Skil innheimtumanna ríkissjóðs
Mánudaginn 30. október 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. hans einarðleg svör í þessum efnum. Ég tek jafnframt undir það sem hér kom fram hjá hv. 16. þm. Reykv., að það er hætt við að það mundi léttast í sjóðum ráðuneytisins svo að um munaði ef menn tækju þetta almennt upp og það yrði liðið, þannig að þó að ekki sé hægt að orða það svo að hér sé um fjárdrátt að ræða, þá er hægt að orða það svo að menn séu að ráðstafa ófrjálsri hendi fjármunum sem þeir eiga að skila. Það verður að segjast eins og er að það að slíkt sé aðeins áminningarefni til sýslumanna er svona mildasti texti í þessum efnum sem maður getur hlustað á. Og dálítið er erfitt að skilja að ekki skuli vera fastar tekið á málum.
    Hvernig mundu menn bregðast við ef sá sem ætti að skila söluskatti lýsti því yfir að hann væri búinn að afhenda Hjálparstofnun þjóðkirkjunnar þessa peninga og ætlaði þeim að ráðstafa þeim og skilaði svo bara kvittuninni fyrir? Ætli yrði ekki dálítið skrýtinn svipurinn sem kæmi á innheimtumenn ríkissjóðs?
    Ég vona að þingheimi sé ljóst að þessi orð eru sögð í fullri alvöru og ég mun fylgjast með því hvort staðið verður við það að halda þessum embættum til eðlilegra skila á því fjármagni sem þeim er ætlað að innheimta eða hvort þessi ga-ga-stjórn fær að halda áfram, en mér sýnist að þá yrði trúlega þannig tekið á málum að menn teldu að þetta yrði þá ráðuneyti ga-ga-mála.