit ekki betur.
    Nú geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherra muni standa upp og segja: Ég vil nú minna hv. þm. á það að þetta var gert með samkomulagi á sínum tíma í tíð fyrrv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar í ársbyrjun 1986 (Gripið fram í.) þannig að ég get sparað hæstv. ráðherra það að koma inn í málið með þeim hætti. Ég hef alltaf verið á móti þessu millifærslukerfi vegna þess að ég taldi það óþarft þegar í upphafi. Ég hef margsinnis látið þá skoðun koma fram að ég tel að hér sé ríkið óþarfa milliliður. En það sem er að gerast er það að þessar millifærslur aukast ár frá ári og auðvitað kemur hér nútímasósíalistinn, hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson, og hyggur sér gott til glóðarinnar og notfærir sér auðvitað þetta kerfi. Þess vegna vildi ég segja það við hæstv ráðherra og leggja þá spurningu fyrir hann, þar sem hann hefur hrósað sér af því að hann væri að leggja niður millifærslukerfi: Hvers vegna leggur ekki núverandi ríkisstjórn til að þessum millifærslum verði hætt? Hvers vegna hættum við ekki þessum millifærslum upp á 10 milljarða eða 11 milljarða á næsta ári og færum þessi viðskipti yfir til sjóðanna sjálfra, lífeyrissjóðanna, til banka, sparisjóða og annarra fjármálastofnana? Með því mundi náttúrlega það vinnast, fyrir utan þau atriði sem snúa að lántakendum og íbúðabyggjendum, að ríkissjóður væri ekki að taka á sig greiðslubyrði sem ríkissjóður mun raunverulega aldrei geta greitt nema með gífurlegri skattlagningu.
    Ef hæstv. fjmrh. mundi nú vilja leggja það til að þessu mikla millifærslukerfi væri hætt, þá mundi það þýða fyrir lántakendur í fyrsta lagi almenna vaxtalækkun, í öðru lagi minni tilkostnað vegna

lántöku íbúðabyggjenda og í þriðja lagi yrði kerfið sem upp úr því risi bæði mun sveigjanlegra og skilvirkara í framkvæmd. Og í fjórða lagi, sem er náttúrlega meginatriði, að við þetta allt mundi húsnæðiskostnaður lækka.
    Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því er lýtur að félagslegum íbúðum því það er ekki hægt að skilja við þetta mál sem heitir húsnæðisstjórn án þess að fjalla um félagslegar íbúðir. Mér er það ljóst og ég er því samþykkur að löggjafinn, Alþingi, og framkvæmdarvaldið verða að ganga þannig frá málum þegar við leggjum niður þetta millifærslukerfi, núverandi húsnæðismálakerfi, að tryggja verður að félagslegum þörfum verði fullnægt vegna þess að það eru margir sem geta ekki eignast eða þak yfir höfuðið öðruvísi en til komi félagslegt átak. Það er viðurkennt bæði af mér og öðrum.
    Ég er þeirrar skoðunar að ríkið og þar með stjórnmálamennirnir séu óþarfa
milliliðir í þessu efni. Fólkið sjálft, þ.e. eigendur fjármagnsins sem fjármagna að mestu leyti byggingu félagslegra íbúða, getur séð um þessar framkvæmdir. Það þarf enga, hvorki Ólafa Ragnara eða Jóhönnur, sem milligönguaðila í þessum efnum né aðra stjórnmálamenn. Aðilar vinnumarkaðarins, launafólk og vinnuveitendur sem standa á bak við lífeyrissjóðina, eiga að taka þessi mál í sínar eigin hendur og losa fólkið undan krumlu ríkisafskiptamanna, stjórnmálamanna sem hrifsa til sín eignir almennings og nýta þær síðan til að tryggja sín völd og áhrif. ( Fjmrh.: Eru það bara stjórnmálamennirnir í stjórn lífeyrissjóðanna sem ...?) Ja, ef þeir eru sjálfir eignaraðilar að sjóðunum, þá er ekkert óeðlilegt að þeir séu þátttakendur í því. Ég veit að hæstv. ráðherra er sammála mér um þetta. Og ef þeir eru orðnir aðilar í að taka þátt í því að fjalla um þessi mál með atkvæði fólksins, þá náttúrlega verða þeir að gera upp við sig hvort þeir taka sér þær skyldur eða ekki. Ég tel að núv. ríkisstjórn hafi raunverulega ekkert gert frekar en fyrri ríkisstjórnir í þágu almennings í sambandi við lausn íbúðamála. Fólkið hefur raunverulega gert það sjálft að eigin frumkvæði. Það leggur sjálft fram hverja einustu krónu, í fyrsta lagi í formi beinnar fjármögnunar með hluta af nútekjum sínum og í öðru lagi með lánum af eigin sparnaði úr eigin sjóðum sem eru lífeyrissjóðirnir. Húsnæðisstofnunin eins og hún er í dag er fyrirbæri, vildi ég segja, vinstri stjórnmálamanna og er þrándur í götu heilbrigðrar útfærslu húsnæðismála í landinu.
    Þessi fjárlög og lánsfjáráætlun viðhalda núverandi svikamyllu í húsnæðismálum og festa í sessi kerfi sem býður upp á spillingu og misnotkun. Þetta er, því miður vil ég segja, stefna núv. ríkisstjórnar í sambandi við húsnæðismál. Og því miður er ekki fyrir hendi á Alþingi Íslendinga í dag meiri hluti til að leysa upp þetta hættulega og neikvæða kerfi sem skaðar stöðu þeirra þúsunda sem hafa þörf fyrir íbúðir hvort sem það eru félagslegar eða aðrar. Við búum við þetta kerfi og þá verður maður að fjalla um málið út frá

því þar til tekst að fá því breytt. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að núv. ríkisstjórn brýtur gerða samninga við aðila vinnumarkaðarins í sambandi við fjárframlög til húsnæðismála.
    Skv. samningi þeim sem ég vísaði til áðan og gerður var af aðilum vinnumarkaðarins í ársbyrjun 1986 með staðfestingu og samþykki þáv. ríkisstjórnar, sem þessi ríkisstjórn hefur ekki gert breytingu á, þá er það brot á samningi að núv. ríkisstjórn skuli minnka framlög sín til húsnæðismála með þeim hætti sem kemur fram í þessu frv. til fjárlaga. Með nákvæmlega sama hætti og lífeyrissjóðirnir skuldbundu sig til þess að kaupa fyrir 55% af ráðstöfunarfé skuldabréf af húsnæðismálastjórn skuldbatt ríkisstjórnin sig á sínum tíma, og núv. ríkisstjórn er jafnskuldbundin þeirri undirskrift, að leggja fram aukið framlag til húsnæðismála eða til byggingarsjóða. Þetta hefur ekki verið gert og með þessu frv. til fjárlaga sem hér liggur fyrir er verið að brjóta gerða samninga.
    Í ræðu hæstv. fjmrh. sem ég hef vikið hér nokkuð að er þetta staðfest. Ég vil, með leyfi forseta, lesa það sem segir í ræðunni og endurtaka það sem hæstv. fjmrh. sagði í dag sem staðfestir það að það er vísvitandi verið að brjóta gerða samninga. Með leyfi forseta les ég upp úr fjárlagaræðu hæstv. fjmrh.:
    ,,Framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs nemur 1250 millj. kr. og hækkar um tæpan milljarð frá fjárlögum 1989. Aftur á móti lækkar framlag til byggingarsjóðanna um milljarð. Engu að síður munu útlán byggingarsjóðanna á árinu 1990 að teknu tilliti til kaupa lífeyrissjóðanna á húsbréfum verða a.m.k. 500 millj. hærri að raungildi en útlán í fjárlögum 1989. Stafar þetta af því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða er talið munu aukast um 18,5% að raungildi frá árinu 1989.``
    Þarna er raunverulega staðfest í ræðu hæstv. fjmrh. að það er vísvitandi verið að brjóta gerða samninga. Þetta heitir á mæltu máli að svíkja samninga. Sá sem svíkur er réttlaus að mínu mati. Þessi ríkisstjórn skirrist ekki við að svíkja gerða samninga í skjóli þess að vegna lægri vaxta af lánum, Húsnæðisstofnunar og byggingarsjóðanna, munu aðilar ekkert aðhafast í þessu máli, þ.e. þeir sem eru ábyrgðaraðilar að stjórn lífeyrissjóðanna munu ekki þora að hafa uppi gagnaðgerðir. Ég er ekki að segja það að menn ættu að gera slíkt. Það á að standa við gerða samninga og það eigum við auðvitað að gera sem erum í stjórnum lífeyrissjóðanna. En hvað halda hv. þm. að ríkissjóður geti mörg ár í viðbót gengið í ábyrgð fyrir vöxtum á bilinu 3,5% og upp í 6,8--7% eins og er á þeim skuldabréfum sem húsnæðismálastjórn gefur út, til þess að fá það fé inn í kerfið? Ég á við, hvað halda hv. þm. að ríkissjóður geti lengi ábyrgst þennan vaxtamun á sama tíma sem útlán Húsnæðisstofnunar eru upp á 3,5% og lægri, eða 1% hjá Byggingarsjóði verkamanna og upp í 6,8--7%, hvað halda hv. þm. að ríkissjóður geti gengið lengi í ábyrgð fyrir þessum háu greiðslum sem hljóta að koma til útborgunar? Hér er ekki verið að tala um nokkur hundruð millj. kr. Hér er verið að tala um milljarða skuldbindingar sem

verður að greiða til lífeyrissjóðanna í framtíðinni. Og hver er greiðandinn?
Greiðandinn er ríkissjóður. Og hverjir standa undir ríkissjóði? Það er fólkið sjálft, það er unga fólkið sem er að taka sín lán í húsnæðismálakerfinu núna með 3,5%, verðtryggt. Það er þetta fólk sem mun standa frammi fyrir því innan fárra ára að ríkissjóður verður í ábyrgð upp á fleiri milljarða vegna þessara skuldbindinga. Þetta þýðir á einföldu máli að skattar munu hækka og þeir sem töldu sig heppna að fá þessi lán á þessum góðu kjörum eru látnir borga þetta margfalt. Hæstv. félmrh. hefur viðurkennt þetta í ræðum á þingi sl. vetur. Hún kom inn á það þegar hún var að tala um húsbréfin að það yrði að hækka vextina úr 3,5% upp í allt að 5--6%. Hún er þegar farin að framkvæma það með sínum húsbréfum sem koma til sölu um miðjan nóvember n.k. og verða með 6% vöxtum.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, segja það að hæstv. fjmrh. er búinn að margundirstrika það hér í dag í ræðu sinni að það er raunverulega góð staða lífeyrissjóða landsmanna en ekki snilli hans sjálfs eða hæstv. ríkisstjórnar sem gerir ríkisstjórninni kleift að ná saman fjárlögum og lánsfjáráætlun. Þegar grannt er skoðað, þá hvílir þetta raunverulega á þessum hrygg sem heitir ,,Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna``. Þeir eru komnir nokkuð langt með að ná þessu fé undir sig. Við vitum það sem fylgjumst með þessum málum að í stað þess að greiða peninga sem lífeyrissjóðirnir leggja inn í húsnæðiskerfið strax út í formi lána til þeirra sem eru að byggja hefur hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. félmrh. látið það óátalið --- ég segi óátalið --- að geymslufé þessarar stofnunar hjá Seðlabanka hefur komist upp í það að verða tæpir tveir milljarðar.
    Nú var skyndilega boðað fyrir nokkrum dögum að Húsnæðisstofnun ætlaði að fara að greiða út 700 millj. strax. Þar með er náttúrlega viðurkennt að féð var fyrir hendi þótt því hafi verið mótmælt trekk í trekk sl. haust. Við vitum það sem fylgjumst með þessum hreyfingum að enn er eftir rúmur milljarður þrátt fyrir það að 700 millj. eru greiddar út og kannski meira. Það liggur fyrir fsp. frá mér til hæstv. félmrh. þar sem óskað er eftir sundurgreiningu á því hver hefur verið sjóðsstaða húsnæðismálastjórnar sl. þrjú ár. Ég hef ekki fengið svör við þeirri fsp. enn. Ætli ég fái þau nokkurn tíma? Þá mun ég auðvitað gera aðrar ráðstafanir til þess að fá þessar upplýsingar, ráðstafanir sem hæstv. ráðherrar geta ekki stöðvað.
    Ég vil þess vegna segja það að í skjóli góðrar stöðu lífeyrissjóðanna hefur þessari ríkisstjórn tekist að ná þarna í 10--15 milljarða til sinna þarfa á næsta ári. Í skjóli aukinnar skattheimtu, sérstaklega hærri eignarskatta á eignum millitekjufólks, og með því að vera með væntanlega 26% virðisaukaskatt sem kemur til framkvæmda 1. janúar, þá telur þessi hæstv. ríkisstjórn að hún geti afgreitt fjárlög á þessu þingi með þeim hætti að þau dugi íslenskri þjóð árið 1990. Ég held að því miður, þrátt fyrir allar þessar kúnstir, muni það ekki takast vegna þess veikleika sem er innibyggður í þessu fjárlagafrv.

    Virðulegi forseti. Þetta frv. til fjárlaga er fjárlög sem verða á brauðfótum þegar þau eiga að koma til framkvæmda árið 1990 verði þau samþykkt. Þau byggjast á stóraukinni skattheimtu á sama tíma og almenningur og fyrirtæki landsins berjast í bökkum. Þessi fjárlög munu kreppa enn meir að fólkinu í landinu, rýra kjör þess og afkomu til muna. Fjárlögin byggjast á stórauknum millifærslum á fjármunum fólksins í landinu. Þetta eru ekki aðhaldsfjárlög, því miður. Þetta eru eyðslufjárlög. Þetta eru eyðslufjárlög í ríkishít þar sem verið er að byggja upp sterkt valdakerfi vinstri sósíalista.