Skil innheimtumanna ríkissjóðs
Mánudaginn 30. október 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Kveikjuna að þessari beiðni um utandagskrárumræðu er að finna á bls. 30 í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1988. Með leyfi forseta les ég hér upp upplýsingar sem hljóða svo:
    ,,Í árslok 1988 námu skuldir innheimtumanna ríkissjóðs í A-hluta 119,2 millj. kr. en námu í árslok 1987 237 millj. kr. Af einstökum innheimtuembættum skuldaði sýslumannsembættið í Húnavatnssýslu mest eða 31,5 millj. kr. Áður hafa verið gerðar athugasemdir við skil þessa embættis og vísast í því sambandi m.a. til skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1987.``
    Markmið með álagningu skatta og innheimtu þeirra er að sjálfsögðu ekki það að innheimtumenn ríkissjóðs taki sig til og ráðstafi þessum fjármunum að geðþótta. Það vekur athygli að ítrekaðar athugasemdir hafa verið gerðar við skil sýslumannsembættisins í Húnavatnssýslu. Ég tel eðlilegt að varpa þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort óskað hafi verið eftir því að sýslumaður yrði settur af vegna þessa, og þá hlýtur fjmrn. að koma þeirri beiðni til dómsmrh., eða hvort ráðuneytið telji það eðlilegt að í stað þess að fjármunum sé skilað, eins og vera ber, sé aðeins látin koma fram greinargerð yfir það hvað gert hafi verið við peningana.
    Ég hygg að ýmsum embættum þætti fróðlegt að fá svör við þessu því að okkur berast fréttir af erfiðleikum, m.a. úr Stykkishólmi þar sem sagt er að lögreglustöðin sé dæmd óhæf af Vinnueftirliti ríkisins. Ég tel einnig mjög mikilvægt að það liggi skýrt fyrir að Alþingi hafi þá skoðun að þeir sem halda öðrum til laga ættu sjálfir að fara að lögum. Það tel ég grundvallaratriði og undirstöðuatriði. Mér er þess vegna nokkuð heitt í hamsi þegar ég sé athugasemdir eins og þessar í ríkisreikningnum og vil fá það upplýst hvort þessi mál hafa þróast til betri vegar almennt eða hvort þetta er á þann veg sem verið hefur og hér er frá greint.
    Ég tel að það sé líka athyglisvert fyrir hinn almenna mann að sjá að borgardómaraskrifstofurnar skulda 14,7 millj. kr. í árslok 1988 og Sakadómur Reykjavíkur skuldar 10,3 millj. kr. í árslok. Hvers vegna er ekki innsiglað hjá þessum stofnunum? Hvers vegna er ekki innsiglað? Það mundi þá reyna á það hvort forráðamenn þeirra mundu greiða upp skuldina eða segja af sér þannig að hægt væri að skipa aðra menn hæfari til að stjórna þessum embættum.