Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989
Mánudaginn 30. október 1989


     Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Ég fylgi úr hlaði till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989. Flm. tillögunnar eru þeir alþingismenn sem valdir voru af þingflokkunum fyrir um það bil ári síðan til að skipa þetta þingmannaráð eða Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins eins og það er nefnt.
    Efni tillögunnar er á þá leið að Alþingi álykti að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hrint verði í framkvæmd ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Stykkishólmi í júní sl. og prentaðar eru með ályktun þessari sem fylgiskjal. Í greinargerð er fjallað nokkuð um þessa stofnun, Vestnorræna þingmannaráðið. Sendinefndir þær er sækja hina árlegu fundi ráðsins eiga að sjá um að kynna þær tillögur sem samþykktar eru fyrir þingi og stjórn í heimalöndum sínum. Stofnskrá þessara samtaka var samþykkt á Alþingi 19. des. 1985. Ráðið hefur einungis tillögurétt í málum en ekki ákvörðunarvald.
    Hlutverk þess er að annast samstarf þjóðþinga Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga og fjalla um sameiginleg hagsmunamál landanna. Aðalfundur er haldinn einu sinni á ári til skiptis í löndunum þremur. Aðalfundur þessa árs var haldinn í Stykkishólmi 14.--16. júní. Stjórn Vestnorræna þingmannaráðsins er kosin á aðalfundi ár hvert. Formaður er nú Friðjón Þórðarson en fyrri varaformaður Jóngerð Purkhus sem er yfirmaður eða ráðherra samgöngumála, efnahagsmála og umhverfismála í Færeyjum. Annar varaformaður er Preben Lange, þingmaður á Grænlandi.
    Ég mun nú, með leyfi virðulegs forseta, lesa yfir samþykktir þær sem voru gerðar á aðalfundinum í Stykkishólmi.
    Sú fyrsta hljóðar svo: ,,Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsstjórna Færeyja og Grænlands og ríkisstjórnar Íslands að þær veiti fé á fjárlögum næstu þrjú ár til vestnorrænu ferðamálanefndarinnar til kynningarstarfs, áætlanagerðar og markaðsrannsókna á sviði ferðamála í löndunum þremur.``
    Önnur tillagan: ,,Vestnorræna þingmannaráðið samþykkir að skora á landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands að vinna að því að skipuleggja kennaraskipti á grunnskóla- og framhaldsskólastigi milli landanna þriggja.``
    Þriðja tillagan: ,,Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til Alþingis Íslendinga að skrifstofa Norðurlandaráðs í Reykjavík annist fyrst um sinn verkefni stjórnunarlegs eðlis fyrir ráðið. Enn fremur að Alþingi veiti til þess nauðsynlegt fé og aðstöðu.``
    Loks er fjórða tillagan: ,,Vestnorræna þingmannaráðið ályktar að skora á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær geri árið 1992 að sérstöku vestnorrænu ári. Megináherslan verði lögð á jafnréttismál karla og kvenna, umhverfismál og æskulýðsmál. Ráðstefna um jafnrétti verði haldin á Íslandi, ráðstefna um

umhverfismál á Grænlandi og um æskulýðsmál í Færeyjum. Enn fremur skorar ráðið á stjórnvöld að þau veiti nægilegt fé til þessara mála og tilnefni hvert einn fulltrúa til að undirbúa vestnorrænt ár 1992.``
    Þá er yfirlýsing er svo hljóðar: ,,Með tilvísun til ályktunar nr. 4, sem samþykkt var á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Ilulissat 1988, vill ráðið lýsa áhyggjum sínum af hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi og hvetur stjórnvöld viðkomandi landa til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem birtar eru í ályktuninni, m.a. með því að kalla strax til hóp sérfræðinga til að annast fyrrnefnd umhverfisvandamál. Ráðið skorar því á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær geri allt sem í þeirra valdi stendur til að beita stórveldin þrýstingi í því skyni að flýta afvopnun á Norður-Atlantshafi.
    Ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af auknum siglingum kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta á þessu hafsvæði. Er það mat ráðsins að öllu máli skipti fyrir umhverfi landanna þriggja og tilvist að höfin verði gerð kjarnorkuvopnalaus.``
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja að best fari á því að kynna þessar samþykktir með svipuðu sniði og gert var á síðasta þingi. Þá var flutt till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1988, sjá 169. mál 111. löggjafarþings. Þá var hinn árlegi aðalfundur haldinn á Grænlandi. Þeim tillögum var að lokinni fyrri umræðu vísað til utanrmn. Að lokinni umfjöllun þar samþykkti Alþingi að vísa málinu til hæstv. ríkisstjórnar. Hvað síðan hefur gerst veit ég ekki svo gjörla. Hitt veit ég að þær samþykktir voru á margan hátt hinar merkustu. Segja má að um þær, eða a.m.k. hliðstæðar tillögur að efni og anda, sé nú fjallað sem ákafast þar sem umhverfis- og mengunarmál ber á góma, m.a. nú fyrir skömmu í þinghúsinu í Kaupmannahöfn þar sem Norðurlandaráð stóð fyrir fjölmennri ráðstefnu um mengunarmál sjávar. Og ekki fer á milli mála að eylöndin þrjú, Grænland, Ísland og Færeyjar, eiga geysimikilvæg sameiginleg hagsmunamál á sviði hafréttar- og umhverfismála.
    Að því er varðar samþykktir þær sem gerðar voru á síðasta aðalfundi hér á landi mætti margt um þær segja hverja fyrir sig. Ég vek sérstaka athygli á tillögu nr. 1, sem snertir ferðamál o.fl., og nefni í því sambandi það kynningarstarf sem vestnorræna ferðamálanefndin hefur unnið á undanförnum árum, m.a. með ferðakaupstefnum, nú síðast í Reykjavík um miðjan septembermánuð. Ég tel að á þessum vettvangi sé mikið starf óunnið.
    Ég orðlengi ekki frekar um einstaka þætti tillögunnar eða fleiri tillögur. Þeim er hér með komið á framfæri til nánari athugunar. Eins og áður sagði tel ég rétt að tillögu þessari verði að fyrri umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.